SIGURÐUR Guðmundsson landlæknir segir enn vera skiptar skoðanir um ágæti gagnagrunns á heilbrigðissviði og það hafi ekki breyst þrátt fyrir að Íslensk erfðagreining hafi nú fengið rekstrarleyfi.
SIGURÐUR Guðmundsson landlæknir segir enn vera skiptar skoðanir um ágæti gagnagrunns á heilbrigðissviði og það hafi ekki breyst þrátt fyrir að Íslensk erfðagreining hafi nú fengið rekstrarleyfi. Nokkrir læknar hafa lýst þeirri skoðun sinni að þeir muni ekki afhenda upplýsingar í gagnagrunninn nema sjúklingar samþykki skriflega, en í rekstrarleyfinu er gert ráð fyrir að leyfishafi semji við heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um afhendingu gagna.

"Gagnagrunnurinn getur verið mjög mikilvægt rannsóknatæki og mjög spennandi sem slíkur og ef vel tekst til getur hann verið mjög áhugaverður til faraldsfræðilegra rannsókna, lýðheilsurannsókna og ættartengsla sjúkdóma," segir landlæknir og minnir á að búið sé að setja mjög háar girðingar umhverfis grunninn til persónuverndar. "Ég held að óvíða hafi jafn miklar girðingar verið settar og mikill varnarmúr reistur um persónuvernd fólks," segir hann ennfremur.

Landlæknir sagði ekki í ráði að embættið fengi sérstakt lögfræðiálit um afhendingu upplýsinga, fólk hefði þann rétt að segja sig í grunninn og úr honum. Landlæknir segir lækna áður hafa lýst þessum skoðunum að þeir muni ekki afhenda upplýsingarnar og bendir á að í reglum um sjúkraskrár sé kveðið á um ábyrgð yfirlæknis á aðgangi rannsóknarmanna að sjúkraskrám. Varsla sjúkraskráa sé í höndum stofnana en yfirlæknir, lækningaforstjóri eða yfirlæknir deildar eða sviðs, beri ábyrgð á þessum aðgangi. "Það er skilningur manna að það sé stjórn stofnunar sem fari með umboð til samninga um upplýsingar í grunninn. Gert er ráð fyrir samráði framkvæmdastjórnar viðkomandi stofnunar um þetta mál við fagfólk," segir Sigurður Guðmundsson og bendir á að í tilviki Ríkisspítala sitji lækningaforstjóri og hjúkrunarforstjóri í framkvæmdastjórn. "Það verður að teljast mjög ólíklegt að framkvæmdastjórn gangi í berhögg við vilja og skoðanir þessa fagfólks í þessu máli, ég sé varla fyrir mér að það geti gerst."

Í rekstrarleyfinu er gert ráð fyrir að sjúklingur geti óskað eftir því að upplýsingar um hann verði fluttar í gagnagrunninn þrátt fyrir að heilbrigðisstofnun eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmaður hafi ekki samið um slíkan flutning upplýsinga. Skal hann þá senda landlækni þessa ósk og segir Sigurður að embættið muni sjá til þess að þeirri ósk verði mætt. Segir hann sérstakt eyðublað í smíðum vegna þessarar óskar og það verði jafn aðgengilegt og eyðublað sem nota má til úrsagnar úr gagnagrunninum. Vakti landlæknir athygli á því að enginn lokadagur væri á úrsögnum og myndi embættið auglýsa það sérstaklega á næstunni. Þá sagði hann að allmargir mánuðir myndu líða þar til vinna við flutning upplýsinga í gagnagrunninn hæfist.

"Það skiptir máli að okkur takist að setja niður þessar deilur og leita lausna. Við erum að leita leiða til þess. Friður verður að ríkja um rannsóknatæki sem þetta og það verður að ríkja friður um vísindi og það er á ábyrgð okkar að leita lausna," segir landlæknir.