Guðrún Þorbjörg Svansdóttir fæddist í Reykjavík 3. október 1950. Hún lést á líknardeild Landspítalans 17. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Laugarneskirkju 25. janúar.

Minningar um elsku systur mína streyma fram í hugann. Um kraftmikla systur sem hnuplaði eggi frá hænsnabóndanum, nágranna okkar í Sogamýrinni. Henni fannst rauðan úr egginu góð og þótt hún væri aðeins fimm ára kunni hún að bjarga sér. Hún var grallari í eðli sínu og fór ekki troðnar slóðir. Seinna lærði hún að bera virðingu fyrir eignum annarra og vildi helst ekki skulda neinum neitt.

Dugnaðurinn og sjálfsbjargarviðleitnin voru ávallt fyrir hendi, hvort heldur hún var barnfóstra í Svíþjóð, bóndakona og barnakennari fyrir norðan eða skrifstofumær og síðar skrifstofustjóri hjá Rannsóknarráði ríkisins.

Hún komst fljótt að því að vandamálin eru til að leysa þau og átti auðvelt með að tileinka sér nýjungar. Það vafðist ekki fyrir henni að læra flóknar skipanir setningatölvunnar á skömmum tíma þegar ég þurfti einu sinni á hjálp að halda. Þannig man ég hana, ávallt fremsta í flokki, með góðar einkunnir, ferskar hugmyndir og tilbúna að takast á við ný verkefni og vandamál. Og þegar hún fékk sitt stærsta verkefni fyrir rúmu ári kom ekki annað til greina en það yrði unnið og leyst. "Þetta verður allt í lagi," sagði hún. Hún var ákveðin í að sigrast á sjúkdómnum og gerði sitt besta eins og endranær. Uppgjöf var ekki hennar sterka hlið.

Eins og gömlu hetjurnar stóð hún meðan stætt var. Hún er hetjan mín og ég veit að hún spjarar sig í nýjum heimkynnum.

Ég mun ávallt sakna hennar.

Kristján.

Þær gleymast ekki stundirnar sem ég átti með elsku mágkonu minni á heimili hennar, þar sem ást hennar á strákunum sínum og Múllu og Skottu, kisunum sem hún bjargaði af götunni, leyndi sér ekki. Heimilið bar handbragði hennar gott vitni, um natni og smekkvísi þar sem smáatriðin skiptu máli hvort sem um var að ræða útsaum, málun mynda eða hvað annað sem hún vann í höndunum.

Samt hafði hún góðan tíma til lesturs góðra bóka sem hún fékk jafnvel á Netinu ef þær voru ekki fáanlegar á bókasafninu. Það var gaman að hlusta á hana segja frá því sem hún var að lesa eða heyra sögur af ferðalögum sem fjölskyldan hafði farið í. Allt þetta verður geymt í minningunni um hana, um þrautseigjuna og dugnaðinn sem hún sýndi í veikindum sínum.

Megi hún hvíla í friði, guð geymi hana og styrki hennar nánustu.

Edda.

Ég sagði stelpunum mínum, Sól og Emblu, að Guðrún frænka væri dáin. Fyrst var smáþögn, svo spurði önnur þeirra hvort Guðrún væri þá orðin engill. Ég jánkaði því. "Þá kemur hún til okkar þegar við sofum og passar okkur - af því Guðrún er svo góð!" sagði sú stutta þá alveg sannfærð.

Þær voru miklar vinkonur Guðrúnar, heimsóttu hana reglulega síðustu mánuði og héldu mikið upp á þessa sterku konu.

Ég vildi að ég gæti sagt það við hana beint en nú verður þetta að duga: Takk fyrir allt sem þú varst og allt sem þú gerðir. Takk fyrir allar minningar sem þú skilur eftir.

Þú varst alveg ótrúlega sterk.

Sunna.