MD Foods og Arla eru bæði mjólkursamlög á gömlum merg.
MD Foods og Arla eru bæði mjólkursamlög á gömlum merg.
SAMRUNI hins danska MD Foods og hins sænska Arla í Arla Foods þokaðist nær því að verða að raunveruleika í vikunni, þegar danska samkeppnisstofnunin samþykkti samrunann og ákvað að fara ekki fram á að samkeppnisstofnun Evrópusambandsins, ESB, færi í...
SAMRUNI hins danska MD Foods og hins sænska Arla í Arla Foods þokaðist nær því að verða að raunveruleika í vikunni, þegar danska samkeppnisstofnunin samþykkti samrunann og ákvað að fara ekki fram á að samkeppnisstofnun Evrópusambandsins, ESB, færi í saumana á samrunanum. Samþykki dönsku stofnunarinnar fékkst með skilmálum um að eitt mjólkurbú yrði selt frá, auk eins bús, sem þegar var búið að gera kröfu um að selt yrði. Sænska samkeppnisstofnunin á enn eftir að samþykkja samrunann.

Auk þess kemur samruninn til kasta samkeppnisstofnana í Bretlandi, Grikklandi og Þýskalandi, en hefur þegar verið samþykktur í Finnlandi. Óljóst er hvort eitthvert þessara landa mun vísa málinu til evrópsku samkeppnisstofnunarinnar. Dönsku neytendasamtökin hafa lýst áhyggjum sínum yfir samrunanum, þar sem hið nýja fyrirtæki muni verða einrátt um verðmyndun.

Við samrunann verður til stærsta mjólkursamlag í Evrópu. Samruninn á að verða að raunveruleika 17. apríl.

Mjólkursamlög á gömlum merg

Bæði MD Foods og Arla eru mjólkursamlög á gömlum merg, sem síðan hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. MD Foods er í eigu 9.600 bænda. Hjá því vinna fjórtán þúsund manns, þar af fjögur þúsund utan Danmerkur. Samlagið vinnur rúmlega fimm milljarða kílóa mjólkur á ári og er fjórða stærsta mjólkursamlag í Evrópu. Arla er í eigu 8.400 bænda og vinnur rúma tvo milljarða kílóa mjólkur á ári.

Danska samlagið vinnur um 90 prósent allrar mjólkur í Danmörku, hið sænska 64 prósent sænskrar mjólkur. Í ljósi þessarar stöðu hefur danska samkeppnisstofnunin farið fram á að MD Foods selji um tíu prósent af framleiðslugetu sinni. Um er að ræða tvö mjólkurbú, annað á Fjóni og hitt á Jótlandi.

Þar sem Arla hefur sterka stöðu í Svíþjóð liggur í loftinu að sænska samkeppnisstofnunin muni einnig setja skilyrði um sölu samlaga. Stofnunin tók málið til meðferðar 10. janúar. Samkvæmt evrópskum samkeppnisreglum hefur stofnunin mánuð til að fara í saumana á samrunanum, en í sérlega viðamiklum málum geta löndin tekið sér allt að fjögurra mánaða athugunartíma og það hyggst sænska stofnunin gera. Niðurstöðu hennar er því ekki að vænta fyrr en í apríl.

Í samtali við Dagens Industri í vikunni sagði Monica Widegren hjá sænsku stofnuninni að einnig yrði tekið tillit til þess að vörur MD Foods væru fyrir á sænska markaðnum, svo fyrir þær sakir drægi samruninn úr samkeppni þar. Að öðru leyti vildi hún ekki fjölyrða um málið og þá heldur ekki hvort stofnunin muni skjóta samrunanum til ESB. Hvort hin löndin, sem enn eiga eftir að afgreiða samrunann, gera það er heldur ekki ljóst enn þá.

Uggur um skort á samkeppni

Eftir að niðurstaða dönsku samkeppnisstofnunarinnar lá fyrir sagði Jens Bigum, framkvæmdastjóri MD Foods, að hann væri auðvitað ánægður með niðurstöðuna og ekki síst að ekki þyrfti að nota næsta hálfa árið í að reka málið fyrir ESB. "En ég álít líka að við höfum teygt okkur langt til að fá samþykkið. Samhliða aðhaldi heima fyrir mætum við sívaxandi erlendri samkeppni á heimamarkaði okkar. Bæði ríkisstjórnin og samkeppnisstofnun verða brátt að gera sér ljóst að við erum á opna markaðnum, þar sem fyrirtæki af okkar stærð getur ekki haft einokun, sagði Bigum.

Neytendaráðið danska lítur þó öðrum augum á málið. Í Berlingske Tidende í vikunni segir Poul Wendel Jessen, deildarstjóri Neytendaráðsins, að þessi tvö stærstu samlög á Norðurlöndum hafi augljóslega komið vilja sínum fram við samkeppnisstofnun. Þeir sem töpuðu á öllu saman væru neytendur. "Danskir neytendur eiga eftir að finna fyrir samrunanum með þeim hætti að ekki verður lengur um að ræða samkeppni í verðmyndun mjólkurvara. Þetta nýja stóra samlag, Arla Foods, mun stjórna verðinu, sagði Wendel Jessen.

Þrátt fyrir styrk MD Foods er enn töluvert af litlum samlögum, sem hafa þó átt undir högg að sækja í markaðsglímunni við stóra samlagið. Eftir samrunann verður glíman enn vonlausari að mati Wendel Jessen. En einstök samlög hafa þó náð sérstöðu með því að skipta beint við einstakar verslanir og verslanakeðjur og bjóða þá upp á úrvalsvöru.

Þetta á til dæmis við um Øllingegaard á Norður-Jótlandi, sem selur vistvæna og ófitusprengda mjólk í verslunarkeðjunni Iso, sem einnig hefur á stundum haft ófrosið íslenskt lambakjöt á boðstólum. Þessi mjólk þykir alveg sérlega góð, kemur í búðina innan tíu stunda frá því hún var mjólkuð og er í miklum metum hjá viðskiptavinum Iso.