GENGI íslenska landsliðsins í handknattleik á Evrópumótinu í Króatíu hefur valdið miklum vonbrigðum. Allan léttleika hefur vantað í leik liðsins - leikmenn hafa gefist upp þegar á móti hefur blásið og þá hefur borið á agavandamálum inni á vellinum.
GENGI íslenska landsliðsins í handknattleik á Evrópumótinu í Króatíu hefur valdið miklum vonbrigðum. Allan léttleika hefur vantað í leik liðsins - leikmenn hafa gefist upp þegar á móti hefur blásið og þá hefur borið á agavandamálum inni á vellinum. Það er greinilegt að íslenska liðið hefur ekki verið nægilega vel undirbúið fyrir átökin í Króatíu, enda var undirbúningur liðsins ekki mikill. Aðeins tveir landsleikir voru leiknir frá því í september, eða eftir að farseðilinn til Króatíu vannst í Makedóníu. Tveir landsleikir á fjórum mánuðum!

"Liðið hefur ekki meiri getu en þetta," sagði Þorbjörn Jensson, landsliðsþjálfari, eftir tapið gegn Dönum - fjórða tapleikinn á EM, en fyrir keppnina sagði Þorbjörn að hann væri að fara með sterkasta lið sitt til Króatíu - hann stæði og félli með því.

Áður en haldið var til Króatíu ræddu menn um landsliðið og sagt var að liðið vantaði leiðtoga eins og Geir Sveinsson og Júlíus Jónasson. Það er rétt - Geir og Júlíus eru sterkir einstaklingar, en þeir gátu ekki breytt neinu, þegar ljóst var að halla tók undan fæti hjá landsliðinu. Undirritaður skrifaði 27. nóvember 1998: "Höfuðverkur íslenska landsliðsins er einhæfur sóknarleikur og agaleysi sumra leikmanna á leikvelli. Það er óskiljanlegt að reyndir leikmenn séu að láta reka sig af leikvelli í tíma og ótíma fyrir vanhugsaðar og óþarfa aðgerðir inni á vellinum." Þessi höfuðverkur er enn fyrir hendi, rúmu ári eftir að þessi orð voru rituð - hefur jafnvel versnað, því að meira að segja sterkasta vígi íslenska liðsins - varnarleikurinn - er fallið. Íslenska liðið hefur fengið á sig flest mörk á EM.

27. maí 1999 tapaði Ísland stórt fyrir Sviss í Aarau, 29:20. Í grein Ívars Benediktssonar um leikinn, undir fyrirsögninni: Ráðþrota landslið féll á prófi sínu - Hugmyndabankinn er gjaldþrota, var sagt m.a.: "Landsliðið var algjörlega ráðþrota og bauð eingöngu upp á gömul og gjaldþrota úrræði og uppskar samkvæmt því."

"Sóknarleikurinn var fábreyttur og í raun bauð hann ekki upp á neitt nýtt, heldur gömlu lausnirnar - "Rússastimplingar" og ekkert annað. Greinilegt var að Svisslendingar höfðu kortlagt leik íslenska liðsins og gátu þess vegna notað gömul kort, enda hefur landslagið engum breytingum tekið."

Um síðari viðureignina gegn Sviss, sagði Ívar: "Þá þarf ekki aðeins að opna gleðibankann, heldur hugmyndabankann sem einnig hefur verið lokaður um tíma og eflaust má spyrja sig þeirrar spurningar hvort hann sé ekki gjaldþrota."

Það voru ekki allir ánægðir með skoðun Ívars - þoldu ekki gagnrýni, en landsliðið kom síðan úr kuldanum í alþjóðlegum handknattleik með ævintýralegum endaspretti gegn Sviss. "Þar gerði útslagið þrumuskot Róberts Julian Duranona þegar aðeins þrjár sekúndur lifðu leiks," skrifaði Björn Ingi Hrafnsson. Í fyrstu var haldið að Sviss væri komið áfram í forkeppni EM, síðan kom í ljós að stórsigrar liðanna á Kýpur í keppninni voru þungir á metunum, íslensku lóðin voru þyngri.

Björn Ingi sagði í lok greinar sinnar að hann væri ekki í minnsta efa um að Ísland væri betra en Sviss í handknattleik og sagði:

"En með leyfi; íslenska liðið er atvinnumannalið. Í því eru tveir úr liði ársins í þýsku deildinni, þeirri sterkustu í heimi. Í því er einnig besta örvhenta skytta heims, eins og heimskunnur handknattleiksþjálfari hér á landi benti nýlega á. Í því er einnig Geir Sveinsson, einn af þremur bestu línumönnum heims undanfarinn áratug. Þar eru að auki margreyndir landsliðsmenn úr erfiðum deildum í Evrópu auk sterkustu leikmanna íslensku deildarinnar. Er undarlegt að gera kröfur til slíks liðs? Er eðlilegt fyrir slíkan úrvalsflokk að vera í þeirri stöðu sem liðið komst í og bjargaðist úr aðeins á ævintýralegan hátt?

Svarið er nei. Fyrsti áfanginn á langri leið að endurheimt vegsemdar og virðingar í handknattleik á heimsvísu er að baki - sigur unninn í forkeppni. Vonandi er að árangurinn nú vísi á enn betra í framtíðinni, en aðstandendum íslenska liðsins skal á það bent, að í íþróttum vinnast sigrar inni á vellinum - ekki utan hans."

Af viðbrögðum að dæma frá Króatíu nú eru menn byrjaðir að leita að leiðum út úr ógöngunum, að benda á dómara, þjálfun í Þýskalandi og margt annað. Leikurinn er kominn út fyrir völlinn.

Hér að framan má sjá að fréttamenn Morgunblaðsins höfðu fyrir löngu gert sér grein fyrir hvað væri í vændum, ef ekkert yrði aðhafst. Einhæfur, frjáls handknattleikur hefur ekki skilað árangri. Franski landsliðsþjálfarinn Daniel Costantini, sem er að byggja upp nýtt lið, sem hefur vakið mikla athygli í Króatíu, sagði í viðtali við Morgunblaðið eftir tvo æfingaleiki í Frakklandi í byrjun janúar, að Íslendingar gætu lent í vandræðum í Króatíu, þar sem erfitt væri fyrir leikmenn að undirbúa sig fyrir stórkeppni án þess að fá til þess leiki. "Það getur farið svo að Ísland vinni engan leik," sagði Costantini.

Eitt hefur vaktið þó nokkra athygli í Króatíu, það er að leikmenn íslenska liðsins, sem eru ekki valdir til að leika hverju sinni, eru mættir til að lýsa leikjum, sem þeir taka ekki þátt í, í sjónvarpi. Er hægt að búast við að sjónvarpsmaður, sem á að vera með fagmannlega úttekt á gangi mála á leikvelli, sýni hlutleysi í lýsingum þegar hann er með einn af leikmannahópnum sér við hlið? Getur leikmaðurinn einnig sýnt hlutleysi?

Það verða þeir sem sjá leikina og heyra lýsingu að dæma um. Það þekkist hvergi í heiminum - nema á Íslandi, að landsliðsmenn séu að lýsa leikjum sínum beint í sjónvarpi og útvarpi.

Leikmenn annarra þjóða hafa nóg með að einbeita sér að verkefninu sem þeir eru að fást við inni á leikvellinum.

Sigmundur Ó. Steinarsson