Rússnesk skytta horfir yfir Grosní úr þyrlu. Bardagarnir um Minutka-torg í miðborginni eru sagðir þeir mannskæðustu frá því að sókn rússneska hersins hófst 16. janúar.
Rússnesk skytta horfir yfir Grosní úr þyrlu. Bardagarnir um Minutka-torg í miðborginni eru sagðir þeir mannskæðustu frá því að sókn rússneska hersins hófst 16. janúar.
HLUTI stjórnarandstöðunnar á rússneska þinginu hunsar þingfundi, aðra vikuna í röð, en margt bendir til, að látið verði af mótmælum fljótlega.
HLUTI stjórnarandstöðunnar á rússneska þinginu hunsar þingfundi, aðra vikuna í röð, en margt bendir til, að látið verði af mótmælum fljótlega. Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur verið skipaður formaður hins nýja sambands Rússlands og Hvíta-Rússlands, sem tók formlega gildi í gær.

Þingmenn, sem tilheyra annars vegar Sambandi hægriflokka og Jabloko og hins vegar Föðurlandi-Öllu Rússlandi, gengu út af fyrsta fundi rússneska þingsins í vikunni sem leið til að mótmæla samningi Einingar - flokks Vladímírs Pútíns forsætisráðherra - og kommúnista, en í kjölfar hans var kommúnistinn Gennadí Seleznjov kosinn þingforseti, en öðrum embættum skipt með flokkunum. Hefur samningurinn vakið efasemdir um hollustu Pútíns við lýðræðislegar umbætur.

Vill að mótmælum verði hætt

Sergei Kíríjenko, leiðtogi Sambands hægriflokka, sagði í gær eftir viðræður við frammámenn í Einingu, að þeir hefðu fallist á að styðja tillögur um aukið frjálsræði auk þess sem þeir fullyrtu, að samstarfið við kommúnista yrði ekki til langframa. Því myndi hann reyna að fá Jevgení Prímakov, frammámann í Föðurlandi-Öllu Rússlandi, og Grígorí Javlínskí, leiðtoga Jabloko, til að taka aftur þátt í þingstörfunum, þótt Javlínski teldi slíkt ekki líklegt fyrr en embættaskipan þingsins hefði verið endurskoðuð.

Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, var skipaður formaður hins nýja sambands við Rússland. Hann sagðist vona að það væri aðeins fyrsta skrefið í fullri sameiningu ríkjanna, en samningurinn, sá þriðji á þremur árum, er aðallega táknrænn og felur í sér, að embættismannanefndum verður falið að samræma stefnu ríkjanna. Taka á upp sameiginlegt skattkerfi árið 2001 og sameiginlega mynt 2005.

Hvorki gengur né rekur í sókn rússneska hersins í Grosní og hafði Tass-fréttastofan eftir heimildum innan hersins, að skæruliðar hefðu komið sér vel fyrir í byrgjum og í háhýsum í borginni.

Þá sögðu hermenn, sem berjast í Grosní, í gær að bardagarnir um Minutka-torg í miðborginni væru þeir mannskæðustu frá því að sókn hófst 16. janúar. Ekkert væri hins vegar hæft í staðhæfingum rússneskra stjórnvalda um að hersveitirnar hefðu náð úthverfum í norðausturhluta borgarinnar á sitt vald.

Formaður öryggisráðs Dagestans, nágrannahéraðs Tsjetsjníu, sagði í gær að tsjetsjenskir skæruliðar væru að búa sig undir að laumast inn í héraðið til að geta hafið nýja hrinu sprengjutilræða í rússneskum borgum. En her- og lögreglumenn væru nú á varðbergi vegna hættu á sprengjutilræðum.

Rússneskir fjölmiðlar segja að óánægja með stríðsreksturinn fari vaxandi meðal almennings. Vaxandi óánægja með stríðið virðist þó ekki bitna á vinsældum Pútíns forsætisráðherra, því samkvæmt skoðanakönnun, sem birt var í gær ætla 60% rússneskra kjósenda að greiða honum atkvæði í forsetakosningunum 26. mars nk.