Kristján Sverrisson
Kristján Sverrisson
KRISTJÁN Sverrisson, sem verið hefur sölu- og markaðsstjóri Glaxo Wellcome í Finnlandi frá því í mars á seinasta ári, hefur verið settur forstjóri fyrirtækisins. "Ég tek við þessu starfi 1.
KRISTJÁN Sverrisson, sem verið hefur sölu- og markaðsstjóri Glaxo Wellcome í Finnlandi frá því í mars á seinasta ári, hefur verið settur forstjóri fyrirtækisins.

"Ég tek við þessu starfi 1. mars næstkomandi en fyrrverandi forstjóri hafði ákveðið að hætta skömmu áður en tilkynningin um samruna Glaxo Wellcome við Smithkline Beecham kom. Ég er settur hér forstjóri a.m.k. þar til samruna lýkur. Við vitum að sjálfsögðu ekki hvernig kaupin gerast á eyrinni í kringum þann samruna og hver kemur til með að reka fyrirtækið í framtíðinni," segir Kristján Sverrisson í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að meðan farið sé í gegn um samrunaviðræður sé ekki hægt að lofa stjórnunarstöðum á einum eða neinum stað. "Þetta eru tvö fyrirtæki jafnvíg sem eru að ganga saman og það þarf að semja um allar stöður."

Geysilega spennandi verkefni

Aðspurður segir hann að það sé geysilega spennandi að takast á við starf á borð við þetta á slíkum tímum. "Við erum í augnablikinu fjórða stærsta lyfjafyrirtækið í Finnlandi með veltu upp á rúmlega 3,68 milljarða íslenskra króna sem svarar um það bil til íslenska lyfjamarkaðarins.

Hið sameinaða fyrirtæki, Glaxo SmithKline, verður stærsta lyfjafyrirtæki heims, en finnski hlutinn verður hins vegar ekki stærsta lyfjafyrirtæki Finnlands þrátt fyrir samrunann. Hér er sterkur innlendur lyfjaiðnaður," segir Kristján. Hann segir að sér hafi líkað afar vel í Finnlandi. "Þetta er gott land og hér býr gott fólk. Það er mikið að gerast á lyfjamarkaði hér og margt spennandi að glíma við þar."

Aukið frelsi væntanlegt í lyfsölumálum

Hann segir að Finnar séu að byrja að ganga inn í sum þeirra breytingaferla sem Íslendingar hafa nú þegar gengið í gegn um.

"Hér er til dæmis ekki mikið frelsi í lyfsölu og apótek eru bundin nokkuð stífum reglugerðum. Yfirvöld boða þó að það verði kannski endurskoðað hvernig eignarhaldi á lyfjaverslunum verði háttað í framtíðinni. Þá getum við ímyndað okkur að margt gerist bæði í heildsölu og smásölugeiranum, sem eykur þrýsting á okkur framleiðendurna seinnig.

Til skamms tíma hafa einungis verið hér tveir lyfjaheildsalar en nú er sá þriðji að bætast við sem er sænskur aðili. Það skapar líka titring á markaðnum," segir Kristján Sverrisson að lokum.