LOKAUMFERÐIN í riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í Króatíu fer fram í dag. Þar ræðst endanlega hvaða fjögur lið leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn, en leikirnir hafa einnig mikla þýðingu fyrir fleiri þjóðir. Sæti á Ólympíuleikum, heimsmeistarakeppni og næstu Evrópukeppni eru í húfi og málin geta skýrst verulega.
Svíar og Rússar eru þegar komnir í undanúrslit og leikur þeirra í kvöld sker úr um hvor þjóðin vinnur riðilinn og mætir liði númer tvö úr A-riðlinum. Þar dugar Svíum jafntefli.

Í B-riðlinum er hinsvegar hörð keppni Frakka, Króata og Spánverja um tvö efstu sætin. Frakkar standa þar með pálmann í höndunum eftir sex marka sigur á Spánverjum. Þeir mæta Króötum í kvöld og mega tapa með sex mörkum, og komast samt í undanúrslit.

Króatar þurfa hinsvegar fimm marka sigur, eða fjögurra marka ef þeir skora 28 mörk, til að komast í undanúrslit. Reyndar gætu Þjóðverjar komið þeim til bjargar ef það tekst ekki með því að taka stig af Spánverjum. Tapi bæði Spánverjar og Króatar fara Spánverjar áfram þar sem þeir unnu innbyrðis leik þjóðanna.

Ná Króatar Ólympíusætinu?

Eitt sæti á Ólympíuleikunum í Sydney í haust er í boði í Króatíu, og fjórar þjóðir eiga enn möguleika á að hreppa það. Svíar, Rússar, Spánverjar og Frakkar hafa tryggt sér ÓL-sæti, ásamt Þjóðverjum og Júgóslövum. Efsta þjóðin fyrir utan þessar kemst til Sydney og Króatar standa þar best að vígi. Nái þeir öðru tveggja efstu sætanna í A-riðli er Sydneyferðin þeirra. Lendi þeir í þriðja sæti riðilsins spila þeir um 5. sæti á mótinu, og það yrði um leið hreinn úrslitaleikur um ÓL-sætið.

Portúgal, Slóvenía og Danmörk eiga möguleika

Þrjár þjóðir úr B-riðli eiga möguleika á að spila um 5. sætið, og geta því enn komist til Sydney. Það eru Portúgalir, Slóvenar og Danir.

Portúgalir standa best að vígi því þeim dugar jafntefli gegn Dönum í kvöld. Danir þurfa hinsvegar að vinna Portúgali með 8 mörkum (7 mörkum ef þeir skora 32 mörk eða meira) til að fara uppfyrir þá og Slóvena, nema Íslendingar komi þeim til bjargar og vinni Slóvena. Ef það gerist dugar Dönum að vinna leikinn með þremur mörkum.

Slóvenar þurfa að sigra Íslendinga og treysta á að Danir vinni Portúgali með einu til sjö mörkum.

Keppnin um sæti á HM 2001 í Frakklandi

Í Króatíu er einnig leikið um sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Frakklandi 20. janúar til 4. febrúar 2001. Svíar fara beint þangað sem heimsmeistarar og Frakkar sem gestgjafar. Fjögur önnur lið komast beint á HM og ljóst er að Rússar, Spánverjar og Króatar verða þrjú þeirra. Það verður því sú þjóð sem lendir í þriðja sæti í B-riðli, Portúgal, Slóvenía eða Danmörk, sem fer beint á HM.

Slakur árangur styttir sumarfríið verulega

Hinar tvær fara í aukaumferð í sumar, ásamt Íslandi, Þýskalandi, Noregi, Úkraínu, Ungverjalandi, Sviss, Tékklandi, Júgóslavíu, Póllandi og Makedóníu. Þar verða liðin dregin saman í einvígi, tvö og tvö, og sigurvegararnir í þeim fara á HM í Frakklandi. Þeir leikir fara fram fyrri partinn í júní. Með slakri frammistöðu í Króatíu hafa íslensku landsliðsmennirnir sem sagt stytt hjá sér sumarfríið verulega og eiga fyrir höndum stranga dagskrá. Í þessum sumarleikjum verður gífurlega mikið í húfi fyrir íslenskan handknattleik. Þar ræðst hvort Ísland kemst á HM 2001 eða situr heima í annað skiptið í röð þegar 24 "bestu þjóðir heims" leika um heimsmeistaratitilinn í Frakklandi.

Fimm lið komast á EM 2002

Að lokum eru sæti í úrslitum næstu Evrópukeppni, árið 2002, í húfi í Króatíu. Þangað komast fimm efstu liðin beint, þá verða þátttökuþjóðir 16 í fyrsta skipti en þær hafa verið 12 hingað til. Ákvörðun um leikstað árið 2002 verður tekin á fundi Alþjóða handknattleikssambandsins í Zagreb um helgina en Svíþjóð, Slóvenía og Tékkland hafa sótt um að halda keppnina. Sjötta sætið í Króatíu gefur því væntanlega EM-sæti ef Svíar verða gestgjafar.

Möguleiki Íslands á 7. sætinu

Þrátt fyrir fjóra tapleiki getur íslenska liðið enn leikið um 7. sætið á mótinu. Til þess þarf liðið að sigra Slóvena í kvöld með fjórum mörkum og Danir að tapa fyrir Portúgal. Sigur í leiknum getur líka þýtt leik um 9. sætið, en svo kann líka að fara að sigur myndi ekki duga til að komast úr neðsta sæti riðilsins og þá yrði leikur um 11. sæti mótsins hlutskiptið, rétt eins og ef leikurinn tapast eða endar með jafntefli. En þótt sjöunda sætið yrði niðurstaðan breytir það engu um framhaldið. Ísland verður ekki með í Sydney og á erfitt verkefni framundan til að komast í næstu heimsmeistarakeppni.

Víðir Sigurðsson skrifar