Sigurrós Jónsdóttir fæddist að Þorgeirsstaðarhlíð, Miðdölum, Dalasýslu, 11. júlí 1902. Hún lést 5. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurfljóð Ikaboðsdóttir frá Saurstöðum, f. 1864, d. 1912, og Jón Bergsson frá Hamraendum, f. 22. ágúst 1852, d. 18. maí 1911, bóndi í Þorgeirsstaðarhlíð 1900-1909.

Systkini hennar: Kristín, Jón Bergmann, Flosi, Skarphéðinn, Ólafía og Gestur. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum fyrstu níu árin, og síðan í skjóli eldri systkina sinna. Hún fluttist til Reykjavíkur um 1930 og starfaði þar síðan fram á áttræðisaldur.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Mig langar með fáeinum orðum að minnast Sigurrósar Jónsdóttur, en hún var systir tengdamóður minnar heitinnar, Kristínar, sem lést 1979.

Rósa fæddist skömmu eftir síðustu aldamót, og hefur hennar bernska trúlega borið keim af hugsunarhætti þeirrar nýaldar sem þá var.

Þá var ungmennafélagshreyfingin það afl sem hvetja átti ungt fólk til dáða, fyrir sjálft sig og land sitt undir kjörorðinu "Íslandi allt." Síðar komu héraðsskólarnir til að mennta æsku landsins.

Ég veit að Rósa naut ekki langrar skólagöngu, fyrir utan hefðbundna barnafræðslu, en sat þó hússtjórnarskólann að Staðarfelli í Dölum.

Úr sinni heimabyggð fyrir vestan fluttist Rósa til Reykjavíkur og tók þá sjálf lífsbaráttan við. Vann hún ýmis störf, m.a. var hún í vist, fiskvinnu og í þvottahúsum. Aðal starfsvettvangur hennar var þvottahús Elliheimilisins Grundar og þar vann hún meðan kraftar entust, eða þar til hún var komin fast að áttræðu. Auk þess tók hún að sér ræstingar á kvöldin. Hvert sem leið Rósu lá um borgina, hvort sem það var til eða frá vinnu eða eitthvað annað ferðaðist hún með "strætó" og þykir víst fyrirmyndar ferðamáti nú.

Rósa var mjög sjálfstæð kona bæði í hugsun og allri framgöngu, mjög minnug og lá ekki á skoðunum sínum um menn né málefni.

Eldheitur sósíalisti var hún, og skipti ekki um skoðun meðan hún lifði. Var oft mikið fjör í kringum Rósu ef þessi mál bar á góma í veislum eða við slík tækifæri, og var hún þá föst fyrir og varði sinn málstað af miklum eldmóð.

Rósa var alla tíð svolítil skartkona í sér, hafði gaman af að klæðast vel og punta sig.

Eftir að Rósa lauk störfum hafði hún loks tækifæri til að sinna áhugamálum sínum, sem voru m.a. lestur góðra bóka og hannyrðir sem hún stundaði með eldri borgurum. Margan hlutinn gaf hún síðan ættingjum sínum og vinum.

Rósa var sannarlega mjög stór frænka í sinni fjölskyldu og fylgdist mjög vel með framgangi sinna nánustu, bæði barna og fullorðinna allt til hins síðasta, og bar hag þeirra mjög fyrir brjósti.

Með Rósu er fallin í valinn ein af sóma konum aldamótakynslóðarinnar.

Ég bið Rósu guðsblessunar með þökk fyrir allt.

Sigríður Elíasdóttir.

Okkur langar að minnast frænku okkar með nokkrum orðum. Það sem fyrst kemur upp í hugann er dugleg, ósérhlífin og sjálfstæð kona. Rósa var gjafmild og örlát, og áhugasöm um hagi síns fólks í starfi og leik. Hún var hlý í viðmóti, tók vel á móti gestum sínum og hafði gaman af að ræða við þá. Hugur hennar var skýr og minni gott fram í andlát.

Rósa varð föðurlaus níu ára gömul, og móðurlaus ári seinna, þau voru sjö systkinin. Með Rósu eru þau öll fallin frá.

Eins og með svo marga af aldamótakynslóðinni, sem fer nú óðum fækkandi, var skólaganga misjöfn, og möguleiki til menntunar háður efnahag og öðrum heimilisaðstæðum. Eftir að farskóla lauk nam Rósa við Húsmæðraskólann á Staðarfelli. Fyrir 1930 flutti hún til Reykjavíkur og var í vist hjá góðu fólki. Síðan bjó hún hjá systur sinni, Kristínu, föðurömmu okkar á Njálsgötunni, leigði síðan þar til hún keypti sína fyrstu íbúð á Hjarðarhaga. Hún vann hin ýmsu störf um ævina, var í vist, kaupavinnu, var ráðskona vinnuhóps við girðingavinnu, var í síld á Siglufirði, í fiskvinnu, skúringum og síðast í þvottahúsinu á Grund. Í uppvexti okkar skynjuðum við af samræðum fullorðna fólksins og Rósu að það var til eitthvað sem hét "verkalýður" fólk sem vann erfiðisvinnu og bar lítið úr býtum, og þurfti að heyja harða lífsbaráttu.

Með auknum þroska sáum við að þetta var hlutskipti hennar í lífinu, en ekki minnumst við þess að hún hafi nokkru sinni kvartað yfir sínum kjörum, heldur fyllst eldmóði fyrir hönd félagshyggjufólks um bætt kjör. Það var ekki komið að tómum kofunum hjá Rósu ef stjórnmál bar á góma, enda fylgdist hún vel með þjóðfélagsumræðunni og var sjálf alla tíð mikil félagshyggjukona.

Við bræðurnir ólumst upp við það að á jólum var Rósa hjá okkur á aðfangadagskvöld í Skeiðarvoginum, einnig Kristín amma sem þá bjó í kjallaranum heima, hún dó 1979. Það var alltaf ánægju- og tilhlökkunarefni að fara með pabba að sækja Rósu upp í Austurbrún, þar sem hún bjó. Eiginlega voru ekki komin jól fyrr en hún var komin. Að hafa systurnar saman við jólaborðið og vera vitni að þeim friði og jólagleði sem skein úr andlitum þeirra er í minningunni gott veganesti.

Lækkar lífdaga sól.

Löng er orðin mín ferð.

Fauk í faranda skjól,

fegin hvíldinni verð.

Guð minn, gefðu þinn frið,

gleddu og blessaðu þá,

sem að lögðu mér lið.

Ljósið kveiktu mér hjá.

(Herdís Andrésdóttir)

Rósa er hér kvödd með virðingu og einlægri þökk. Blessuð sé minning hennar.

Jóhannes, Þórarinnog

Elías Sólmundarsynir.

Kær frænka er látin. Sigurrós Jónsdóttir hafði lifað langa ævi. Hún fæddist 1902 og átti 97 ár að baki þegar hún lést. Frá því að ég man fyrst eftir mér hefur hún verið þátttakandi í lífi mínu og minnar fjölskyldu. Sérstaklega var kært á milli systursonar hennar Sigurjóns og bróðurdóttur hennar Sigurfljóðar móður minnar. Síðustu 10-15 árin leið ekki sá dagur án þess að þær a.m.k. töluðu saman.

Sigurrós giftist ekki og átti ekki börn. Hún var þess vegna meira samvistum við systkinabörn sín og þeirra börn og þeim nánari en ella. Það var þó ekki fyrr en síðustu árin sem ég hlustaði á fráagnir hennar um lífið fyrr á öldinni. Aldrei barmaði hún sér né kvartaði yfir hinu liðna heldur lifði hvern dag og hverja tíma eins og þeir voru. Ég vildi gjarnan nú að ég hefði hlustað oftar og lengur.

Foreldra sína missti hún báða áður en hún hafði náð tíu ára aldri og fylgdi síðan eldri systur sinni og bróður í vistir í nokkur ár. Síðan tóku við aðrar vistir í sveitinni þar sem hún fæddist. Nokkru fyrir þrítugt fór Sigurrós til Reykjavíkur og vann ýmis störf. Fyrst í vistum eins og tíðkaðist á þeim tímum. Hún var einnig ráðskona norður í landi þegar reistar voru fjárgirðingar vegna mæðiveikinnar og fór í síld á Siglufirði. Lengst vann hún í þvottahúsi Elliheimilisins Grundar.

Sigurrós var vinnusöm og dugleg. Hún var ákaflega sjálfstæð og hafði skýrar skoðanir. Hún fylgdi Alþýðubandalaginu að málum og talaði tæpitungulaust og af tilfinningahita þegar stjórnmál og þjóðmál voru til umræðu.

Sparsemi og ráðdeildarsemi voru henni í blóð borin og hún gætti þess vandlega að skulda ekki nokkrum manni, en var manna höfðinglegust þegar því var að skipta.

Hún keypti sína fyrstu íbúð um fertugt á Hjarðarhaganum í Reykjavík sem þá var í byggingu og seinna festi hún kaup á íbúð við Austurbrún 2. Þar bjó hún til 1998 að hún fluttist á Droplaugarstaði 96 ára gömul.

Skólagangan var ekki löng bæði vegna lítilla efna og líka var að ekki þótti þörf á því að stúlkur til sveita nytu nema lágmarksmenntunar. Sigurrós fór þó í Húsmæðraskólann að Staðarfelli og gekk vel enda ágætlega greind. Hún hafði ánægju af bóklestri og dálæti á ljóðum og sérstakt dálæti á vísum og stökum, sem hún og orti sjálf við ýmis tækifæri. Hér á árum áður kom til tals að setja saman kver með vísum hennar, en af því varð ekki.

Árum saman vísaði ég til þessarar frænku minnar þegar áhugaleysi mitt á handavinnu kom til tals og sagði að þetta væri í ættinni og við því ekkert að gera. En svo bregðast krosstré sem önnur tré og um áttrætt fór Sigurrós að taka þátt í félagsstarfi eldri borgara í Múlabæ og frá henni streymdu síðan púðar, dúkar, veggteppi o.fl. til ættingjanna. Hún hafði bara ekki haft tíma til þess fyrr.

Allt til síðasta dags hélt hún sínu andlega atgervi og góða minni. Hún kvaddi í friði sátt við guð og menn.

Ég og mín fjölskylda kveðjum Sigrrósu frænku okkar með þakklæti fyrir samfylgdina öll okkar ár og virðingu fyrir því hve samkvæm hún var sjálfri sér í öllu sínu lífi.

Halldóra Guðmundsdóttir.