SÆNSKA landsliðið varð fyrir áfalli er Stefan Lövgren , ein helsta skytta liðsins, slasaðist á æfingu í Zagreb í gær. Lövgren var fluttur á spítala en talið var að liðbönd hefðu slitnað eða tognað í ökkla.
SÆNSKA landsliðið varð fyrir áfalli er Stefan Lövgren , ein helsta skytta liðsins, slasaðist á æfingu í Zagreb í gær. Lövgren var fluttur á spítala en talið var að liðbönd hefðu slitnað eða tognað í ökkla. Svíar gera ekki ráð fyrir að Lövgren leiki gegn Rússum í dag. Ef allt fer á versta veg er jafnvel talið að Lövgren geti ekki leikið meira með í keppninni.

LILLESTRÖM hefur fundið arftaka Heiðars Helgusonar sem félagið seldi til Watford á dögunum. Sá er Magnus Powell , sænskur framherji frá Helsingborg í Svíþjóð , sem hefur skorað 54 mörk í 225 leikjum með sænska liðinu.

ARNAR Gunnlaugsson var ekki í leikmannahópi Leicester gegn Aston Villa í enska deildabikarnum í knattspyrnu í fyrrakvöld. Sex leikmenn Leicester sem hafa verið meiddir komu á ný í 16 manna hópinn og þar með datt Arnar úr byrjunarliðinu og út úr hópnum.

SERGEI Bubka , heimsmethafi í stangarstökki karla, ætlar að keppa á móti í Valencia í byrjun febrúar. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þetta verður fyrsta keppni Bubka í meira en eitt ár vegna meiðsla á hásin og í ökkla. Bubka stefnir að því að hætta eftir Ólympíuleikana í Syd n ey í haust, en hann er 36 ára og hefur sett 35 heimsmet í stangarstökki innanhúss og utan.

IRINA Privalova , einn þekktasti spretthlaupari heims síðasta áratuginn og heimsmethafi í 60 metra hlaupi kvenna, hefur ákveðið að skipta yfir í grindahlaup. Hún keppti í 60 metra grindahlaupi á meistaramóti Moskvuborgar og kom í mark á 8,23 sekúndum.

MERLENE Ottey hefur þekkst boð um að keppa á móti í Karlsruhe um helgina, þrátt fyrir að hún eigi yfir höfði sér keppnisbann hjá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu vegna þess að hún féll á lyfjaprófi á síðasta ári. Þýsk frjálsíþróttayfirvöld eru ekki ánægð með að Ottey skuli hafa verið boðið til mótsins og vilja að mótshaldarar í Karlsruhe endurskoði ákvörðun sína, en tala fyrir daufum eyrum.

HELGI Sigurðsson, leikmaður Panathinaikos í Grikklandi, gæti átt von á aukinni samkeppni en félagið hefur í hyggju að kaupa framherjann Ilija Ivic , leikmann Tórínó á Ítalíu . Gríska liðið þarf á fleiri sóknarmönnum að halda en þeir eru þrír fyrir hjá félaginu.