Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, hefur gefið til kynna að Svíar fái ekki framlengda undanþágu sína frá áfengisinnflutningskvótum einstaklinga þegar undanþágan rennur út í lok júní.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, hefur gefið til kynna að Svíar fái ekki framlengda undanþágu sína frá áfengisinnflutningskvótum einstaklinga þegar undanþágan rennur út í lok júní. Sænska stjórnin hefur lýst því yfir að hún muni berjast fyrir því að halda undanþágunni, því annað stríði gegn sænskri áfengisstefnu og viðleitni til að stemma stigu við áfengisneyslu. Tíminn frá aðildinni 1995 hafi ekki dugað til að aðlaga Svía að nýjum háttum. Fáist undanþágan ekki framlengd um önnur fimm ár í viðbót ætlar sænska stjórnin samt að láta sænsk lög á þessu sviði gilda áfram. Það mun því verða látið reyna á málið til hins ýtrasta.

Sem viðleitni til aðlögunar voru ákveðnar ýmsar aðgerðir, sem ekki hafa allar verið framkvæmdar. Það sem framkvæmt hefur verið er meðal annars lækkaður bjórskattur og eins hefur verið sett upp stofnun til að breyta afstöðu fólks til áfengis og fá það til að drekka minna. Þessi stofnun hefur meðal annars staðið fyrir áróðursherferðum, meðal annars gegn drykkjuskap unglinga.

Liður í áfengisstefnu stjórnarinnar átti einnig að vera stefna, sem mótuð var 1995 um að minnka ábyrgð hins opinbera á neyslu með höftum og bönnum yfir í að það væri hlutverk hvers og eins að stjórna neyslu sinni og bera ábyrgð á henni. Hvort þetta hefur tekist er óútkljáð mál, en kannanir sýna að neysla áfengis hefur ekki aukist eftir að Svíar gengu í ESB, þrátt fyrir aukið aðgengi að áfengi.

Ástæðan fyrir því að sænska stjórnin mun láta sænsk lög gilda óbreytt fáist undanþágan ekki er sú að samkvæmt hennar skilningi gilda núverandi reglur þar til samstaða næst um aðrar eða framlengingu núverandi reglna. Framkvæmdastjórn ESB álítur þetta hins vegar óviðunandi túlkun, þar sem almennar reglur ESB taki gildi um leið og tímabundnar undanþágurnar renna út.

Eins og er eru skipulagðar innkaupaferðir Skánverja til Þýskalands mjög vinsælar. Vitað er að á þessum ferðum er keypt langt umfram leyfilegt magn, en það heyrir hins vegar til undantekninga að leitað sé í rútunum, sem farið er með. Ef reglur ESB verða teknar upp má hver ferðamaður taka með sér tíu lítra af sterku áfengi, 90 lítra af víni og 110 lítra af sterkum bjór.