BRYNJAR Björn Gunnarsson hefur þegar sýnt að það var um gjafverð að ræða þegar Stoke City greiddi Örgryte 70 milljónir króna fyrir hann um áramótin.
BRYNJAR Björn Gunnarsson hefur þegar sýnt að það var um gjafverð að ræða þegar Stoke City greiddi Örgryte 70 milljónir króna fyrir hann um áramótin. Svo er allavega sagt í umsögn fréttavefjarins Teamtalk um sigur Stoke City á Blackpool í bikarkeppni ensku neðrideildarliðanna, 2:1, í fyrrakvöld.

Brynjar skoraði fyrra mark Stoke með miklu þrumuskoti af 25 metra færi. Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Stoke, sagði við staðarblaðið The Sentinel, að hann hefði séð hvað Brynjar ætlaði sér. "Ég hef oft séð hann skora úr svona stöðu, meðal annars fyrir íslenska landsliðið gegn Írum," sagði Guðjón.

Teamtalk segir að munurinn á liðunum tveimur hafi fyrst og fremst legið í Brynjari Gunnarssyni, sem átti hörkuskot í slá rétt áður en hann skoraði markið.

"Það er skiljanlegt ef margir aðdáendur Stoke hafa talið fyrirfram að Íslendingurinn væri ekki tilbúinn í hörkuna í Englandi. En hann hefur sýnt takta sem skilja hann frá meðalmönnum í þessari deild og nú lítur út fyrir að 70 milljónir hafi verið gjafverð," segir í umsögn vefjarins.