Yfirlitsmynd af fyrirhuguðu heilsuþorpi undir Reykjafjalli í Hveragerði. Gert er ráð fyrir að þorpið muni standa handan Varmár gegnt Heilsustofnun NLFÍ.
Yfirlitsmynd af fyrirhuguðu heilsuþorpi undir Reykjafjalli í Hveragerði. Gert er ráð fyrir að þorpið muni standa handan Varmár gegnt Heilsustofnun NLFÍ.
ÁFORM eru uppi um að reisa um 400 íbúða heilsuþorp í Ölfusi, þar sem rekið yrði glæsihótel og heilsustofnun með aðbúnaði og þjónustu í háum gæðaflokki.
ÁFORM eru uppi um að reisa um 400 íbúða heilsuþorp í Ölfusi, þar sem rekið yrði glæsihótel og heilsustofnun með aðbúnaði og þjónustu í háum gæðaflokki. Knútur Bruun lögfræðingur hefur unnið að þessari hugmynd síðustu árin og telur hentugast að reisa þorpið undir suðurhlíðum Reykjafjalls á ríkisjörðinni Reykjum. Þar stæði þorpið gegnt Heilsustofnun NLFÍ. með Garðyrkjuskóla ríkisins til vesturs og orlofsheimilin í Ölfusborgum til austurs. Hann hefur mikla trú á þessum áformum, enda séu útivistarmöguleikar af öllu tagi frábærir á Ölfussvæðinu, auk þess sem jarðhiti og hverir geri svæðið einstakt í augum ferðamanna.

Að sögn Knúts er það grundvallaratriði í undirbúningi málsins að finna ákjósanlegan stað fyrir heilsuþorpið væntanlega og tryggja byggingarland og aðgang að nægu heitu og köldu vatni. Að því loknu verður unnt að hefjast handa um stofnun undirbúningsfélags, sem þá hrindi framkvæmdum í verk. Ætlunin er að fjármagna byggingarnar með erlendu fjármagni og hafa farið fram viðræður við erlendar hótelkeðjur, sem sýnt hafa málinu mikinn áhuga, að sögn Knúts.

Ekki verður þó unnt að tryggja fjármagn fyrr en að fyrir liggja samningar um byggingarland og vatnsréttindi auk nákvæmrar hönnunar á mannvirkjum og kostnaðar- og rekstraráætlanir. Knútur fékk á sínum tíma fyrirheit frá Guðmundi Bjarnasyni, þáverandi landbúnaðarráðherra, um leigu á 18 hektara landspildu úr landi Reykja til byggingarframkvæmda, auk fyrirheita um nýtingu nauðsynlegra vatnsréttinda fyrir þá starfsemi sem áformað er að reka á þessu svæði. Þá veitti Finnur Ingólfsson, þáverandi iðnaðarráðherra, Knúti leyfi í fyrravor til rannsókna og nýtingar á jarðhita í landi Reykja.

Knútur segist nú vera að bíða eftir endanlegu svari frá Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra um frágang á leigusamningi á fyrrgreindri landspildu á Reykjum. Í svari ráðuneytisins frá 6. júlí í fyrrasumar segir að framtíðarhagsmunir Garðyrkjuskóla ríkisins muni ráða mestu um ráðstöfun á landi skólans í næsta nágrenni hans.

Knútur segir að fyrrverandi landbúnaðarráðherra hafi einnig gert fyrirvara um umsögn skólanefndar Garðayrkjuskólans á leigu þessarar landspildu, en skólinn er eini aðilinn sem á hagsmuna að gæta varðandi svæðið. Svar skólanefndar mun hafa borist síðasta sumar og segir Knútur að hann sé reiðubúinn að breyta leigusamningi á þann hátt að gerður verði viðbótarsamningur sem taki tillit til umsagnar skólanefndar, svo framarlega sem byggingareiturinn verði áfram í kjörlandi undir suðurhlíðum Reykjafjalls. Landbúnaðarráðherra hefur nú sent sex aðilum, Garðyrkjuskóla ríkisins, Hveragerðisbæ, sveitarfélaginu Ölfusi, Heilsustofnun NLFÍ, Dvalarheimilinu Ási og rekstrarfélagi Ölfusborga erindi þar sem óskað er eftir umsögn um áform Knúts um uppbyggingu heilsuþorps. Segist Knútur trúa því að erindið fái jákvæða umfjöllun, enda dyljist engum mikilvægi þess fyrir byggð og mannlíf á Suðurlandi, og reyndar landið allt, að unnt verði að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Hann segist vita til þess að Hveragerðisbær og sveitarfélagið Ölfus hafi þegar tekið jákvætt í málið.