Örlygur Aron Sturluson fæddist í Keflavík 21. maí 1981. Hann lést af slysförum í Njarðvík sunnudaginn 16. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans eru Særún Lúðvíksdóttir, f. 17. október 1961, og Sturla Örlygsson, f. 17. september 1961, en þau slitu samvistum. Annað barn þeirra er Elvar Þór Sturluson, f. 11. maí 1983. Móðurforeldrar Örlygs voru þau María Guðmannsdóttir, f. 19. febrúar 1924, d. 4. júní 1996, og Lúðvík Kjartansson, f. 20. apríl 1924, d. 15. september 1994. Föðurforeldrar Örlygs eru þau Erna Agnarsdóttir, f. 11. nóvember 1934, og Örlygur Þorvaldsson, f. 4. apríl 1926.

Særún, móðir Örlygs, er í sambúð með Valdimar Björnssyni, f. 24. júní 1965, og dóttir þeirra er Matthildur Lillý, f. 12. október 1999. Þau búa í Garðabæ.

Sturla, faðir Örlygs, er í sambúð með Andreu Gunnarsdóttur, f. 24. nóvember 1964, og þeirra börn eru Margrét Kara, f. 2. september 1989, og Sigurður Dagur, f. 15. júní 1994. Fyrir átti Andrea Elenu Underland, f. 18. maí 1984. Þau búa í Njarðvík. Fyrir átti Sturla dótturina Lindu Maríu, f. 5. febrúar 1980, og soninn Ólaf Darra, f. 4. mars 1988.

Örlygur ólst upp hjá foreldrum sínum og síðan móður sinni í Keflavík og Njarðvík. Hann lauk grunnskólanámi við Grunnskóla Njarðvíkur og stundaði síðan nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja um tíma. Íþróttaáhugi var Örlygi í blóð borinn og lagði hann stund á körfuknattleik með Ungmennafélagi Njarðvíkur, UMFN, líkt og faðir hans hafði gert og fleiri frændur hans í föðurætt. Hann varð Íslandsmeistari með UMFN árið 1998.

Örlygur reyndist afburða íþróttamaður og var valinn til að leika með drengja- og unglingalandsliði Íslands og loks A-landsliðinu á síðastliðnu ári þrátt fyrir ungan aldur. Auk þess var hann valinn til að leika með stjörnuliði og úrvalsliði Reykjanesbæjar í Evrópukeppni.

Körfuknattleikurinn átti hug Örlygs allan og til að ná enn frekari árangri í íþrótt sinni hélt hann til Bandaríkjanna í ágúst 1998 og var þar við keppni og nám við góðan orstír þar til í júní 1999 að hann kom aftur heim og hóf að leika á ný með félögum sínum í UMFN.

Útför Örlygs fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Unnt verður að fylgjast með athöfninni í íþróttahúsinu í Njarðvík.

Sú nótt gleymist aldrei, þegar allir voru að leita að þér, elsku ömmu- og afadrengurinn. Fannst látinn, angistin, söknuðurinn og sorgin sem heltók alla. Af hverju, Guð? spyrjum við en fáum engin svör. Við huggum okkur og segjum: Honum var ætlað annað og stærra hlutverk hinum megin. Okkur langaði svo til að hjálpa þér og leiðbeina eins og amma og afi eiga að gera.

Þegar þú varst að koma af æfingum var sama hvað amma hafði í matinn, þér fannst allt gott sem gert var fyrir þig. Ég get ekki skrifað meira því sorgin er svo mikil hjá okkur, en við munum minnast þín sem yndislegs fyrirmyndarpilts sem var allra hugljúfi. Guð geymi þig og taki þig í faðm sinn, elsku vinur.

Ég læt hér vísu fylgja sem afi þinnskrifaði kl. 10 morguninn 17. janúar:

Vinur minn, þú ert farinn frá mér.

Ég sakna þess að vera eigi hjá þér.

Ég elska þig af öllu hjarta.

Þú ert hjá Guði, í ríkinu bjarta.

Guð blessi okkur öll og styrki.

Amma og afi.

Elsku frændi. Þá er komið að leiðarlokum, alltof fljótt, ekki átti ég von á því að ég væri að kveðja þig í hinsta sinn er ég hitti þig uppá Lágmóa, tveimur dögum áður en þú fórst frá okkur. Þú varst að koma inn með Elvari bróður þínum sem var þinn besti vinur. Þú tókst upp litla nafna þinn og sagðir: "Magga, ósköp er gaman að eiga einn lítinn nafna." Og brostir svo innilega. Ölli, þú varst einstakur, það er ekki hægt að lýsa þér öðruvísi. Síðasta fyrirsögnin um þig í einu bæjarblaðinu hér var svona: "Örlygur er í sérflokki." Þessi orð lýsa þér best. Ég man eftir því þegar ég passaði þig oft, lítinn, sætan, ljóshærðan hnokka, fullan af lífi. Síðan kom Elvar bróðir þinn í heiminn og þá var sko fjör á bænum. Síðan liðu árin og þú dafnaðir og varst orðinn að yndislegum og góðum dreng. Algjör námshestur með allt á hreinu, en áttir tímann í boltann. Þú varst efnilegur bæði í fótbolta og körfubolta þegar þú varst bara smágutti. En síðan tekur þú þína ákvörðun, að karfan skuli eiga hug þinn allan. Er það nokkuð skrýtið? Bæði pabbi þinn og frændur spiluðu körfubolta og meira að segja við frænkur þínar líka. Þú tókst þína ákvörðun og körfuboltaæfingarnar voru iðkaðar af miklum krafti í Njarðvík. Þú áttir svo sannarlega framtíðina fyrir þér í þessari íþrótt, vonandi heldur þú áfram hinum megin. Pabbi þinn var svo stoltur af þér. Alltaf var gaman að heyra frá honum fréttirnar, hvernig þú "brilleraðir" í hinni stóru Ameríku. Hann kom með myndbandsspólur sem þú sendir honum frá Ameríku af leikjum sem þú varst að keppa í. Við horfðum á þig spila. Ósköp var ég stolt af litla frænda mínum. Þegar þú varst 12, 13 og 14 ára tókst þú við og passaðir mína boltastráka, þú varst svo þroskaður og barngóður, en alltaf gleymdir þú einhverju heima hjá mér eftir hverja pössun, húfunni þinni eða peysu. Já, Ölli, þú gast verið gleyminn, það var líka allt í lagi, þessar gjafir sem þú gleymdir að færa ömmu þinni og Gunna frænda þínum eru komnar til skila. Hann Elvar bróðir þinn, þinn besti vinur, sá til þess. En veistu hvað? Þú varst besti frændi sem ég hef átt. Ég var svo montin af þér, kominn í A-landsliðið aðeins 18 ára gamall, ég var svo stolt af þér. Allir litu upp til þín, ungir sem aldnir. Þú talaðir aldrei illt um neinn og þú varst góðmennskan uppmáluð. Þú varst sá besti með Teita bróður, frænda þínum í körfunni, elsku vinur. Það er stórt skarð höggvið í mína fjölskyldu og eins í Njarðvíkurliðið. Þú varst sannur vinur, kraftmikill, léttilega kærulaus og elskaðir boltann og laxveiðitúrana með pabba þínum á sumrin.

Elsku Ölli minn, hver er tilgangur þess að þú þurftir að fara frá okkur svona snemma? Hvað bíður þín hinum megin? Þetta eru spurningar sem ég velti fyrir mér. En innst inni eru svörin. Það er tilgangslaust að spyrja af hverju þú, og hvers vegna núna. Lífið er bara svona. Vegir Guðs eru órannsakanlegir. Þinn tími var bara kominn en okkar hinna kemur seinna. Ég veit bara eins og ég sit hérna, elsku vinur, og skrifa þér þessa kveðju með sorg í hjarta að ég á eftir að hitta þig með boltann aftur, vittu til. En á meðan verðum við hin að lifa, það er eini möguleikinn. Við verðum að halda áfram að vera til og njóta lífsins, rétt eins og þú gerðir alltaf. Elsku frændi, ég kveð þig nú og bið Guð að blessa þig og geyma. Litli nafni þinn mun hafa nafn þitt í heiðri. Ég þakka samferðina, elsku vinur, og ég mun geyma minninguna um góðan frænda og félaga. Sjáumst síðar, elsku Ölli minn.

Sárt er frænda að sakna,

sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna,

svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta,

húmskuggi féll á brá,

lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta,

frændi þó félli frá.

Góðar minningar geyma

gefur syrgjendum fró,

til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Elsku Elvar, Guðný, Sturla, Andrea og fjölskylda. Særún, Valdimar og fjölskylda. Mamma, pabbi og systkini. Megi Guð styrkja okkur öll í þessari miklu sorg.

Margrét Örlygsdóttir og fjölskylda.

Sá hræðilegi atburður sem átti sér stað aðfaranótt 17. janúar sl. þegar þú fannst látinn, gleymist aldrei. Þú varst allt í einu farinn frá okkur og við fáum engin svör. Þú sem varst í blóma lífsins og áttir svo miklu ólokið með okkur. En það er eitthvað sem segir mér að þín hafi beðið annað mikilvægara verkefni annars staðar og því hafir þú þurft að fara frá okkur. Í þau 18 ár sem ég þekkti þig, frændi minn, varstu alltaf svo kurteis og góður og varst fyrirmynd annarra í þeim efnum. Sorgin hér á Lágmóa 1 er ólýsanleg, eins og annars staðar. En sorgin er ekki slæmt fyrirbæri, hún sýnir bara það hvað okkur þótti vænt um þig, vinur minn. Sorgin færir fjölskylduna saman og hún lærir að lifa með henni. Þú sem varst bjartasta vonin í körfubolta gefur örugglega öðrum körfuboltamönnum styrk í framtíðinni. Ég efast ekki um það, það er bara svo erfitt að sætta sig við að þú sem ég leit á sem yngri bróður minn og varst farinn að búa á Lágmóa 1, sért farinn frá okkur. Ég mun minnast þín sem kurteiss og góðs manns sem sýndi öllum mikla virðingu.

Guð styrki okkur öll í sorginni.

Þinn frændi,

Stefán Örlygsson.

Eins skjótt og veður skipast í lofti hefur sorgin bankað uppá og eftir stendur fjölskyldan öll harmi slegin og syrgir ungan og hraustan dreng sem átti alla framtíðina fyrir sér.

Stórt skarð hefur myndast sem nú læðast um dimmir skuggar sorgar.

Minningarnar bera mig aftur til þess tíma er hann var lítið barn með glóbjart hár og glampa í augum á jólum. Þær fara líka til þess tíma er hann sem barn fékk ólýsanlegan áhuga á veðrinu. Ég sé hann fyrir mér sitja við glugga heima hjá ömmu og afa með hönd undir kinn og spá fyrir veðri næsta dags. Ég man er áhuginn á körfubolta vaknaði hjá honum og hvað manni leið illa fyrir hönd Ölla er Njarðvík tapaði leik; þótt hann væri bara barn og ekki farinn að heyja baráttuna sjálfur á vellinum þá var hart barist innra með honum.

Ég minnist ferðanna í Galtalæk er litli, feimni strákurinn sýndi á sér nýja hlið og dansaði svo mikið að erfitt var að fá hann niður af danspallinum. Ég man hversu fallegur hann var á fermingardaginn, dálítið spekingslegur með gleraugun sín, sem hann var alltaf í vandræðum með þar til hann fékk linsurnar. Ég man hve gaman var að fá þá bræður í mat til sín, þá var hraustlega tekið til matar síns. Ég man hógværðina er einkenndi hann. Ég man tímann sem ég gaf mér í að klippa út allar íþróttagreinar og myndir þar sem Ölli kom við sögu. Ég man hversu ánægð ég var er ég sendi honum úrklippubókina til Bandaríkjanna þess fullviss að fljótlega þyrfti hann nýja bók. Ég man hversu hann og Elvar voru stoltir yfir að fá að vera skírnarvottar litlu systur sinnar og hversu fínn hann var í nýju jakkafötunum sínum um áramótin síðustu.

Elsku Særún systir. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þér síðustu daga. Syrgjandi son þinn hefur þú huggað öll ungmennin í fjölskyldunni og vini Ölla á sama tíma og litla ljósið þitt nærist við brjóst þitt. Mundu að við erum ávallt öll þín.

Elsku Elvar, missir þinn er mikill. Megi Guð vaka yfir þér og styrkja. Þú veist að þú átt stórar fjölskyldur sem elska þig.

Elsku Stulli og fjölskylda, Erna og Ölli. Guð styrki ykkur í ykkar miklu sorg. Þið eruð stór og samhent fjölskylda og það hefur verið huggun að fá að dvelja með ykkur í sorginni.

Skarðið sem hefur myndast verður aldrei fyllt og mun stöðugt minna á sig en geislar sólar munu fá að brjótast í gegn og smátt og smátt verður gott að orna sér við góðar minningar um góðan og fallegan dreng.

Guðrún.

Elsku Ölli minn. Ég á svo bágt með að trúa því að þú sért farinn frá okkur. Fyrstu dagana beið ég í sífellu eftir að vakna upp af þessari hræðilegu martröð en loks áttaði ég mig á að þetta væri hinn nístingskaldi raunveruleiki. Söknuðurinn er svo mikill og sorgin svo djúp að það virðist ómögulegt að fá sálarró á ný. Það er erfitt að sætta sig við dauðann og jafnvel enn erfiðara að sætta sig við lífið, en maður verður víst að halda áfram. Það mun ég gera og ég ætla að reyna að geyma allar fallegu minningarnar um þig hjá mér og varðveita þær í hjarta mínu að eilífu. Þeir deyja ungir sem guðirnir elska. Þér hefur án efa verið ætlað mikilvægt hlutverk annars staðar og ég er þess fullviss að þú munt leysa það vel af hendi.

Þú varst frábær frændi og vinur. Þú varst alltaf svo hress og skemmtilegur og ég mun sakna þess að sjá ekki brosið þitt og heyra hláturinn þinn. Þær eru ófáar minningarnar um þig þar sem þú lékst á als oddi, sagðir brandara og sögur og hermdir eftir Fóstbræðrum eða öðrum grínistum. Þú komst mér alltaf til að hlæja.

Ég var svo hreykin af þér, bæði sem körfuboltamanni og sem vini og frænda. Þú varst einstök manneskja og sannkölluð hetja í mínum augum. Ég man eitt kvöldið þegar bankað var á dyrnar heima og þegar ég opnaði stóðst þú þar skælbrosandi, nýkominn heim frá Bandaríkjunum. Ég var svo undrandi því ég vissi ekki að von væri á þér heim. Þetta var dæmigert fyrir þig, þú hugsaðir alltaf svo vel um þína nánustu vini og ættingja. Vinsældir þínar eru því auðskildar. Þú varst vinur allra og þó þú værir einn harðasti Njarðvíkingur sem ég þekki áttir þú mjög góða vini úr hinum körfuboltaliðunum hér á Suðurnesjum og eflaust víðar. Þar sem ég er Keflvíkingur var ætíð erfitt fyrir mig að gera upp á milli Keflavíkur og Njarðvíkur í körfunni, en til að auðvelda mér það sagðist ég alltaf halda með Ölla frænda. Ég var alltaf jafn glöð þegar þér gekk vel því þá vissi ég að þú værir ánægður. Karfan var þitt líf og yndi og þar varstu svo sannarlega á réttri hillu.

Síðasta kvöldið þitt sendir þú mér skilaboð á símann og ég var svo ánægð að heyra frá þér. Svo hittumst við á Skothúsinu, þú tókst utan um mig og svo dönsuðum við saman. Þú varst svo ánægður og skemmtir þér svo vel. Ég er svo ólýsanlega þakklát fyrir að hafa hitt þig þetta kvöld og dansað við þig einn af síðustu dönsunum, því margar af mínum bestu minningum um þig eru af dansgólfinu. Við dönsuðum svo oft saman í gegnum tíðina að stundum komu sögusagnir um að við værum par. Ég veit að við munum hittast seinna og dansa saman og hlæja og það verða ánægjulegir endurfundir því ég sakna þín svo mikið.

Guð geymi þig, elsku Ölli minn. Ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna, hjá ömmu og afa. Ég bið Guð um að gefa okkur öllum styrk til þess að lifa með sorginni og minnast góðu stundanna sem þú gafst okkur.

Þín frænka,

Ásdís.

Elsku besti vinur minn, það er erfitt að trúa því að þú sért farinn frá mér. Maður skilur stundum ekki alveg hvað Hann þarna uppi er að hugsa, en ég veit að hann hefur virkilega þurft á þínum kröftum að halda. Þú varst alltaf svo líflegur og glaður og þú kunnir sko að njóta lífsins.

Það er svo hræðilega erfitt að þú skulir vera farinn svona snöggt en þá hugsa ég til allra góðu stundanna sem við áttum saman og þá brosi ég breitt. Ég gleymi þessum stundum aldrei, t.d. þegar við vorum báðir í skóla í Bandaríkjunum, ég í New Jersey og þú í Norður-Karólínu. Þá hringdum við hvor í annan á hverjum degi, töluðum og hlógum saman til að vinna á heimþránni sem við fengum stundum. Það var gott að vita af besta vini sínum svona nálægt sér þótt við töluðum ekki saman nema í síma, vita að ég var ekki sá eini sem var í burtu frá fjölskyldu minni og þannig styrktum við hvor annan.

Ég man þegar við hringdum á kvöldin, settum á sömu sjónvarpsstöð og horfðum á körfuboltaleik eða hlógum saman að einhverjum grínþætti þótt við værum bara í símanum.

Ég mun aldrei gleyma því þegar við unnum okkar fyrsta og eina Íslandsmeistaratitil saman með Njarðvík árið 1998. Það var sérstakt að vinna minn fyrsta titil í meistaraflokki með þér, besta vini mínum, sem ég hafði spilað með frá upphafi.

Alltaf þegar ég kom á æfingu vissi ég að ég þyrfti að leggja mig 100% fram því ég var að æfa með þér. Við hertum hvor annan upp og gáfum allt í æfingarnar. Ég viðurkenni að það sauð af og til upp úr hjá okkur og við rifumst stundum en það sýndi hvað okkur langaði mikið til að vinna. Eftir æfinguna fórum við saman brosandi út eins og ekkert hefði í skorist. Þú gerðir mig að betri leikmanni inni á vellinum og betri persónu utan hans. Þú ofmetnaðist aldrei þótt þér gengi vel og talaðir aldrei um velgengni þína.

Ef mér gekk illa á æfingu var gott að fara út úr íþróttahúsinu með þér og heyra þig segja: ,,Hvað er þetta, maður, það er önnur æfing á morgun og þá bætirðu mistökin bara upp."

Ég man líka svo vel eftir öllum keppnisferðunum okkar með Njarðvík og unglingalandsliðinu. Þar vorum við óaðskiljanlegir og áttum ógleymanlegar stundir saman.

Við töluðum alltaf um að láta drauma okkar rætast saman, það er erfitt að sætta sig við að ég get ekki séð þig aftur en ég stefni enn á sömu drauma og veit að þú verður alltaf með mér.

Elsku Ölli, ég þakka þér fyrir að hafa verið vinur minn og ég mun aldrei gleyma þér. Guð geymi þig.

Þinn vinur

Logi.

Hann Ölli vinur okkar er dáinn. Hörmulegt slys, eitt augnablik og þessi yndislegi drengur sem okkur öllum þótti svo vænt um er tekinn frá okkur. Ölli lék allan sinn körfuboltaferil með Njarðvík. Hann átti ekki langt að sækja hæfileika sína, Sturla faðir hans og föðurbræður, þeir Teitur og Gunnar, eru allir þekktir körfuboltakappar. Skjótur frami Ölla var með ólíkindum, allt frá því að vera góður leikmaður í yngri flokkum félagsins til þess að vera máttarstólpi eins sterkasta körfuboltaliðs landsins aðeins 18 ára gamall. Auk þess spilaði hann fjölda unglingalandsleikja og einnig með A-landsliði Íslands. Ölli var ein bjartasta von Njarðvíkur og Íslands í körfubolta og hlökkuðum við öll til að fylgjast áfram með þessum fjölhæfa og skemmtilega strák í framtíðinni. Við öll sem tengjumst körfuboltanum í Njarðvík og í allri körfuboltahreyfingunni stöndum agndofa þegar ungur glæsilegur drengur er kvaddur burt frá okkur í blóma lífsins. Við eigum ekki eftir að sjá þennan skemmtilega félaga okkar þeysast um körfuboltavöllinn eða hitta hann brosandi á förnum vegi aftur.

Minningarnar hrannast upp í huga mér þegar ég hugsa um þennan ljúfa dreng sem var daglegur gestur á heimili mínu um margra ára skeið. Ölli og Logi sonur minn voru saman öllum stundum frá því að þeir byrjuðu í minnibolta og allt þar til þeir spiluðu saman í meistaraflokki félagsins. Öll þessi ár voru þeir óaðskiljanlegir félagar sem gættu hvor annars í öllu sem þeir tóku sér fyrir hendur. Á þessum árum fékk fjölskylda mín tækifæri til að kynnast Ölla og fyrir það erum við ævinlega þakklát. Það var aðeins fyrir nokkrum dögum að við sátum saman í flugvél vestur á Ísafjörð og spjölluðum saman. Við töluðum um hvað hann ætlaði að gera í sumar og hvað framtíðin bæri í skauti sínu, það væru svo mörg spennandi verkefni framundan fyrir hann á næstu árum. Einnig talaði Ölli um hvað það væri gott að vera kominn aftur til afa og ömmu í Lágmóann, því þar væri svo gott að vera. Þegar svona dynur yfir finnum við hvað Njarðvíkurhjartað slær sterkt í brjóstum okkar og hversu mikils virði við erum hvert fyrir annað.

Við í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar, leikmenn meistaraflokka og yngri flokka deildarinnar kveðjum vin okkar í hinsta sinn með söknuð og trega í hjarta og biðjum að algóður Guð blessi hann og varðveiti. Við sendum ykkur, foreldrum, systkinum og öðrum ættingjum, innilegustu kveðjur okkar og höfum ykkur í bænum okkar.

Hvíldu í örmum Guðs, elsku vinur.

Gunnar Þorvarðarson,

formaður körfuknattleiksdeildar Ungmennafélags Njarðvíkur.

Elsku Ölli minn, það er svo erfitt aðskilja af hverju þú varst hrifinn svo skyndilega á brott í blóma lífsins.

Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína

sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.

Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,

sem hugsar til þín alla daga sína.

(Tómas Guðmundsson.)

Þú varst bara smápolli þegar ég sá þig fyrst og varst þá þegar farinn að venja komur þínar í íþróttahúsið í Njarðvík. Mjög fljótlega kom í ljós færni þín í körfubolta. Þú hafðir yfir að ráða afburða boltatækni sem og góðri líkamsstjórn. Leiðir okkar, sem þjálfari og leikmaður, lágu fyrst saman þegar þú varst í 7. flokki og spilaðir upp fyrir þig sem kallað er með 8. flokki en þann flokk þjálfaði ég. Þú, ásamt félaga þínum og vini, Loga Gunnarssyni, settir mark þitt á þann flokk, og þótti sýnt að þar færu framtíðarefni í íslensku íþróttalífi. Næstu þrjú árin þjálfaði ég í Grindavík og fylgdist með þér úr fjarlægð hvað varðaði körfuboltann en hitti þig þó á hverjum degi þar sem ég vann í Njarðvíkurskóla. Þú varst vinsæll mjög og naust mikillar virðingar hjá bekkjarsystkinum þínum sem og öðrum nemendum. Mér er minnisstætt þegar hópur af eldri bekkingum var að stríða einum nemandanum og þú sagðir við þá að þú tækir til þinna ráða ef þeir hættu ekki og það strax. Þetta lýsir því í hnotskurn hvernig þú varst því þú máttir ekkert aumt sjá.

Árið 1997 lágu leiðir okkar aftur saman hjá U.M.F.N. Tveir ungir piltar, nýútskrifaðir úr 10. bekk grunnskóla, hófu æfingar með Mfl. U.M.F.N. Þetta voruð þið Logi og áttuð þið eftir að koma mikið við sögu þennan veturinn. Fyrsti leikurinn þinn með meistaraflokki er mjög minnisstæður en hann var uppi á Akranesi 7. desember 1997. Þú varst í byrjunarliðinu og gegndir þar lykilhlutverki sem leikstjórnandi en það er með erfiðustu hlutverkum í körfubolta. Þennan leik spilaðir þú af svo miklu öryggi að það var eins og þú hefðir aldrei gert neitt annað. Þó að leikurinn tapaðist léstu það ekki á þig fá, heldur efldist við hverja raun og þú áttir eftir að sýna styrk þinn svo um munaði. Eftir þetta áttirðu hvern stórleikinn á fætur öðrum eins og svo margir muna og áttir þú ekki svo lítinn þátt í því að 19. apríl 1998 hömpuðum við eftirsóttasta titlinum í körfubolta, Íslandsmeistaratitlinum.

Veturinn næsta hélstu svo til Bandaríkjanna til að fara í skóla og spila körfu með skólanum þínum og þar stóðstu þig einnig mjög vel og þroskaðist mikið. Sumarið 1999 fékk ég aftur þann heiður að fá að starfa með þér þar sem ég þjálfaði bæði unglingalandsliðið og U-20 ára landsliðið. Þú varst lykilmaður í báðum liðum og stóðst þig frábærlega vel. Þú ákvaðst svo að vera um veturinn heima á Íslandi og kom þá ekkert annað til greina hjá þér en að spila með Njarðvík. Það sem af er tímabilinu varst þú, að öllum öðrum ólöstuðum, einn besti leikmaður Íslandsmótsins og það aðeins 18 ára gamall. Enda kom það fáum á óvart að þú varst valinn í A-landsliðið og spilaðir þú þrjá landsleiki í nóvember og desember sl. Lokaleikur þinn var svo 15. janúar sl. en það var Stjörnuleikur KKÍ og varst þú valinn fyrstur Íslendinganna til að spila.

En nú er komið að vinum að skiljast. Það er með harm í hjarta sem ég kveð þig, Ölli minn. Ég mun aldrei gleyma þér og þeim tíma sem við áttum saman. Ég er þakklátur Guði fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þér og starfa með þér. Það verður alltaf hluti af þér í hjarta mínu og þú munt eiga þar vissan stað. Nú eiga mamma þín og pabbi og allir ættingjar þínir um sárt að binda. Elsku Særún, Sturla og Elvar Þór, ég votta ykkur og fjölskyldum ykkar mína dýpstu samúð og megi algóður Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,

sem ung á morgni lífsins staðar nemur,

og eilíflega, óháð því sem kemur,

í æsku sinnar tignu fegurð lifir?

Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki

um lífsins perlu í gullnu augnabliki -

(Tómas Guðmundsson.)

Að leiðarlokum vil ég segja þetta við þig, Ölli minn - þá er þessum leik lokið, kæri vinur, og þú stóðst þig vel. Næsti leikur verður á öðrum stað, á öðrum tíma og ég veit að þú stendur þig vel þar líka. Mundu bara þegar þú keyrir inn í vörnina að þá ferðu til að skora eða til að skapa öðrum tækifæri á að skora. Vertu sæll að sinni, við hittumst síðar.

Friðrik Ingi Rúnarsson.

Kveðja frá Körfuknatt- leikssambandi Íslands

Það var harmafregn í byrjun vikunnar að fá símtal þess efnis að einn af efnilegustu leikmönnum íslensks körfuknattleiks væri allur, einungis 18 ára að aldri. Aðeins tveimur dögum áður átti ég við hann ánægjulegt spjall í hádegisverðarboði fyrir árlegan stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands, þar sem Örlygur hafði verið valinn einn af þátttakendum í hópi bestu leikmanna landsins.

Örlygur Sturluson vakti athygli á hæfileikum sínum með eftirminnilegum hætti þegar hann sextán ára gamall átti stóran þátt í að tryggja Njarðvíkingum Íslandsmeistaratitil í körfuknattleik vorið 1998. Það fór ekki framhjá neinum að þarna var stórefni á ferð, og ekki dró þekktur frændgarðurinn úr því að þarna þóttust körfuknattleiksáhugamenn sjá fyrir sér næstu stórstjörnu í íslenskum körfuknattleik.

Eftir ársdvöl í skóla í Bandaríkjunum sneri Örlygur aftur til Íslands og hefur leikið með liði Njarðvíkinga á yfirstandandi keppnistímabili. Sá þroski sem hann hafði náð í íþróttinni endurspeglaði á engan hátt reynslu 18 ára gamals unglings, en leikstíll hans, reisn og sjálfstraust sem leikstjórnanda báru merki þess að þar færi þaulreyndur keppnismaður.

Örlygur þreytti frumraun sína með landsliðinu nú í vetur, ekki í æfingaleik eða vináttulandsleik heldur í einu erfiðasta verkefni sem landsliðið hefur tekið þátt í. Stóð Örlygur sig þar með mikilli prýði, langyngstur leikmanna, og féll vel inn í þann hóp sem myndar landslið Íslands í körfuknattleik.

Átti undirritaður þess kost að kynnast Örlygi persónulega í ferð landsliðsins til Úkraínu nú í nóvember sl., og voru þau kynni ánægjuleg í alla staði. Prúðmennska, hógværð og vilji til að gera sitt besta í þágu landsliðsins lýsa best þeirri hlið sem undirritaður kynntist á Örlygi utan vallar. Hann bar íslenska fánann á brjóstinu með miklu stolti.

Ekki leikur vafi á að íslenskur körfuknattleikur hefur nú tapað einum sinna efnilegustu sona. Margir munu sakna snillinnar á leikvellinum, og samleiks frændanna í Njarðvíkurliðinu. Á hinn bóginn er hugur körfuknattleiksfólks hjá aðstandendum Örlygs, en erfitt er að ímynda sér meiri sorg en foreldra sem misst hafa barn sitt áður en það kemst til fullorðinsára. Faðir Örlygs, Sturla, er fyrrverandi landsliðsmaður og þekktur leikmaður á Íslandi í mörg ár, og stendur sorg hans og fjölskyldunnar körfuknattleikshreyfingunni nærri.

Vil ég senda Sturlu og öllum aðstandendum samúðarkveðjur f.h. KKÍ.

Ólafur Rafnsson,

formaður KKÍ.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þeirri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Elsku Örlygur, þegar ég frétti af andláti þínu varð ég harmi slegin. Ég sá þig síðast um áramótin og við óskuðum hvort öðru gleðilegs nýs árs.

Það er erfitt að trúa því að þú, þessi ungi fallegi strákur í blóma lífsins, sért látinn, og eftir situr aðeins sorgin og minningarnar um þig. Við þekktumst ekki mikið en væntumþykja mín í þinn garð var svo sannarlega og verður alltaf mikil. Þú varst svo góður við alla og allir litu upp til þín. Bros þitt var eins og tunglið, það lýsti upp allt í kringum þig og fólkið sem var nálægt þér. Ég mun aldrei gleyma þér, Ölli.

Guð geymi þig og blessi fjölskyldu þína, Guðnýju Ólöfu og alla nána vini þína.

"Drottinn Guð faðir, veit okkur þá náð að elska hvern þann sem á vegi okkar verður. Við áköllum miskunn þína og biðjum fyrir öllum, sérstaklega þeim, sem þú hefur gefið okkur til samfylgdar í lífinu. Gef þeim, Drottinn, langt umfram allt sem við kunnum að biðja eða hugsa. Lát þau ávallt vera í vernd þinni og handleiðslu. Hjálpa þeim að elska þig og lát þau að lokum eignast lífið eilífa, óforgengilega. Þér sé dýrð að eilífu. Amen." (Anselm.)

Pálína Ósk.

Kæri Ölli. Við viljum þakka þér fyrir allar ánægjustundirnar sem við höfum átt saman. Þín verður ávallt minnst sem hressa og ánægða stráksins sem aldrei lét neitt á sig fá. Stórt skarð hefur verið höggvið í vinahóp okkar, sem aldrei mun fyllast. Mun þín ávallt verða saknað.

Megi guð geyma þig.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(V. Briem.)

Fjölskyldu og ættingjum vottum við okkar dýpstu samúð.

Vinarkveðja,

Oddur Jónasson og

Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Elsku besti Ölli. Það er á stundum sem þessari sem við förum að hugsa hve lífið er dýrmætt og hversu ósanngjarnt það er. Það er mjög sárt að líta yfir farinn veg og vita til þess að við eigum aldrei aftur eftir að hafa tækifæri til þess að hlæja og skemmta okkur saman.

En hann Ölli eins og hann var alltaf kallaður var mikill keppnismaður og lagði sig alltaf hundrað prósent fram í körfuboltanum. Ég man alltaf eftir því þegar hann byrjaði að æfa með okkur í meistaraflokki karla í Njarðvík. Þá hugsaði maður með sér: Þessir litlu guttar hafa gott af því að prófa að æfa með okkur. En áður en maður vissi af var Ölli kominn í liðið og farinn að vinna leiki fyrir okkur. Það var unun að horfa á hann spila því körfuboltinn var hans líf og yndi og spilaði hann alltaf með hjartanu.

Við munum alltaf eftir því þegar við fórum í liðspartýið til Geira og Ollu á Þórustíginn þar sem mamma þín og þið bræðurnir bjugguð. Þú gekkst inn í stofuna brosandi og kátur hlammaðir þér í sófann og sagðir: "Ég er kominn heim."

Þetta er aðeins brot af minningum um þennan indæla og ljúfa vin sem við munum ávallt geyma í hjarta okkar.

Biðjum góðan Guð að styrkja Stulla og fjölskyldu og Særúnu og fjölskyldu.

Hinsta kveðja.

Þínir vinir,

Páll og Pálína.

16. janúar árið 2000 er dagur sem margir eiga eftir að minnast með sorg í hjarta, þegar hann Örlygur vinur okkar kvaddi þennan heim allt, allt of fljótt.

Öll eigum við eftir að muna hina ungu stjörnu Njarðvíkurliðsins, sem þeyttist um víðan völl og lét ekkert stoppa sig. Það er mjög erfitt að hugsa til þess að eiga aldrei eftir að sjá hann í þessari veröld.

Við sem bekkjarfélagar eigum margar góðar minningar um elskulega Ölla okkar. Hann var alltaf svo hress og kátur, og ef það var einhver sem gat slegið á létta strengi, þá var það hann. Það má með sanni segja að það hafi geislað af honum lífskrafturinn og leikgleðin.

Það hugsa eflaust margir: Af hverju hann? Hann sem var aðeins 18 ára og í blóma lífsins. Honum hefur eflaust verið ætlað annað hlutverk á öðrum stað.

Þeir deyja ungir sem guðirnir elska. En hann Ölli okkar mun halda áfram að lifa í hjörtum okkar, í græna búningnum með Íslandsbikarinn á lofti.

Við biðjum góðan Guð að styrkja nánustu ættingja, vini og aðra aðstandendur.

Fyrir hönd árgangs '81 í Njarðvíkurskóla.

Flóra Hlín Ólafsdóttir.

Engill er fallinn frá. Hann er farinn þangað, þaðan sem hann kom.

Engill sem kom og fór. Þegar mér bárust þær fregnir að Ölli væri dáinn þá fannst mér það sárt. Hann svona ungur og lífið lék í lyndi. En þegar Guð kallar þá verðum við að virða kallið, þótt það sé erfitt. Líf og starf Ölla kenndi okkur öllum svo margt sem kynntumst honum. Hann skilur fallegar minningar eftir sig.

Mér varð hugsað til þess tíma þegar ég var beðin að leysa kennara hans af í heilan mánuð árið 1990. Þá var Ölli aðeins níu ára gamall, feiminn og fallegur drengur.

Hann var metnaðargjarn bæði inni í kennslustofu og úti á leikvelli. Í körfu. Auðvitað í körfu því hann var kominn af þekktum körfuboltamönnum.

Þetta sport fékk hann í vöggugjöf.

Ég var nýútskrifaður kennari með barn undir belti, komin sjö mánuði á leið. Ölli og krakkarnir í bekknum voru mér svo ljúf og umhyggjusöm.

Eftir fæðinguna komu þau öll á fæðingardeildina með gjöf til barnsins og risastórt kort sem þau höfðu skrifað á. Mér þótti mjög vænt um þetta.

Örlygur Aron Sturluson var einstakur. Ég sé hann ljóslifandi fyrir mér með bjarta brosið sitt. Mér hlotnaðist að fá að fylgjast með honum vaxa úr grasi því náin vinátta er með mér og móður hans. Ósjaldan varð ég vitni að einstakri umhyggju sem Ölli sýndi mömmu sinni. Þegar frægðarsólin hans tók að rísa í körfuboltanum og fjölmiðlarnir áttu við hann viðtal hrósaði hann mömmu sinni svo fallega. Mitt í allri athyglinni vildi hann segja frá henni og hvað hún hafði gert fyrir hann.

Hann fór aldrei á flug með frægðinni heldur var hann alltaf með báða fætur á jörðinni. Svona var Ölli.

Særún og Stulli eignuðust tvo gullmola, Örlyg og Elvar. Ólíkir bræður en samt ekki. Báðir mjög sterkir persónuleikar, hvor á sinn hátt.

Örlygur blómstraði í körfunni en Elvar fann sig ekki í sportinu. Þó segja mér kunnugir að hann sé mjög góður spilari þegar hann tekur í boltann. Elvar hefur allt aðra mannkosti til að bera en bróðir hans.

Elvari kynntist ég vel þegar ég vann með honum að leiksýningu sem unglingar í Reykjanesbæ settu upp fyrir tveimur árum. Hann lék stórt hlutverk og gerði það með glans. Elvar á eftir að blómstra á þeirri hillu sem hann velur sér í framtíðinni. Þeir eru svona þessir bræður.

Hundrað prósent menn í því sem þeir hafa áhuga á að taka sér fyrir hendur.

Nú setur mig hljóða þegar ég hugsa til elsku vinkonu minnar, Særúnar. Þessi elska er búin að reyna margt. Sorgin hefur knúið svo oft dyra hjá henni. Það er harður skóli að fara í gegnum sorgina en Særún gerir það á fallegan hátt. Það var einstakt að hlusta á hana um daginn. Róleg og yfirveguð rifjaði hún upp allt það góða sem Ölli skilur eftir sig. Við eigum minningarnar um hann í hjarta okkar og sendum honum hlýjar hugsanir.

Elsku vinir, ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessari sorgarstundu. Ég bið algóðan Guð að umvefja Ölla og okkur öll með elsku sinni. Næst þegar ég horfi til stjarnanna þá mun stærsta stjarnan á himninum vera tileinkuð minningu Ölla. Yndislegs vinar. Guð geymi hann og verndi.

Marta Eiríksdóttir.

Eitt lítið blóm er rifið upp með rótum, liggur á jörðinni og deyr, hin öll í hnapp eftir standa, drúpa höfði og fella tár - þau skilja þetta ekki, frekar en við - af hverju þetta blóm - enginn skilur það nema Guð.

Þannig er þetta einnig þegar maður sest niður til að kveðja Örlyg Aron, ungan pilt í blóma lífsins, með bjarta framtíð. Enginn skilur það nema Guð.

Ölli var sem einn af okkur, mikil fjölskyldutengsl höfðu myndast á milli okkar, við afarnir vorum vinnufélagar frá 1949, bjuggum sem nágrannar í Grænási þar sem börnin urðu vinir og félagar, Óli Gunnar og Sturla, Ástþór og Teitur og síðan barnabörnin Ölli og Atli.

Það er ekki erfitt að rifja upp eða bera niður einhversstaðar á uppvaxtarárum Ölla því alltaf kemur aftur og aftur - íþróttir - og þá sérstaklega körfubolti, en þær voru ekki fáar heimsóknir hans til okkar á Hólagötu, þær voru ánægjulegar, þar sá maður vinina vaxa og dafna við leik og ærsl, hvert árið varð maður að hækka körfuna því framfarir urðu miklar - ég hélt og kannski vonaði að ég gæti eitthvað leiðbeint - en svo var ekki, hann kunni og gat miklu meira en ég, en það gladdi okkur mikið - þegar þeir Atli og Ölli voru í boltaleik á baklóðinni eftir fjölda glasa af mjólk og stórar pönnukökur að ógleymdum súkkulaðikökum, og þeim leiddist heldur ekki þegar Óli og Ástþór tóku þátt í leiknum - með sín sérstöku "sveiflu- og stökkskot".

Síðan var komið inn, allt klárað yfir upprifjun á leiknum, síðan umræður um alla kappana í NBA. Þar voru þeir betri en í sögubókum. Ölli átti sinn uppáhaldsleikmann sem hann vildi líkjast og það fór ekki á milli mála, Ölli varð okkar Jordan.

Hann fór í skóla til Bandaríkjanna því hann vildi læra og vera þar sem mekka körfuboltans er, stóð sig vel, gat auðveldlega haldið áfram og orðið einn af þeim fremstu, en heimþráin varð yfirsterkari, svo hann sneri heim aftur og tók upp þráðinn með úrvalsliði Njarðvíkur, með frábærum leik og hleypti nýju lífi í leik liðsins. Það var oft unun að sjá hvernig hann fór með mótherjana.

Það er stutt síðan við Atli sátum saman og ræddum um Ölla og þá kom fram að við sáum alltaf bjarta framtíð hjá honum og að það yrði ekki langt þangað til hann héldi út aftur - og þá beint í atvinnumennskuna, en enginn veit örlög sín.

Við eigum góðar endurminningar um góðan dreng og þó söknuður okkar sé mikill þá vitum við að söknuður fjölskyldu hans er meiri en orð fá lýst.

Og með þessum fátæklegu línum viljum við kveðja góðan vin um leið og við sendum ástvinum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur - en eitt vitum við að þar sem sál hans Örlygs Arons er - er verið að spila körfubolta.

Ingi Gunnarssonog fjölskylda.

"Hann Ölli er dáinn," voru orð mömmu þegar hún hringdi í mig til Connecticut mánudaginn 17. janúar sl. Þetta gat bara ekki verið rétt, það hlaut að vera einhver misskilningur. Ölli gæti ekki verið dáinn, hann sem er bara 18 ára. Smátt og smátt síaðist raunveruleikinn inn. Af biturri reynslu veit ég að ekki er spurt um aldur þegar kallið kemur.

Margar góðar minningar leita á huga minn. Þegar ég fluttist heim til Íslands fimm ára og fékk að fara með Hreiðari og Friðriki Inga frændum mínum á körfuboltaæfingar hitti ég Ölla fyrst. Hann fékk líka að fara með pabba sínum, Stulla, og Teiti frænda sínum á æfingar. Við fengum að vísu rautt spjald frá Valla Ingimundar þjálfara þar sem við, ég, Ölli og Aggi frændi hans, þóttum fullærslafullir og trufluðum æfingar. Við áttum margt sameiginlegt við Ölli, við vorum báðir úr mikilli íþróttafjölskyldu og körfuboltinn var ekki bara áhugamál, körfuboltinn var okkar ástríða. Við byrjuðum smápollar að æfa með liðinu okkar, UMFN. Þetta var góður hópur sem hefur haldið saman í gegnum árin.

Við Ölli vorum svo sannarlega ekki þeir hávöxnustu í hópnum en við bættum það upp með öðrum hæfileikum og af þeim áttir þú nóg. Við spiluðum sömu stöðu á vellinum og fórum saman upp í gegnum alla flokkana utan nokkra mánuði sem ég spilaði með KR. Þá veittist mér sú ánægja að spila á móti þér. Þú varst svo sannarlega ekki árennilegur mótherji en þú varst frábær samherji. Þú náðir að afreka margt á þinni allt of stuttu ævi, þú spilaðir með meistaraflokki UMFN og þar naustu þín vel. Alltaf varstu prúður leikmaður þótt mikið gengi á. Þú varst kosinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins í körfuknattleik tímabilið 1997-1998, þú spilaðir með úrvalsliði Reykjanesbæjar á Evrópumeistaramótinu 1999 og spilaðir með A-landsliði karla í körfuknattleik svo fátt eitt sé nefnt.

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga,

tárin eru beggja orð.

(Ólöf frá Hlöðum.)

Þetta ljóð, sem er eitt af uppáhaldsljóðum mömmu, lýsir svo vel þeim tilfinningum sem bærast innra með mér núna. Kæri vinur, ég finn fyrir söknuði og sorg yfir að ævi góðs drengs skuli vera á enda runnin svo allt of fljótt. Ég finn líka gleði yfir að hafa þekkt þig og gengið með þér hluta af allt of stuttri lífsgöngu þinni sem vinur og samherji í leik og starfi. Við kvöddumst á nýársnótt þegar nýtt ár og ný öld voru gengin í garð og vorum við ákveðnir að hittast aftur í sumar þegar ég kæmi heim í sumarfrí. Það átti ekki að verða og kveð ég góðan dreng að sinni og trúi því að við munum hittast aftur seinna. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu og ástvina Ölla og bið Guð að styrkja þau og styðja í þeirra miklu sorg, söknuði og sársauka sem þau nú ganga í gegnum.

Ágúst Hilmar,

Connecticut,

Bandaríkjunum.

"Það varð slys og hann Ölli er dáinn." Hugurinn neitaði lengi að taka við þessum skilaboðum. Ungur og efnilegur drengur er hrifinn burt frá þessu lífi. Þau eru þung sporin hjá Særúnu vinkonu minni, sem fylgir nú eldri syni sínum til grafar, aðeins 18 ára gömlum.

Lengi höfum við fylgst að vinkonurnar og ekki minnkuðu samskiptin þegar báðar eignuðust drengi á svipuðu reki. Heimsóknir urðu margar milli heimilanna og komu þau mæðgin margar ferðirnar til Svíþjóðar þar sem við bjuggum. Fjórir frískir strákar léku sér saman sem óhjákvæmilega treysti vináttuböndin.

Aðstæður Særúnar voru oft á tíðum erfiðar eins og títt er hjá einstæðum mæðrum, við umönnun tveggja kraftmikilla drengja ásamt því að stunda erilsama atvinnu. Ölli sýndi snemma mikla ábyrgð og umhyggju fyrir Elvari Þór yngri bróður sínum. Hann var móður sinni trygg stoð og samband þeirra varð einstaklega heilsteypt og náið. Vafalaust hefur þessi snemmbúna ábyrgð aukið þrek hans og áræði sem kom glöggt fram á íþróttavellinum síðar, þegar hann svo ungur var orðinn einn þekktasti körfuboltaleikmaður landsins. Í viðtali eftir að hann hafði verið kosinn efnilegasti leikmaðurinn var hann spurður hverju hann þakkaði árangurinn og ekki stóð á svarinu: "Henni mömmu."

Ölli var tilfinningaríkur ungur maður. Hann var hamingjusamur fyrir hönd móður sinnar, sem nýlega hafði hafið sambúð með Valdimar, sem þeir bræður virtu mjög.

Það verður mér ógleymanlegt þegar ég hitti Ölla á fæðingardeildinni fyrir aðeins þremur mánuðum og sá stolt hans og gleði yfir litlu systur.

Það er sárara en nokkur orð geta lýst að horfa fram á þann veruleika að Ölli er ekki lengur meðal okkar og sárastur er missir foreldra og systkina.

Hví var þessi beður búinn,

barnið kæra, þér svo skjótt?

Svar af himni heyrir trúin

hljóma gegnum dauðans nótt.

Það er kveðjan: Kom til mín!

Kristur tók þig heim til sín.

Þú ert blessuð hans í höndum,

hólpin sál með ljóssins öndum.

(B. Halld.)

Elsku Særún, Elvar, Valdi og Matthildur Lillý, Stulli og fjölskylda.Við sendum ykkur samúðarkveðjur og biðjum algóðan guð að styrkja ykkur í sorginni.

Helga og fjölskylda.

Með örfáum orðum vil ég fyrir mína hönd og annarra leikmanna landsliðsins í körfuknattleik minnast Örlygs Sturlusonar.

Þar sem ég hef að mestu spilað erlendis undanfarin þrjú ár sá ég Örlyg spila í fyrsta sinn með meistaraflokki Njarðvíkur nú á haustmánuðum. Strax tók maður eftir líkamlegum krafti hans og ótrúlegu áræði þrátt fyrir ungan aldur. Það kom því ekki á óvart að hann var valinn í æfingahóp íslenska landsliðsins fyrir leiki í EM-keppni í nóvember. Á fyrstu æfingunum sýndi hann að hann var ekki þarna bara til að vera með, heldur til að komast í landsliðið. Í framhaldi af því lék hann sína fyrstu og einu landsleiki fyrir réttum tveimur mánuðum.

Þegar maður sá Örlyg glíma við sterka atvinnumenn með landsliðinu datt manni ekki annað í hug en að þar færi landsliðsmaður framtíðarinnar og að Örlygur ætti eftir að klæðast landsliðsbúningnum oft um ókomin ár. Því Örlygur var ekki aðeins efnilegasti leikmaðurinn í úrvalsdeildinni í vetur, hann var strax orðinn einn af betri og kraftmestu bakvörðum deildarinnar.

En skjótt skipast veður í lofti. Þegar ég frétti að Örlygur hefði látist í hörmulegu slysi setti mig hljóðan og það tók mig þó nokkurn tíma að trúa að þetta væri virkilega satt. Svona ungur og efnilegur drengur hrifinn burt þegar hann á allt lífið framundan og allir vegir opnir til að bæta getu sína á körfuknattleikssviðinu enn frekar og herja á önnur og stærri lönd í atvinnumennsku í íþróttinni.

Víst er að Örlygs verður sárt saknað í framtíðaruppbyggingu körfuknattleikslandsliðsins. Þó geri ég mér grein fyrir að harmur fjölskyldu hans og náinna vina er mestur og sendi ég þeim mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Guðmundur Bragason.