Brynhildur Jóhannesdóttir fæddist í Hafnarfirði 30. apríl 1937. Hún lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 11. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Kópavogskirkju 17. janúar.

Brynhildur, eða Binna, eins og hún var jafnan nefnd, var glæsileg og hjartahlý kona. Hún var með eindæmum bóngóð og alltaf tilbúin til að greiða götu allra sem henni tengdust. Þar réð umhyggjan ferðinni, rík og án nokkurra skilyrða. Jákvæði, bjartsýni og hlýja voru ær og kýr Binnu. Þeir lyndiseiginleikar hennar smituðu svo sannarlega út frá sér. Brosið hennar bjarta bægði burtu áhyggjum og þreytu og smitandi hláturinn var ekki skorinn við nögl. Sömu sögu var að segja af kræsingunum og móttökunum öllum á heimili þeirra hjóna á Akureyri. Þangað var alltaf gott að koma.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við fluttum norður árið 1988 og ég var að segja Magnúsi frá fyrirhuguðum flutningum en þá var hann aðeins þriggja ára. Þá sagði hann strax: "Til ömmu Binnu og Magnúsar afa," og ljómaði allur og gerði það alla tíð síðan þegar hann var að fara til ömmu og afa.

Við viljum að leiðarlokum þakka Binnu fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur mæðginin, allt sem hún gaf okkur og við munum búa að lengi. Magnúsi, börnum, tengdabörnum og barnabörnum sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

Sorg og gleði auður er

öllum þeim sem vilja.

Ég á margt að þakka þér

þegar leiðir skilja.

(Hulda.)

Ingibjörg Sólrún

Ingimundardóttir,

Magnús Blöndal Jóhannsson.