[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VERIÐ er að endurbyggja Ísafoldarhúsið, sem stóð við Austurstræti 8 í rúma öld, á lóðinni við Aðalstræti 12 og er ráðgert að því verði lokið í mars.
VERIÐ er að endurbyggja Ísafoldarhúsið, sem stóð við Austurstræti 8 í rúma öld, á lóðinni við Aðalstræti 12 og er ráðgert að því verði lokið í mars. Þetta kom fram í samtali Morgunblaðsins við Þorstein Bergsson, framkvæmdastjóra Minjaverndar, en hann sagði að áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmdanna væri um 50 til 60 milljónir.

"Húsið var tekið niður spýtu fyrir spýtu í febrúar á síðasta ári, en mjög erfitt hefði verið að flytja það í heilu lagi vegna þess að burðarvirkinu hafði verið raskað nokkuð," sagði Þorsteinn. "Húsið verður reist á ný í sem næst upprunalegri mynd, en það verða þó gerðar nokkrar breytingar til að það standist nútímakröfur t.d. um eldvarnir."

Mikið lagt upp úr eldvörnum

Ísafoldarhúsið, sem er fjórar hæðir, er nú samfast Aðalstræti 10, þar sem veitingastaðurinn Fógetinn er til húsa og sagði Þorsteinn að mjög öflugur eldvarnarveggur hefði verið settur upp á milli húsanna. Þá sagði hann að timburklæðning hússins væri einnig eldvarin.

Að utan verður húsið nánast í upprunalegri mynd og sagði Þorsteinn að höfuðmarkmiðið væri að karakter þess fengi að njóta sín sem best á nýjum stað. Gluggarnir verða upprunalegir, sem og þakskeggið og allt skrautvirki. Að innan verða allir loft-, kverk- og gólflistar í sem næst upprunalegri mynd, en herbergjaskipan verður öðruvísi og í takt við nútímaþarfir.

Þorsteinn sagði að ekki væri búið að taka endanlega ákvörðun um það hvers konar starfsemi yrði í húsinu, en menn væru að velta fyrir sér ýmsum valkostum. Hann sagði að þó væri ákveðið að Handverk og hönnun myndi flytja í húsið og vera með sína starfsemi á 2. hæð þess.

Að sögn Þorsteins er ekki ólíklegt að í húsinu verði einhvers konar verslunarstarfsemi og bætti hann því við að efsta hæðin yrði innréttuð sem íbúð, þó ekki væri enn ljóst hvernig henni yrði ráðstafað.

Á lóðinni við Austurstræti 8, þar sem Ísafoldarhúsið var, er verið að byggja um 3.000 fermetra hús á 5 hæðum, en húsið mun líklega hýsa skrifstofur, verslanir og veitingastað, en í gegnum hann verður hægt að ganga frá Austurstræti og út á Austurvöll.

Ísafoldarhúsið á sér ríka sögu

Lóðin við Aðalstræti 12 hafði staðið auð frá árinu 1977, en fyrir þann tíma var þar timburhús, sem Matthías Johannessen kaupmaður reisti árið 1890, en það var rifið eftir að það skemmdist mikið í eldi.

Ísafoldarhúsið á sér ríka sögu, en það var byggt árið 1885 af Birni Jónssyni, ritstjóra og síðar ráðherra. Björn bjó í húsinu og þar var einnig prentsmiðja, ritstjórn og afgreiðsla blaðsins Ísafoldar, svo og bókaverslun. Sonur Björns, Sveinn, sem síðar varð fyrsti forseti lýðveldisins ólst einnig upp í húsinu og þar var einnig aðalbækistöð Morgunblaðsins í marga áratugi. Hin síðustu ár hafa hinsvegar verið reknar verslanir í húsinu, en einnig hefur þar verið ýmiss konar þjónustustarfsemi.