Framleiðandi: Neil Koenigsberg, Lee Gottsegen, Murray Schisgal, Dustin Hoffman, Tony Goldwyn, Jay Cohen. Leikstjóri: Tony Goldwyn. Handrit: Pamela Gray. Tónlist: Mason Daring. Kvikmyndataka: Anthony B. Richmond. Aðalhlutverk: Diane Lane, Viggo Mortensen, Liev Schreiber, Anna Paquin. (107 mín.) Bandaríkin. Myndform, 2000. Bönnuð innan 12 ára.
ÁRIÐ er 1969, Neil Armstrong hefur sett fótspor sín á tunglið og Woodstock er að verða að veruleika. Pearl Kantrowitz er í sumarfríi með fjölskyldu sinni á stað sem þau fara á á hverju sumri. Maðurinn hennar er umhyggjusamur og góður faðir, sem þarf að fara á virkum dögum inn í borgina til þess að sinna starfi sínu og skilur Pearl eftir með börnunum þeirra tveimur. Dóttirin Alison er uppreisnargjarn unglingur og þetta sumar upplifir hún sitt fyrsta stefnumót, koss og Woodstock. Pearl uppgötvar að hún hefur misst af miklu og lendir í ástarsambandi með skyrtusölumanni og fer hún með honum til Woodstock. Eiginmaðurinn kemst að þessu og spyr Pearl hvað sé um að vera en það er einmitt spurningin sem Pearl spyr sjálfa sig.

Diane Lane hefur mjög lengi verið vanmetin sem leikkona og var hún um tíma frægust fyrir að vera eiginkona Christopher Lamberts. Hér sýnir hún að undir réttri handleiðslu gefur hún þeim bestu ekkert eftir. Þetta er fyrsta myndin sem leikarinn Tony Goldwyn leikstýrir og leysir hann verkefni sitt vel af hendi. Handrit Pamelu Gray hefur að geyma raunverulegar persónur og augnablik, sem koma fram ljóslifandi í túlkun hins ágæta leikhóps.

Ottó Geir Borg