Ásgeirsson en ekki Þórarinsson Ranghermt var í blaðaukanum Reykjavík - menningarborg Evrópu 2000 á miðvikudag að Jochen Ulrich hafi samið Blindingsleik fyrir Íslenska dansflokkinn við tónlist eftir Jón Þórarinsson.

Ásgeirsson en ekki Þórarinsson

Ranghermt var í blaðaukanum Reykjavík - menningarborg Evrópu 2000 á miðvikudag að Jochen Ulrich hafi samið Blindingsleik fyrir Íslenska dansflokkinn við tónlist eftir Jón Þórarinsson. Hið rétta er að Jón Ásgeirsson samdi tónlistina. Beðist er velvirðingar á þessu.

Upphafshækkun VR-samninga var 3,8%

Ranglega var fullyrt í frétt um kjarasamninga VR og Samtaka verslunarinnar að upphafshækkun í samningunum væri 4,5%. Hið rétta er að upphafshækkunin er 3,8%. Hins vegar gerði VR kjarasamning við flugfélagið Atlanta á sama tíma þar sem upphafshækkun var 4,5%. Samningarnir eru að flestöllu leyti sambærilegir nema hvað varðar þessa upphafshækkun og lágmarkslaun, en þau verða 100.000 kr. samkvæmt samningi Atlanta, en 90.000 kr. samkvæmt samningi VR við Samtök verslunarinnar.

Sindra og Gerði Kristnýju vantaði

Í aukablaði Morgunblaðsins um viðburði í tengslum við Reykjavík menningarborg láðist að geta þess að Sindri og Gerður Kristný verða á röltinu á opnunardeginum og lesa í Ráðhúsinu kl. 13.30. Beðist er velvirðingar á mistökunum.