Júlíus Vífill Ingvarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson
JÚLÍUS Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, sakar meirihluta borgarstjórnar um að reyna að dylja raunverulega fjárhagsstöðu borgarinnar. Þetta kemur fram í bókun, sem borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu, á borgarráðsfundi sl.
JÚLÍUS Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, sakar meirihluta borgarstjórnar um að reyna að dylja raunverulega fjárhagsstöðu borgarinnar. Þetta kemur fram í bókun, sem borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu, á borgarráðsfundi sl. þriðjudag, að fengnu svari um að ekki verði að svo stöddu orðið við óskum þeirra um að leggja fram í borgarráði útreikninga á áætluðum heildarskuldum og peningalegri stöðu samstæðureiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2000.

Fyrirspurninni var svarað á borgarráðsfundinum með bréfi fjármálastjóra borgarinnar. Í svarinu kemur fram að upplýsinganna verði aflað eftir að gerð ársreiknings ársins 1999 lýkur í mars.

Júlíus Vífill sagði í samtali við Morgunblaðið að sjálfstæðismenn teldu þessar upplýsingar nauðsynlegar til að meta í heild skuldaaukningu og skuldastöðu borgarinnar. Þeir teldu heildarstöðuna aldrei hafa verið verri og aukninguna aldrei jafnmikla og undanfarin ár, m.a. vegna skuldsetningar Orkuveitu Reykjavíkur. Með millifærslum og sölu eigna borgarinnar hefði verið búin til villandi mynd af stöðu borgarsjóðs og borgarinnar í heild. Í ljósi þess að t.d. Kópavogur geri áætlun um hvert stefni í heildarskuldastöðu, sem lögð sé fram með fjárhagsáætlun, kvaðst Júlíus Vífill hissa á því að meirihlutinn treysti sér ekki til þess í dag leggja fram áætlaða heildarskuldastöðu í árslok en vísi málinu áfram til gerðar ársreikninga.

Nauðsynlegt sé að meta við gerð fjárhagsáætlunar hvert stefni í fjármálum borgarinnar hvað skuldir varðar og hver áhrif fjárhagsáætlunarinnar verði á heildarskuldir borgarinnar.

Hann kvaðst furða sig á að meirihlutinn neitaði að afla upplýsinga sem auðvelt væri að sækja í bókhald borgarinnar og Júlíus Vífill kvaðst halda því fram að meirihlutinn væri að dylja raunverulega skuldastöðu með því að leita ekki þessara upplýsinga. "Þetta er hluti af því hvernig meirihluti borgarstjórnar hefur hagað sínum áróðri um að faglega sé staðið að stjórn borgarinnar en í rauninni er þar óráðsía," sagði Júlíus Vífill.

Unnið að lokinni gerð ársreiknings

Í svari fjármálastjóra borgarinnar, sem lagt var fram á borgarráðsfundi í gær, segir að stefnt sé að því að vinnu við uppgjör borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar vegna 1999 ljúki í marslok og þá liggi ársreikningur borgarsjóðs og samstæðureikningur fyrir. Áætlaðar heildarskuldir og peningaleg staða samstæðu hafi ekki verið birt áður í tengslum við fjárhagsáætlunargerð og því hafi nauðsynlegum upplýsingum ekki verið safnað við þá vinnu. Til að reikna þessa liði þurfi að afla upplýsinga frá fyrirtækjum og hlutafélögum borgarinnar, þ.m.t. Landsvirkjun.

Rétt sé talið að bíða eftir að vinnu við ársreikning 1999 ljúki áður en umbeðnar upplýsingar séu birtar, m.a. til að gæta samræmis og vegna hættu á að gerð ársreiknings tefjist.

Tillaga um að frumvarp að fjárhagsáætlun taki til allra fyrirtækja sem borgarsjóður á eignarhluta í verði tekin til skoðunar við undirbúning fjárhagsáætlunar ársins 2000.