HANDKNATTLEIKSFÉLAG Kópavogs, HK, varð þrjátíu ára í gær, en það var stofnað hinn 26. janúar árið 1970 af nokkrum strákum í 6. bekk Kársnesskóla í Kópavogi sem ekki töldu nægilega vel staðið að þjálfun handbolta í Kópavogi.
HANDKNATTLEIKSFÉLAG Kópavogs, HK, varð þrjátíu ára í gær, en það var stofnað hinn 26. janúar árið 1970 af nokkrum strákum í 6. bekk Kársnesskóla í Kópavogi sem ekki töldu nægilega vel staðið að þjálfun handbolta í Kópavogi. Síðan þá hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg, en í því eru nú hátt á þriðja þúsund félagar og er það með starfsemi í fjölmörgum greinum íþrótta.

Haldið var upp á þrjátíu ára afmælið í íþróttahúsinu í Digranesi í gær. Fjöldi félagsmanna mætti til að fagna tímamótunum og bárust félaginu margar góðar kveðjur og gjafir í tilefni afmælisins.