[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FYRIR 5 árum hófst undirbúningur þessa máls að frumkvæði Eyjamanna með því að kanna hjá norskum ráðamönnum hvort áhugi væri á því af þeirra hálfu að taka þátt í því að reisa í Vestmannaeyjum litla kirkju í tengslum við 1000 ára kristnitökuafmælið með...

FYRIR 5 árum hófst undirbúningur þessa máls að frumkvæði Eyjamanna með því að kanna hjá norskum ráðamönnum hvort áhugi væri á því af þeirra hálfu að taka þátt í því að reisa í Vestmannaeyjum litla kirkju í tengslum við 1000 ára kristnitökuafmælið með tilliti til frásagnar Kristni sögu. Geir H. Haarde alþingismaður kom til liðs við Eyjamenn og kom á samskiptum við forystumenn norska Stórþingsins og það var Jan P. Syse fyrrum forsætisráðherra Noregs og þáverandi forseti norska þingsins sem tók hugmyndina upp á sína arma. Það kom fljótlega í ljós að Norðmenn vildu vera meira en þátttakendur í kirkjubyggingunni og sumarið 1998 samþykkti norska ríkisstjórnin tillögu norska Stórþingsins um að stafkirkja skyldi verða gjöf norsku þjóðarinnar til

Íslendinga á kristnitökuafmælinu árið 2000. Elisabeth Seip hjá NIKU, Fornminjastofnun Noregs, stjórnar verkefninu fyrir Noregs hönd.

Undirbúningsnefnd Eyjamanna um kirkjubygginguna hafði unnið að því með norskum og íslenskum sérfræðingum að velja fyrirmynd að stafkirkjunni, en af hálfu íslenskra sérfræðinga kom Hjörleifur Stefánsson arkitekt sérstaklega að málinu og Ola Storsletten hjá Fornminjastofnun Noregs. Niðurstaðan varð sú að Holtalen-stafkirkjan yrði fyrirmyndin, kirkja af þeirri stærð sem algeng varvið upphaf kristnitöku á Íslandi. Forsætisráðuneytið, sem hefur með móttöku þjóðargjafar Norðmanna að gera, skipaði síðan sérstaka byggingar- og undirbúningsnefnd vegna stafkirkjunnar og frá því síðastliðið haust hefur verið unnið að umgjörð kirkjunnar í Vestmannaeyjum jafnhliða því sem fyrirtækið Stokk og Stein í Lom í Noregi hefur unnið að smíði kirkjunnar þar og nánast byggt hana upp innan dyra að mestu leyti. Þar verður hún síðan tekin niður fjöl fyrir fjöl og flutt til Eyja í apríl þar sem fullnaðarsmíðin hefst í sama mánuði.

Stafkirkjan sem fer til Eyja er fyrsta endursmíðaða stafkirkjan af þessari gerð og hafa Norðmenn lagt mikinn metnað í að gera hana sem best úr garði. Sérstaklega valið timbur er í kirkjunni, unnið úr yfir 200 ára gömlum trjám, en hver einasta fjöl og hver einasti planki í stafkirkjunni er handunninn. Arkitektastofa í Bergen var fengin til að teikna mannvirkið og útfæra það. Holtalen-stafkirkjan í Þrændalögum er af einfaldri gerð stafkirkna en talið er að flestar stafkirkjur í Noregi um margra alda skeið hafi verið af einfaldri gerð á borð við hana. Timbrið í kirkjuna var sérstaklega valið úr hægvöxnustu og elstu skógum Noregs.

Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason í Vestmannaeyjum

Í Kristni sögu segir að þegar Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti komu til Vestmannaeyja árið 1000 á leið til Þingvalla þar sem kristni var lögtekin, hafi þeir varpað hlutkesti um það hvort kirkjan, sem þeir áttu að byggja að boði Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs á fyrsta staðnum sem þeir kæmu til, skyldi byggð norðan eða sunnan innsiglingarinnar. Hlutkestið réð staðsetningunni norðan innsiglingarinnar á Hörgaeyri þar sem áður voru hörgar og blót eins og segir í Kristni sögu. Hörgaeyri liggur til suðurs frá Heimakletti, en allt bendir til þess að fyrir 1000 árum hafi eyrin náð mun lengra út í innsiglinguna bæði til suðurs og austurs, en nú er þar aðeins lítil strönd undir sandskriðu að Heimakletti og gengur svæðið undir nafninu Langan, eða "undir Löngu". Hörgaeyrin hefur þá væntanlega verið tengd skerjabunka sem gengur til suðurs frá Heimakletti, en á honum er norður-hafnargarðurinn byggður og heitir Hörgaeyrargarður. Tilhöggvinn kirkjuviðurinn í skipum Gissurar og Hjalta var gjöf Noregskonungs. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð nákvæmlega á Hörgaeyri, enda er hún gengin í hafið og sandurinn sigldur til allra átta,en nýju kirkjunni var valinn staður sunnan innsiglingarinnar að þessu sinni á nýju landi sem skapaðist í eldgosinu 1973. Nánar tiltekið mun kirkjan standa fyrir miðjum syðri hafnargarðinum, en hraunið rann að honum öllum og stöðvaðist þar með Guðs hjálp og góðra manna sem dældu á hrauntunguna með öflugum vatnsdælum. Pétur Jónsson landslagsarkitekt hefur hannað umgjörð þjóðargjafarinnar, en kring um kirkjuna verða hlaðnir garðar í gömlum stíl og gangstígar og sjálfur hafnargarðurinn verður lóð kirkjunnar með lýsingu, munstursteypu og sérstakri kirkjubryggju.

Landlyst, Gullborgin og viti

Þá er Vestmannaeyjabær að láta endurbyggja Landlyst, elsta hús Vestmannaeyja og verður það staðsett í nágrenni við stafkirkjuna á Skanssvæðinu sem hafnargarðurinn liggur út frá. Vestmannaeyjahöfn mun jafnframt láta endurbyggja vita á syðri hafnargarðinum og Vestmannaeyjabær, útvegsbændur og fleiri aðilar hafa fest kaup á gamla aflaskipinu Gullborgu, skipi Binna í Gröf, en það er yfir hálfrar aldar gamalt tréskip sem var á leið til hlés. Það verður safnskip við hafnargarðinn, segir sögu Binna, áa hans og útvegsins, sem allt byggist á í okkar landi. Þannig leggjast allir á eitt við að gera umgjörð stafkirkjunnar sem fegursta og þjóðargjöf Norðmanna hefur þannig verið hvatning til margra góðra verka sem saman munu mynda öfluga heild í anddyri stærstu verstöðvar Íslands á öldinni sem er að líða.

Þjóðargjöf til Íslendinga byggð úr 200 ára gömlum viði

Það er mikill áhugi á byggingu stafkirkjunnar í Noregi. Skólabörn í Ósló hafa farið í heimsóknir til Lom um langan veg til þess að skoða kirkjuna, hópar Norðmanna undirbúa komu til Íslands í sumar í tilefni af vígslu kirkjunnar og norska kirkjan hefur tilkynnt að hún muni gefa altarisbrík til kirkjunnar, þ.e. framhlið á altarið, sem er endurgerð altarisbrík af mestu þjóðargersemi Norðmanna í þeim efnum, altaristöflu Ólafs helga. Þetta er fyrsta endurgerð sinnar tegundar, en áætlað er að verkið kosti um 2,5-3 milljónir króna. Norska sjónvarpið lætur gera sérstaka sjónvarpsmynd um endurgerð þessa þjóðardýrgrips Noregs.

Altarisbríkur í norskum kirkjum á miðöldum

Um aldamótin 1300 voru um það bil 1200 kirkjur í Noregi. Í öllum þessum kirkjum voru einhvers konar helgimyndir. Framhluti allra altara var yfirleitt dekkaður með myndvefnaði eða altarisbrík (frontaler). Alls hefur varðveist 31 altarisbrík og eru þær allar frá tímabilinu 1250-1350. Það er mesti fjöldi sem vitað er um af þess konar myndum frá þessu tímabili sögunnar, sk. panelmyndum. Þessar norsku altarisbríkur eru einstakt safn, jafnvel í alþjóðlegu samhengi. Flestar myndanna eru úr kirkjum á vesturströndinni, nokkrar frá austurhluta landsins, fáeinar frá Þrændalögum og aðeins ein frá Norður-Noregi.

Altarisbríkur hafa venjulega aðalmótífið fyrir miðri mynd og frásagnir með minni fígúrum til hliðanna. Þessar frásagnir eru yfirleitt tengdar aðalmyndefninu. Nokkrar altarismyndir eru án miðjumyndar. Oftast nær eru myndirnar á gylltum grunni, en vegna skorts á ekta blaðgulli var myndin lögð silfri en síðan unnin með gylltu lakki eða einfaldlega máluð gyllt. Í kring um myndsvæðin voru málaðir rammar, oft með skreytingum. Einstakar senur, sérstaklega aðalmyndin, voru venjulega skreyttar með gotneskum arkitektúr, sem skapar hásætishimin. Í kring um allt þetta voru rammar með útskornum máluðum eftirlíkingum af eðalsteinum.

Flestar altarismyndirnar eru nokkuð vel varðveittar. Þó hafa fæstar þessara mynda verið endurgerðar eða settar í viðgerð. Þetta þýðir að þær eru einstök menningarsöguleg heimild. Þjóðminjadeild norska háskólans hefur í áratugi verið leiðandi hvað varðar rannsóknir og skráningu þessara mynda, þannig að nú þekkja menn nákvæmlega efnisnotkun og handbragð við gerð þeirra. Þetta verkefni háskólans hefur hlotið alþjóðlega athygli. Á árunum eftir 1950 vakti það athygli þegar staðfest var að flestar altarisbríkurnar væru olíumálverk. Þangað til hafði það verið útbreidd skoðun að fyrstu olíumyndirnar væru málaðar af Hollendingnum Jan van Eyck í byrjun 15. aldar.

Skriflegar heimildir geta þess einnig hvernig málarar á miðöldum unnu verk sín. Í íslensku handritasafni frá 13. öld, kallað "Íslensk alfræði", er því lýst hvernig mála eigi panelmyndir. Því er lýst hvernig panellinn skuli unninn, grunnaður og undirbúinn fyrir málun og gyllingu. Handritið lýsir því ekki hvernig ekta gylling með blaðgulli skuli fara fram, en hins vegar er því lýst hvernig gera má eftirlíkingu af gulli með gylltri lökkun á silfur. Því miður er handritið ólæsilegt þar sem því er lýst hvernig búa á litina til, en samt sem áður má skilja að blanda eigi olíu og eggjahvítu við litarefnin og að blöndunin sé mismunandi eftir litum. Ganga má út frá því að þær aðferðir sem lýst er í "Íslenskri alfræði" séu samskonar og notaðar voru í Noregi.

Altarisbrík Ólafs helga

Fornleifafræðingurinn Ingvald Undset lýsir altarisbríkinni af Ólafi helga í bókinni "Norske Oldsager í fremmede Museer" frá 1878. Á þessum tíma var altarisbríkin í "Museet for Oldsager" (síðar þjóðminjasafnið) í Kaupmannahöfn. Hann leggur til að málverkið verði flutt þaðan yfir í "Museet for det kongelige Kunstkammar", en þangað kom myndin frá Þrándheims-kirkju árið 1691. Sænski listasögufræðingurinn Andreas Lindblom staðhæfir í bók sinni "La peinture gothique en Suede et en Norvege" frá 1916, að líklega komi myndin upphaflega frá Holtalen-stafkirkjunni.

Árið 1930, í tengslum við Ólafs helga hátíðarhöldin, var myndin gefin dómkirkjunni í Niðarósi. Það sýndi sig að hinn veðurfarslegi margbreytileiki hafði slæm áhrif á myndina og málningin fór að losna. Í tengslum við viðgerðir sem framkvæmdar voru á þjóðminjadeild háskólans á árunum 1984 til 1987 var myndin rannsökuð ítarlega. Þessar rannsóknir leiddu til þess að í dag vita menn hvernig myndin var gerð. Eftir rannsóknina var myndin flutt í Vitenskapsmuseet í Þrándheimi, en eftirlíking sem var gerð 1943 stendur í dómkirkjunni í Niðarósi. Hún þykir þó ekki vel gerð, en eftirlíkingin sem nú á að gera handa Íslendingum verður mjög fullkomin, jafnvel fullkomnari en sjálf frummyndin og litirnir verða skínandi og sterkir enda unnir úr bergtegundum og steinefnum sem leitað er eftir á bestu stöðum bæði innan Noregs og utan, víða í Evrópu.

Altarisbríkin af Ólafi helga er 96 x 108 sm að stærð og í miðju hennar er glæsileg framsetning á Ólafi konungi. Hann stendur undir gotneskum arkitektúr sem á að tákna hina himnesku Jerúsalem. Gyllti liturinn sem umvefur hann lýsir því að hann er baðaður guðdómlegu ljósi. Í höndum sér hefur hann kennimerki, annars vegar heldur hann á hinu konunglega tákni og hins vegar á öxi. Til hliðar við myndina af konungi eru svipmyndi úr lífi hans. Fyrst skal lesa neðstu myndina og svo áfram upp. Neðst til vinstri er mynd af konungi þar sem hann gefur stórbónda peninga, en bóndinn á að sjá til þess að lesin verði messa yfir fjendum konungs sem falla munu í orrustunni. Efst til vinstri er mynd sem sýnir draum hans rétt fyrir orrustuna. Hann sér himnastigann upp til Krists, sem lofar honum eilífu lífi. Neðst til hægri er mynd af konungi þar sem hann er vopnlaus veginn í Stiklastaðaorrustunni. Efst til hægri er hann lagður í opna steinkistu. Hann er smurður, ausinn vatni og lýstur dýrlingur af tveimur biskupum. Á milli helgimyndanna eru evangelistatákn. Þau eru tengd Kristsmyndum og vitna um hina sérstæðu stöðu Ólafs helga á síðari hluta miðalda. Miðhlutinn og útlínurnar mynda kross, tákn fyrir ósigur og dauða sem síðar breytist í sigur.

Altarisbrík Ólafs helga er gerð í háþróuðum og alþjóðlegum stíl, greinilega undir áhrifum frá ensk-gotneskum stíl. Vegna stílsins er uppruni myndarinnar talinn vera frá 1320-30. Ekki er vitað hvar myndin var gerð, en talið er líklegt að hún hafi verið unnin á verkstæði í Niðarósi eða Bergen. Áætlað er að nýja altarisbríkin um Ólaf helga verði unnin á 8-9 mánuðum í fullu starfi sérfræðings og listamanns.

Myndin er máluð á þrjú furuborð. Á framhlið þeirra hefur verið settur rammi. Panellinn er þakinn hvítum grunni úr krít og lími. Mótífin voru rist inn í grunninn með oddhvössu áhaldi. Það var gert til þess að línurnar hyrfu ekki við málunina. Litarefnið var blandað með línolíu, sem í einstaka tilfellum, einkum hvað varðar bláa litinn, var bætt eggjahvítu. Litirnir voru byggðir upp skref fyrir skref. Fyrst voru mismunandi grunnlitir málaðir í samfelldan litatón og því næst voru svörtu línurnar dregnar. Að lokum var myndin máluð með dekkri litum hér og þar til þess að gera táknin skýrari. Aðeins húðliturinn var málaður blautur á blautt.

Altaristaflan af Ólafi helga er vel varðveitt, en hún hefur tapað miklum lit vegna öldrunar. Endurgerð með upprunalegum áhöldum, efni og tækni er spennandi verkefni, en hin sýnilega niðurstaða verður mest sláandi vegna þess að hún mun veita innsýn í það hvernig myndin leit upprunalega út. Hún verður með kröftugum, lýsandi litum sem draga óhjákvæmilega að sér athygli í fremur dimmum stafkirkjunum. Þannig var list miðalda, en í huga nútímamannsins tengist hún fyrst og fremst fölva aldanna í þessum sérstæðu listaverkum. Altarisbrík Ólafs helga í Vestmannaeyjum verður snörp spegilmynd og litrík af listsköpun miðaldanna á þessu sviði.