Í NÆSTU ferð geimskutlunnar bandarísku verður Keflavíkurflugvöllur einn af tíu varaflugvöllum fyrir hana á norðlægum slóðum. Sérstakt námskeið var haldið hjá varnarliðinu í gær af því tilefni.
Í NÆSTU ferð geimskutlunnar bandarísku verður Keflavíkurflugvöllur einn af tíu varaflugvöllum fyrir hana á norðlægum slóðum. Sérstakt námskeið var haldið hjá varnarliðinu í gær af því tilefni.

Geimskutlan flýgur í upphafi ferðar sinnar um norðlægar slóðir áður en hún kemst út fyrir gufuhvolfið. Eru þá tilteknir nokkrir varaflugvellir fyrir hana ef eitthvað fer úrskeiðis í skotinu og hún þarf að lenda skyndilega. Friðþór Eydal, blaðafulltrúi varnarliðsins, tjáði Morgunblaðinu að fulltrúi björgunarliðs geimskutlunnar hefði komið hingað til lands og farið yfir ýmis atriði með varnarliðinu og slökkviliði þess.

Geimskutlan þarf 8.500 feta langa flugbraut en brautir Keflavíkurflugvallar eru 10 þúsund feta langar og búa yfir öllum nauðsynlegum aðflugsbúnaði fyrir geimskutluna. Farið var yfir ýmis atriði er varða sjálfa móttökuna, svo sem hvernig geimfararnir eru aðstoðaðir við að komast út úr skutlunni og hvernig þeim er einnig hjálpað úr búningum sínum.

Á myndinni er Doug Huttenlocker, framkvæmdastjóri björgunar geimskutlunnar, að ræða við slökkviliðsmenn og starfsmenn varnarliðsins og þjálfa þá í viðbrögðum við móttöku geimskutlunnar ef til lendingar kemur á Keflavíkurflugvelli.