"Ég sagðist ætla að skjóta - það var önnur sem átti að skjóta en vörn Hauka er svo stór að best var að skjóta í gegn," sagði Þórdís Brynjólfsdóttir í FH, sem skoraði sigurmark liðsins úr aukakasti eftir að leiktíma lauk þegar FH sigraði 23:22 í...

"Ég sagðist ætla að skjóta - það var önnur sem átti að skjóta en vörn Hauka er svo stór að best var að skjóta í gegn," sagði Þórdís Brynjólfsdóttir í FH, sem skoraði sigurmark liðsins úr aukakasti eftir að leiktíma lauk þegar FH sigraði 23:22 í nágrannaslag við Hauka í Kaplakrika í gærkvöldi. "Þetta var sætasti sigurinn í vetur, en þar sem deildin er svo jöfn verður að halda áfram, enda hver leikur úrslitaleikur," bætti Þórdís við en lið hennar hélt fyrir vikið toppsæti sínu í deildinni. Víkingur vann KA 24:17 í Víkinni, Grótta/KR sigraði Mosfellinga 34:14 á Seltjarnarnesi, Stjarnan lagði ÍBV naumlega að velli 21:20 í Garðabænum og Fram hélt Val niðri í Safamýrinni með 26:23 sigri.

Eins og við var að búast gekk á ýmsu þegar Hafnarfjarðarliðin mættust í Kaplakrika. FH-stúlkur spiluðu vörnina með einn leikmann framarlega og hina tilbúna til að stökkva út á móti skyttunum. Það dugði til að slæva sóknarleik gestanna af Strandgötunni, en hafði ekki áhrif á Tinnu Halldórsdóttur, sem lét til sín taka í byrjun. Haukastúlkur gátu aftur á móti spilað afturliggjandi vörn, enda hávaxnar, svo FH-stúlkur brugðu á það ráð að smeygja sér í gegn, en er leið á hálfleikinn varð það sífellt erfiðara og dómarar oft komnir með höndina á loft, tilbúnir að dæma leiktöf á FH. Fyrir vikið var jafnt á flestum tölum, mest varð tveggja marka forskot Hauka en FH jafnaði á innan við mínútu.

Strax eftir hlé fór stórskyttan Hrafnhildur Skúladóttir á flug þegar hún kom FH í fjögurra marka forskot, 17:13, er FH skoraði úr fyrstu fimm sóknum sínum á átta mínútum, en þá fór allt í baklás. Næstu 17 sóknir þeirra skiluðu aðeins þremur mörkum á meðan Haukar tóku að saxa á forskotið, meðal annars með því að taka leikstjórnanda FH úr umferð. Við það var eins og FH-stúlkur misstu kjarkinn í sóknarleik sínum. Þegar ein og hálf mínúta var eftir kom Hekla Daðadóttir Haukum í 21:22 með þriðja marki sínu í röð en hinum megin jafnaði Þórdís úr vítakasti þegar rétt rúm mínúta var eftir. Haukar höfðu leikinn í hendi sér og alla möguleika á að spila þar til í blálokin og reyna þá skot. Þess í stað kom ótímabært skot þegar tólf sekúndur voru til leiksloka, FH-stúlkur brunuðu í sókn og fengu aukakast á síðustu sekúndu. Sem fyrr segir skoraði Þórdís úr því og FH-ingar ærðust af fögnuði.

FH-stúlkur spiluðu lengi vel af skynsemi en náðu ekki að nýta sér það til að ná góðu forskoti. Eftir hlé riðlaðist leikur þeirra mikið þegar einn leikmaður var tekinn úr umferð, en þær sluppu með skrekkinn í lokin. Jolanta Slapikiene varði vel í markinu, Dagný Skúladóttir var örugg í sínum aðgerðum eins og Þórdís. Björk Ægisdóttir var ágæt og Hrafnhildur átti góðan sprett.

Haukastúlkur voru nokkuð mistækar, þrjú vítaskot fóru forgörðum, jafnoft var dæmt skref og einu sinni ruðningur en slíkur fjöldi mistaka reyndist þeim dýrkeyptur. Hjördís Guðmundsdóttir varði vel, Hanna G. Stefánsdóttir var drjúg og Harpa Melsteð barðist vel en Inga Fríða Tryggvadóttir fékk sig lítið hrært í hrömmum varnarmanna mótherjanna.

Stefán Stefánsson skrifar