Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri og Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar. "Ungar stúlkur dagsins í dag eru starfskraftar framtíðarinnar. Kynslóð þeirra mun breyta kynjahlutföllum hinna ýmsu starfsgreina."
Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri og Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar. "Ungar stúlkur dagsins í dag eru starfskraftar framtíðarinnar. Kynslóð þeirra mun breyta kynjahlutföllum hinna ýmsu starfsgreina."
NAFN verkefnisins er margrætt og vísar m.a. til frumkvöðulsins Auðar djúpúðgu.
NAFN verkefnisins er margrætt og vísar m.a. til frumkvöðulsins Auðar djúpúðgu. "Orðið getur þýtt hamingja, í því felst einnig merkingin auður reitur fyrir konur og síðast en ekki síst merkingin auðæfi," segir Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar átaksins. Háskólanum í Reykjavík hefur verið falið að annast framkvæmd verkefnisins næstu þrjú árin og er Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri átaksins AUÐUR í krafti kvenna.

"Nú er almennt viðurkennt að ný fyrirtæki stuðla hvað mest að auknum hagvexti. AUÐUR er átak til atvinnusköpunar kvenna með það að markmiði að fjölga fyrirtækjum í eigu kvenna og skila íslensku þjóðinni þannig auknum hagvexti," segir Halla. "Kraftur kvenna er vannýtt auðlind að okkar mati. Virkjun þessa krafts kemur öllum til góða. Verkefnisstjórn AUÐAR er ekki að aumka sig yfir konur, heldur að veita þeim fræðslu og hvatningu til að standa á eigin fótum og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd þjóðfélaginu til hagsbóta," segir Guðrún. Námskeið innan átaksins eru ekki einungis fyrir þær konur sem hafa mótaða hugmynd, heldur einnig þær sem skortir hvatningu til að öðlast hugmyndir, auk þess að láta þær verða að veruleika.

Fyrirmynd í Bandaríkjunum

Guðrún situr í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og segir að af þeim umsóknum sem berast Nýsköpunarsjóði séu innan við 15% frá konum. "Það er einnig merkilegt að sjá hve konur eru hógværar. Þær biðja um lán upp á nokkur hundruð þúsund en karlar sækja hiklaust um nokkrar milljónir króna. Það er augljóst að áhættufælni kvenna er oft það sem stendur í vegi fyrir því að þær blómstri í atvinnusköpun. Og skort kvenna á sjálfstrausti má bæta með þekkingu," segir Guðrún.

Aðdragandann að átakinu AUÐUR í krafti kvenna, má rekja til ákvörðunar stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins um að fela Guðrúnu Pétursdóttur að koma með hugmyndir að aðgerðum sem gætu eflt atvinnusköpun kvenna.

Á Íslandi eru 18% fyrirtækja skráð í eigu kvenna en hlutfallið er 38% í Bandaríkjunum. "Þetta hlutfall er á bilinu 25-38% hjá þeim þjóðum sem Íslendingar bera sig helst saman við. Fáar samanburðarhæfar tölur eru til um þetta efni hér á landi en verkefnisstjórn væntir þess að þær verði framvegis fastur liður í rannsóknum á samsetningu atvinnumarkaðarins," segir Halla.

Verkefnið mun standa í þrjú ár, til ársins 2002 og markmiðið er að AUÐUR skili mælanlegum árangri sem felst í fjölgun og vexti fyrirtækja í eigu kvenna. Að verkefninu standa Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Íslandsbanki, Morgunblaðið og Deloitte&Touche. Háskólinn í Reykjavík annast framkvæmd átaksins og sitja fulltrúar frá þessum aðilum í verkefnisstjórn.

Liður í undirbúningi þessa verkefnis var að kynna sér hvernig aðrar þjóðir, t.d. Bandaríkjamenn og Írar, hafa staðið að átaki til að efla nýsköpun á undanförnum árum. "Við leituðum víða fanga," segir Guðrún "og settum í kjölfarið saman þá þætti sem okkur þykja vænlegastir fyrir íslenskar aðstæður. Átak Bandaríkjamanna hefur skilað miklum árangri en þar eru nú 38% fyrirtækja í eigu kvenna eftir mjög markvissar stuðningsaðgerðir af hálfu stjórnvalda sem hafa staðið í meira en áratug. Allan þann tíma hafa verið gerðar mælingar á hagvexti í tengslum við nýsköpun kvenna. Nú er svo komið í Bandaríkjunum að velta fyrirtækja í eigu kvenna hefur fimmfaldast á tíu árum. Konum í atvinnurekstri í Kanada fer einnig mjög fjölgandi og sömu sögu er að segja af Írlandi, Ísrael og fleiri löndum."

Dæturnar með í vinnuna

Helsta verkefni AUÐAR er að efla konur sem nú þegar eru eða hafa hug á að vera þátttakendur í atvinnusköpun. Í því skyni er námskeiðið FrumkvöðlaAUÐUR haldið. Því er ætlað að veita konum hvatningu og stuðning til að auka hæfni sína og möguleika á að koma á fót fyrirtækjum sem geta náð og viðhaldið örum vexti. Á vegum AUÐAR verða haldin tvö frumkvöðlanámskeið á ári þar sem þátttakendur vinna fullmótaða viðskiptaáætlun með það fyrir augum að afla fjár til að stofna og reka fyrirtæki. Í vor verður haldið reynslunámskeið en fyrsta námskeiðið sem hægt verður að sækja um þátttöku í, verður haldið næsta haust.

"Tengslanet karla eru sterk og eiga sér langa sögu í klúbbum eins og Oddfellow, Rotary og Frímúrurum og í ýmsum óformlegum tengslum," segir Guðrún. "Konur hafa að mestu staðið utan við slík tengslanet. Því er mikilvægt að byggja þau upp og gefa konum færi á að kynnast og styðja hver aðra í atvinnulífinu. Í því skyni verður haldin þriggja daga námstefna á hverju hausti á vegum AUÐAR þar sem konum í stjórnunarstöðum verður gefið tækifæri til að kynnast, efla leiðtogahæfileika sína og styrkja tengslanet sín á milli. Þetta á jafnt við um konur í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera og hjá einkafyrirtækjum. Markmiðið er einnig að þær verði öðrum konum stuðningur og fyrirmynd."

AUÐUR mun tileinka einn vinnudag á ári dætrum Íslands. Hinn 18. apríl nk. verður ungum stúlkum á aldrinum 9-15 ára boðið með fullorðnum til vinnu. Markmiðið er að kynna þeim þau tækifæri sem til eru í ýmsum atvinnugreinum og Halla leggur áherslu á að um sé að ræða allar mögulegar atvinnugreinar. "Ungar stúlkur dagsins í dag eru starfskraftar framtíðarinnar og kynslóð þeirra mun breyta kynjahlutföllum hinna ýmsu starfsgreina," segir Guðrún.

Verkefnisstjórn AUÐAR mun leggja áherslu á að hvetja fyrirtæki til að skipuleggja dagskrá hluta úr deginum og foreldrar og aðrir ættingjar eru jafnframt hvattir til að taka dætur landsins með sér í vinnuna þennan dag.

Leiðtogabúðir fyrir ungar stúlkur

Einnig mun AUÐUR gefa stúlkum á aldrinum 13-16 ára tækifæri til að setja sig í spor frumkvöðla í Framtíðarauði, leiðtogabúðum fyrir stúlkur. Stúlkum á þessum aldri verður gefinn kostur á að taka þátt í ritgerðasamkeppni um nýsköpun og höfundum 50 ritgerða sem skara fram úr verður boðin þátttaka í FramtíðarAUÐI. "Markmiðið er að auka sjálfstraust, efla tengslanet og hvetja til hópastarfs meðal stúlknanna." Guðrún segir þau tengsl sem myndast geta á milli stúlkna við þessar aðstæður mikilvæg. "Stúlkurnar kynnast jafnöldrum sínum, víðs vegar að af landinu og þar er kominn grunnur að tengslaneti sem getur enst lengi, AUÐUR mun einnig tengjast grunnskólunum með því að bjóða fram námsefni í Lífsleikni sem Auður Pálsdóttir kennari hefur samið. Um er að ræða 6-8 stunda efni sem byggist m.a. á því að nemendur skipuleggi stofnun eigin fyrirtækis. Halla segir fagstjóra hafa tekið vel í hugmyndina en námsefnið stendur öllum grunnskólum til boða.

Konur líka fjármálaverur

Verkefnisstjórn AUÐAR mun á næstu þremur árum veita konum viðurkenningu og verða AUÐARverðlaunin veitt í fyrsta skipti 19. október á þessu ári. Markmiðið er að veita konum sem sýnt hafa sérstakt frumkvæði viðurkenningu fyrir vel unnin störf og hvetja konur til að skapa ný tækifæri í íslensku atvinnulífi. Það er ætlunin að fleiri en ein kona fái verðlaunin hverju sinni, innan og utan höfuðborgarsvæðis og í mismunandi starfsgreinum. Að lokum segja þær Guðrún og Halla frá þeim hluta verkefnisins sem miðast að því að auka hagnýta þekkingu kvenna á fjármálum. "Hugmyndin er að konur öðlist meiri þekkingu og sjálfstraust á sviði fjármálaumsýslu almennt. Það gæti orðið fyrsta skrefið að þátttöku þeirra í atvinnurekstri. En þó svo yrði ekki er æskilegt að konur almennt nái að líta á sig sem "fjármálaverur", það er að segja ábyrga aðila og fulla þátttakendur í fjármálum sjálfra sín og fjölskyldu sinnar. Þetta á við um kaup og sölu eigna, veðsetningar, lífeyrisréttindi, hlutabréfakaup og margt fleira í daglegu lífi. Í þessu skyni verða haldin stutt námskeið fjórum sinnum á ári undir heitinu FjármálaAUÐUR," segja Halla og Guðrún. "Það þarf að brjóta upp goðsögnina um að konur og fjármál fari ekki saman. Til þess þarf fræðslu og hvatningu. Með AUÐI verður óbeislaður kraftur kvenþjóðarinnar virkjaður, allri þjóðinni til heilla."