Hver fundurinn rekur nú annan hjá þýska handknattleiksliðinu Gummersbach - reynt er að bjarga hinu sökkvandi skipi. Enginn virðist vita hver raunveruleg fjárhagsstaða liðsins er.
Hver fundurinn rekur nú annan hjá þýska handknattleiksliðinu Gummersbach - reynt er að bjarga hinu sökkvandi skipi. Enginn virðist vita hver raunveruleg fjárhagsstaða liðsins er. Þannig segir aðalstyrktaraðilinn, SMM (hugbúnaðarfyrirtæki), að fyrirtækið hafi þegar greitt mun meir en því ber, og því sé öllum greiðslum lokið. Kienbaum, sem fer fyrir nokkrum stórum fyrirtækjum öðrum en SMM, segir að framkvæmdastjórinn, dr. Martin Wortman, geti ekki horfið svona fyrirvaralaust úr starfi, þar sem hann einn viti um hina raunverulegu fjárhagsstöðu klúbbsins.

Ernst Albrecht Lenz, sem hefur tvisvar bjargað félaginu á síðustu stundu, segir að liðið þurfi að minnsta kosti 70 milljónir króna til að klára keppnistímabilið og þeir peningar áttu að koma frá SMM sem nú segist vera búið að borga sitt. Besti leikmaður Gummersbach - Kóreumaðurinn Yoon - fær laun sín beint frá SMM og er þar á launaskrá, en ekki hjá Gummersbach. Hann hefur tvær milljónir króna á mánuði, svo ljóst er að ýmislegt þarf að skýrast.

Arno Ehret, þjálfari liðsins, hefur dvalist undanfarið í Króatíu, þar sem hann átti að finna leikmenn fyrir framtíðarlið Wuppertal-Gummersbach. Hann snéri heim í gær og er eins og aðrir hjá liðinu eitt spurningarmerki. Stór fundur er áætlaður i dag þar sem tekin verður ákvörðun hvort hætt verði hér og nú eða reynt að þrauka til vors. Seppel Simon, blaðafulltrúi Gummersbach, segir jafnframt tilgangslaust að sækja um leyfið fyrir næsta tímabil nema engill detti af himnum. Frestur til að sækja um leyfið rennur út eftir nokkra daga, eða 1. febrúar.