Í SAMTALI við Morgunblaðið í gær segir Jónas Hallgrímsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum: "Ég hef alla tíð verið fylgjandi því, að beitt sé tvenns konar aðferðum við rekstur sjúkrahúsa hér á landi.
Í SAMTALI við Morgunblaðið í gær segir Jónas Hallgrímsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum: "Ég hef alla tíð verið fylgjandi því, að beitt sé tvenns konar aðferðum við rekstur sjúkrahúsa hér á landi. Annars vegar ríkisrekstur í breyttri mynd og hins vegar einkarekstur. Landakotsspítali var dæmi um hið síðarnefnda. Hann var síðar felldur undir hatt Sjúkrahúss Reykjavíkur og er nú rekinn á sama hátt og aðrir ríkisspítalar af föstum fjárlögum. Ég tel að það hafi verið voðalegt slys."

Þetta er áreiðanlega rétt mat hjá Jónasi Hallgrímssyni. Sú ákvörðun Matthíasar Bjarnasonar, þáverandi heilbrigðisráðherra, að greiða fyrir sjálfstæðum rekstri Landakotsspítala á sínum tíma, einkenndist af mikilli framsýni.

Síðan segir Jónas Hallgrímsson: "Með gegnsæju bókhaldi gefst kostur á að reikna út nákvæmt verðmæti einstakra aðgerða í lækningaþætti sjúkrahúsa, t.d. hvað kostar að fjarlægja botnlanga eða hvað kostar að lækna kransæðastíflu. Fyrir hverja aðgerð væri síðan greitt ákveðið gjald, óháð hverjir eigendur sjúkrahússins væru. Þar með myndi heilbrigð samkeppni skjóta rótum í rekstrinum, unnt væri að bera saman rekstur sjúkrahúsanna og fylgja eftir því, sem vel væri gert."

Einar Stefánsson, prófessor og yfirlæknir augndeildar Landspítalans, segir af sama tilefni í samtali við Morgunblaðið í gær um núverandi kerfi við rekstur sjúkrahúsanna: "Megingallinn að mínu viti er sá, að þar með slitnar samhengið milli framleiðslu og tekna sjúkrahúsanna. Sjúkrahús með mikil afköst og marga sjúklinga eyða þá meiru en fastar tekjur þeirra leyfa en þau sjúkrahús, sem loka deildum og gera helzt ekki neitt, koma mjög vel út. Það segir sig sjálft að slíkt kerfi er ekki hvetjandi. Það er beinlínis letjandi ... Þetta er í sjálfu sér sósíalískt rekstrarkerfi, sem hefur algjörlega gengið sér til húðar. Það gengur aldrei upp, að samhengi sé ekkert milli útgjalda og kostnaðar. Ekki í rekstri heilbrigðiskerfisins og raunar ekki í neinum rekstri."

Undir orð þessara tveggja lækna vill Morgunblaðið taka enda eru þau í samræmi við þá stefnu blaðsins mörg undanfarin ár, að hvetja til þess að tekinn verði upp einkarekinn valkostur í heilbrigðiskerfinu. Að vísu má segja, að vísir sé að slíkum valkosti í rekstri læknastofa, sem er orðinn nokkuð umfangsmikill, þar sem ýmsar aðgerðir eru framkvæmdar, sem áður voru eingöngu gerðar á sjúkrahúsunum sjálfum.

Þessi rekstur er hins vegar mjög takmarkaður og getur aldrei orðið til þess að samanburður myndist á milli hans og reksturs stóru sjúkrahúsanna.

Nútímalegir stjórnunar- og rekstrarhættir auðvelda mjög að reka stórt sjúkrahús í einkarekstri á þeim grunni, sem Jónas Hallgrímsson bendir á, þ.e. að greiða ákveðið gjald fyrir ákveðna aðgerð, óháð því hver sé eigandi viðkomandi sjúkrahúss. Nú eru til svo fullkomin tölvukerfi, sem m.a. er byrjað að taka í notkun í íslenzkum fyrirtækjum, að þau kostnaðargreina nákvæmlega hvern einasta þátt í rekstri fyrirtækja og segja til um hver kostnaður sé við hann og þegar um almenn viðskiptafyrirtæki er að ræða, hvort hagnaður eða tap er á viðkomandi rekstrarþætti.

Einu raunverulegu rökin, sem færð hafa verið fram gegn einkarekstri sjúkrahúsa eru af siðferðilegum toga spunnin. Þar takast á sjónarmið um það, hvort fullkominn jöfnuður eigi að ríkja um aðgengi að heilbrigðisþjónustu eða hvort þeir sem það vilja eigi að hafa rétt til þess að greiða fyrir þá þjónustu. Hér er þó einungis um að ræða einn þátt af mörgum í rekstri einkarekins sjúkrahúss vegna þess að eins og Jónas Hallgrímsson setur dæmið upp, mundi einkarekið sjúkrahús fyrst og fremst byggja rekstur sinn á almennri þjónustu en greiðslan fyrir hverja aðgerð kæmi úr almannasjóðum með sama hætti og hjá ríkisreknu sjúkrahúsi. Þetta þýðir m.ö.o. að ríkið kaupir þjónustu fyrir þegnana hjá einkareknu sjúkrahúsi alveg eins og ríkið kaupir þjónustu fyrir ungmenni hjá einkareknum skólum.

Þótt vafalaust sé hægt að færa margvísleg rök fyrir því að sameina stóru sjúkrahúsin tvö og þá ekki sízt til þess að koma í veg fyrir tvöföld hátæknikerfi er það áleitin spurning, hvort ekki eigi jafnframt að opna leið til þess að upp rísi einkarekið sjúkrahús, a.m.k í aðra röndina.