UM áramótin tók gildi nýtt launakerfi fyrir félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar sem starfa hjá borginni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað þessi breyting skilar miklum launahækkunum, en Reykjavíkurborg setti 55 milljónir í þetta...
UM áramótin tók gildi nýtt launakerfi fyrir félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar sem starfa hjá borginni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað þessi breyting skilar miklum launahækkunum, en Reykjavíkurborg setti 55 milljónir í þetta verkefni.

Birgir Björn Sigurjónsson, hjá starfsmannahaldi Reykjavíkurborgar, sagði að markmiðið með nýju launakerfi væri að breyta hugsuninni um hvernig laun væru ákvörðuð. Tilgangurinn væri m.a. sá að búa til vísi að kerfi sem væri fært um að meta störfin innbyrðis þannig að þau endurspegluðu betur hæfni starfsmanns en gert var í gamla kerfinu. Hann sagði að í kjarasamningunum, sem gerðir voru árið 1997, hefði verið samið um að taka upp nýtt launakerfi árið 1998. Það hefði hins vegar dregist af ýmsum ástæðum að ljúka þessu verkefni. Þessari vinnu hefði verið lokið um síðustu áramót en sjálft launakerfið tæki gildi frá og með 1. júlí 1999.

Birgir Björn sagði að nýtt launakerfi hefði ekki falið í sér teljandi launabreytingar, enda hefði ekki verið gert ráð fyrir því þegar kjarasamningarnir voru gerðir. Reykjavíkurborg hefði þó látið ákveðna upphæð í þetta verkefni til að tryggja að við röðun manna í launaflokka væri tryggt að enginn lækkaði í launum. Hann sagðist meta heildaráhrifin af kerfinu á 0,5-1% launahækkun.

Birgir Björn sagði að fyrir fáum árum hefðu allar ákvarðanir um launabreytingar hjá borgarstarfsmönnum verið teknar í Ráðhúsinu. Núverandi borgaryfirvöld hefðu hins vegar tekið ákvörðun um að færa þetta vald í meira mæli út í stofnanirnar sjálfar. Þetta nýja launakerfi væri skref í þessari þróun. Hann sagði að stofnanirnar sjálfar gætu t.d. tekið ákvörðun um hvort þær legðu meiri áherslu á menntun, starfsreynslu eða sérstaka hæfni við röðun starfsmanna í launaflokka.

Breytingin gerð á félagslegum grunni

Hann kvaðst telja eðlilegt að einhver munur væri þarna á milli stofnana vegna þess að starfsemi þeirra væri mismunandi. Hugsun borgarinnar væri sú að færa ákvarðanirnar hægt og bítandi út í dreifstýrt kerfi. Háskólamenntaðir starfsmenn borgarinnar hefðu sýnt þessu nýja kerfi mestan áhuga og þess vegna hefðu þeir verið fyrstir til að ganga frá samkomulagi um slíkt kerfi. Starfsmannafélagið hefði nú gengið frá hliðstæðum samningum og í sjálfu sér væri ekkert því til fyrirstöðu að fleiri félög gerðu samkomulag við borgina um þessa eða sambærilega breytingu.

Sjöfn Ingólfsdóttir, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, sagði að þetta nýja launakerfi fæli í sér hliðstæða breytingu og háskólamenn hjá ríkinu hefðu samið um. Þó væri sá grundvallarmunur á að starfsmannafélagið hefði valið að standa félagslega að þessari breytingu. Stofnaðar hefðu verið matsnefndir á 26 vinnustöðum Reykjavíkurborgar, en í þeim ættu sæti fulltrúar starfsmanna og stjórnenda viðkomandi vinnustaðar. Þessum nefndum væri ætlað að leggja fram tillögur um hvaða þætti ætti að leggja til grundvallar við gerð nýs launakerfis. Bæði launþegi og forstöðumaður hefðu því í höndunum niðurstöðu matsnefndar þegar þeir ræddu saman um röðun í launaflokka. Forstöðumaður tæki hina endanlegu ákvörðun, en hann yrði að rökstyðja ákvörðun sína og fara eftir þeim meginreglum sem matsnefnd hefði sett. Sjöfn sagði að nýja launakerfið fæli ekki í sér að launamanni væri gert að ná, einum og óstuddum, samkomulagi við vinnuveitandann um sín laun. Þessi breyting væri því gerð á félagslegum grunni.

Tilraun þróuð í ljósi reynslunnar

Sjöfn sagði að um væri að ræða tilraun sem ætti eftir að þróa betur í ljósi reynslunnar og m.a. þess vegna hefði verið ákveðið að matsnefndirnar störfuðu út samningstímabilið, sem lýkur 31. október árið 2000.

Sjöfn sagði að upplýsingar lægju ekki fyrir um hvort þessi breyting hefði leitt til launahækkana hjá félagsmönnum. Reykjavíkurborg hefði varið 55 milljónum í þetta verkefni, sem væri lág upphæð þegar haft væri í huga að 2.400-2.500 manns væru í félaginu. Auk þess hefðu sumir forstöðumenn eitthvert svigrúm til hækkana. Ennfremur hefði í einhverjum tilfellum föst yfirvinna verið færð inn í launataxtann, en slík breyting fæli ekki í sér breytingu á heildarlaunum.