MUNNLEGT próf í veiðitækni var haldið við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri s.l.
MUNNLEGT próf í veiðitækni var haldið við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri s.l. þriðjudag og væri ekki í frásögur færandi, nema fyrir það að nemendurnir voru á Akureyri og Akranesi, kennararnir voru á Ísafirði og í Reykjavík, en prófdómarinn á Akureyri.

Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri sagði að fjarfundabúnaður hefði verið nýttur í þessu óvenjulega prófi og hefði allt gengið eins og í sögu. "Það var nánast eins og allir væru í sömu skólastofunni þegar prófið fór fram þó menn væru dreifðir víða um land," sagði hann. "Þetta sýnir að fjarlægðir geta verið afstæðar þegar kemur að þeirri tækni sem við búum nú við og ég er sannfærður um að hún mun aukast ennfrekar í framtíðinni."

Háskólinn á Akureyri sinnir nú skipulegri fjarkennslu á Ísafirði og Austurlandi og næsta haust hefst kennsla á vegum háskólans á Suðurnesjum og þá er í undirbúningi að hefja kennslu í Skagafirði og fleiri stöðum síðar.