Leikstjóri: Doug Liman. Handritshöfundur: John August. Kvikmyndataka: Doug Liman. Aðalhlutverk: Sarah Polley, Demond Askew, Katie Holmes og Jay Mohr. (98 mín) Bandaríkin. Skífan, janúar 2000. Bönnuð innan 16 ára.
ÞESSI frísklega glæpablandna gamanmynd er nýjasta afurð leikstjórans Doug Liman sem vakti mikla athygli með hinni frábæru kvikmynd Swingers. Myndin er í alla staði vel gerð og fer skemmtilega með hinn brotakennda frásagnarstíl sem Quentin Tarantino gerði frægan um árið. Farðu gerist í heimi ungmenna, sem basla í láglaunastörfum, skemmta sér og eru í mismiklum tengslum við undirheima stórborgarinnar. Frásögnin skiptist í þrjá hluta sem hver um sig segir frá afmörkuðum persónum sem síðan tengjast saman í lokin. Fléttan er skemmtileg, lipurlega unnin og gæðir heildina léttleika með því að slá á létta strengi í lokin. Þetta er því engin alvöru glæpamynd, frekar mætti kalla hana unglingamynd fyrir fullorðna. Farðu skartar safni ungra og ferskra leikara, Sarah Polley úr úrvalsmyndinni "The Sweet Hereafter" leikur alvörugefna stúlku með ríka sjálfsbjargarviðleitni og Desmond Askew er bráðfyndinn í hlutverki Bretans Simon sem þjáist af krónískri óskynsemi. Farðu er athyglisverð kvikmynd og því verður áhugavert að fylgjast með leikstjóranum Doug Liman í framtíðinni.

Heiða Jóhannsdóttir