Jörg Haider, leiðtogi Frelsisflokksins, brosir eftir fund með þingmönnum flokksins í Vín.
Jörg Haider, leiðtogi Frelsisflokksins, brosir eftir fund með þingmönnum flokksins í Vín.
FRELSISFLOKKUR hægrimannsins Jörgs Haiders (FPÖ) og Þjóðarflokkur austurrískra íhaldsmanna (ÖVP) héldu í gær áfram skipulegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar í Austurríki, en stjórnarleiðtogar Ísraels og Svíþjóðar og áhrifamenn í stjórnmálum...
FRELSISFLOKKUR hægrimannsins Jörgs Haiders (FPÖ) og Þjóðarflokkur austurrískra íhaldsmanna (ÖVP) héldu í gær áfram skipulegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar í Austurríki, en stjórnarleiðtogar Ísraels og Svíþjóðar og áhrifamenn í stjórnmálum margra annarra landa lýstu áhyggjum af mögulegri stjórnarþátttöku Frelsisflokksins.

Líkurnar á að stjórn flokkanna tveggja komist á laggirnar jukust í gær, þegar Viktor Klima, kanzlari og leiðtogi jafnaðarmanna, lýsti því yfir að tilraunir hans til að mynda minnihlutastjórn myndu greinilega engan árangur bera. Sagðist Klima munu skila stjórnarmyndunarumboðinu á fundi með Thomas Klestil forseta í dag, fimmtudag, eftir heimkomu sína til Vínar af ráðstefnu um helfararmál sem fram fór í Stokkhólmi í gær. Peter Westenthaler, framkvæmdastjóri Frelsisflokksins, sagði í gær að eðlilegt væri að Klestil færði þá Haider stjórnarmyndunarumboðið, þar sem FPÖ væri annar stærsti flokkurinn.

Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels, tjáði fréttamönnum á Stokkhólmsráðstefnunni að ríkisstjórnarþátttaka Haiders eða samherja hans væri "mjög alvarlegt mál" og yrði til þess að Ísrael endurskoðaði samskipti sín við Austurríki. Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði við sama tækifæri að flokkur á borð við Frelsisflokk Haiders ætti ekki heima í ríkisstjórn neins Evrópusambandslands.

Stefnubreyting FPÖ forsenda stjórnarsamstarfs

Wolfgang Schüssel, leiðtogi Þjóðarflokksins, sagði eftir fyrstu viðræðulotuna við Frelsisflokksmenn að samsteypustjórn þeirra yrði að vera jákvæð í garð Evrópusamvinnunnar. Vísaði Schüssel með þessu til neikvæðs áróðurs Haiders í garð Evrópusambandsins (ESB), sem m.a. var áberandi fyrir kosningarnar í byrjun október sl. Frelsisflokkurinn hefur haldið því fram að með ESB-inngöngu grannríkja Austurríkis í Mið- og Austur-Evrópu sé von á því að flóðbylgja ódýrs vinnuafls skelli á Austurríki og geri fjölda Austurríkismanna atvinnulausa.

Haider, sem varð fimmtugur í gær, hefur tekið fram, að hann sækist ekki eftir setu í ríkisstjórninni heldur kjósi hann frekar að vera áfram fylkisstjóri í Kärnten.

Í skoðanakönnun sem niðurstöður voru birtar úr í Neue Kronen-Zeitung í gær lýstu 35% aðspurðra Austurríkismanna sig fylgjandi myndun hægristjórnar. 32% álíta réttast að boðað yrði til kosninga á ný, en samkvæmt nýjustu könnunum myndi FPÖ hagnast mest á því og verða stærsti flokkurinn með um eða yfir 30% atkvæða. Aðeins 17% telja minnihlutastjórn jafnaðarmanna fýsilegan kost. Einnig virðist Wolfgang Schüssel, sem að öllum líkindum yrði kanzlari í samsteypustjórn ÖVP og FPÖ, mega hafa áhyggjur af persónulegum vinsældum sínum. Aðeins 15% sögðust vilja sjá hann í sæti ríkisstjórnarleiðtogans.