Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, og Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra eftir undirritun árangursstjórnarsamningsins.
Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, og Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra eftir undirritun árangursstjórnarsamningsins.
SÓLVEIG Pétursdóttir dómsmálaráðherra og Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, undirrituðu í gær árangurstjórnarsamning milli dómsmálaráðuneytisins og Sýslumannsembættisins og hefur ráðuneytið þá gert slíkan samning við alla sýslumenn landsins, alls...
SÓLVEIG Pétursdóttir dómsmálaráðherra og Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, undirrituðu í gær árangurstjórnarsamning milli dómsmálaráðuneytisins og Sýslumannsembættisins og hefur ráðuneytið þá gert slíkan samning við alla sýslumenn landsins, alls 26.

Við undirritun samningsins sagði dómsmálaráðherra að samningar af þessu tagi hefðu gefið góða raun. Starfsramma embættisins væri lýst og stefnt að markvissari samskiptum þess og ráðuneytisins. Hún sagði einnig að með því að skilgreina hlutverk sýslumannsins og samskipti hans við ráðuneytið væri sjálfstæði hans, um stjórnun og rekstur embættisins, fest í sessi.

Í samningnum felst að sýslumaður geri áætlun til þriggja ára um helstu verkefni, forgangsröðun og áherslur, sem ráðuneytið fer svo yfir og samþykkir. Jafnframt skal gerð ársáætlun og ársskýrsla þar sem markmið og árangur eru borin saman.

Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, sagði samninginn marka tímamót í samskiptum ráðuneytisins og embættisins og benti á að góður árangur í stjórn stofnana og fyrirtækja væri eðlileg krafa nútímans. Hann sagði samninginn mjög í anda nýs stjórnskipulags sýslumannsembættisins sem tekið var upp í ársbyrjun 1999, þar sem áhersla er lögð á að embættið komi fram sem heildstæð eining og að viðskiptavinum sé veitt góð þjónusta og móttaka þeirra og afgreiðsla gerð aðgengileg.

Rúnar benti á að fólksfjöldi í umdæminu hefði aukist um 9% frá árinu 1992 og væri nú liðlega 120.000 manns. Því hefði málum hjá sifja- og skiptadeild fjölgað, sem og hjónavígslum, umgengnis- og meðlagsmálum, lögræðismálum og málum sem tengjast dánarbúum.

Hann benti einnig á að þinglýstum skjölum hefði fjölgað úr rúmlega 49.000 árið 1994 í tæplega 58.000 árið 1999 og það væri bæði vegna fólksfjölgunarinnar og einnig vegna þenslu á fasteignamarkaðnum. Nauðungarsölum á fasteignum hefði hins vegar fækkað úr 365 árið 1994 í 162 árið 1999 og sagði hann það væntanlega skýrast af bættu efnahagsástandi sem geri fólki auðveldara að standa í skilum.