Björn Óli Hauksson sveitarstjóri fól Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra að taka fyrstu skóflustunguna að hóteli á Tálknafirði og afhenti honum viðeigandi skóflu til verksins.
Björn Óli Hauksson sveitarstjóri fól Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra að taka fyrstu skóflustunguna að hóteli á Tálknafirði og afhenti honum viðeigandi skóflu til verksins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STURLA Böðvarsson samgönguráðherra tók, síðdegis á föstudag, fyrstu skóflustunguna að nýju hóteli, sem fyrirhugað er að rísi á Tálknafirði. Það er hlutafélagið Þingból ehf. sem stendur fyrir byggingunni.

STURLA Böðvarsson samgönguráðherra tók, síðdegis á föstudag, fyrstu skóflustunguna að nýju hóteli, sem fyrirhugað er að rísi á Tálknafirði. Það er hlutafélagið Þingból ehf. sem stendur fyrir byggingunni.

Félagið var stofnað fyrir skömmu og er að mestu í eigu heimaaðila. Forsvarsmaður fyrirtækisins er Gunnar Egilsson veitingamaður í Hópinu á Tálknafirði.

Kostar 160 milljónir

Áætlaður byggingakostnaður er 160 milljónir króna og hefur Byggðastofnun veitt lán til framkvæmdarinnar upp á 60 milljónir. Arkitektar byggingarinnar eru Guðrún Stefánsdóttir, Inga Sigurjónsdóttir og Gunnlaugur Björn Jónsson. Gert er ráð fyrir því að fyrsti hluti hótelsins verði tekinn í notkun í byrjun júní. Hótelið verður 1200 fm að grunnfleti á tveimur hæðum, með 40 tveggja manna herbergjum, veitingasölum og aðstöðu til ráðstefnuhalds. Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um nafn á hótelið.

Fjölmargir fylgdust með þegar samgönguráðherra tók fyrstu skóflustunguna. Björn Óli Hauksson, sveitarstjóri flutti stutt ávarp, bauð gestina velkomna og afhenti Sturlu Böðvarssyni skófluna góðu, sem notuð var til verksins. Eftir að ráðherra hafði tekið skóflustunguna fór séra Sveinn Valgeirsson með stutta bæn og blessunarorð. Þá var öllum viðstöddum boðið í kaffisamsæti á veitingastaðnum Hópinu. Þar voru flutt stutt ávörp, þar sem framkvæmdaaðilum, íbúum Tálknafjarðar og Vestfirðingum öllum var óskað til hamingju með þennan áfanga og þeim óskað alls hins besta við uppbygginguna.

Vestfirðir eiga ekki minni möguleika

Samgönguráðherra hafði m.a. orð á því, að fyrirhugað væri mikið kynningarstarf, þar sem hreinleiki íslenskrar matvælaframleiðslu og íslenskrar náttúru yrði haft í öndvegi. Þar myndu leggjast á eitt opinberir aðilar, matvælafyrirtæki, dreifingaraðilar íslenskrar vöru erlendis o.fl. Mörg svæði á landsbyggðinni, þar á meðal Vestfirðir, ættu síst minni möguleika en hefðbundnir ferðamannastaðir í samkeppni um ferðafólk, þegar stórbrotin og óspillt náttúra væri annars vegar.

Einar Kristinn Guðfinnsson flutti kveðjur frá þingmönnum kjördæmisins og óskaði hlutaðeigandi til hamingju með framkvæmdina.