[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AÐ minnsta kosti 37 manns slösuðust og einn lést þegar háskólanemendum laust saman við starfsmenn háskóla Mexíkóborgar (UNAM) á þriðjudag, en nemendurnir hafa verið í verkfalli síðan í apríl í fyrra.

AÐ minnsta kosti 37 manns slösuðust og einn lést þegar háskólanemendum laust saman við starfsmenn háskóla Mexíkóborgar (UNAM) á þriðjudag, en nemendurnir hafa verið í verkfalli síðan í apríl í fyrra. Kalla varð á lögreglu og voru um 250 nemendur handteknir í átökunum.

Grjóti og bensínsprengjum rigndi yfir lögreglu og starfsfólk skólans, en að sögn Diodoro Carrasco, innanríkisráðherra Mexíkó, brutust átökin út í kjölfar þess að starfsmenn háskólans reyndu að ná valdi á háskólabyggingu sem nemendur höfðu hertekið. Lögreglan lét ekki uppi hvort einhverjir nemendanna hefðu særst í átökunum, en sagði að nokkrar bensínsprengjur hefðu verið teknar af þeim.

Þetta er í fyrsta skipti sem lögregla hefur verið kölluð á háskólalóðina frá því námsmennirnir hófu verkfall til að mótmæla fyrirætlaðri hækkun skólagjalda. Í kjölfar verkfallsins drógu háskólayfirvöld hækkunina til baka, en hópur námsmanna hefur engu að síður haldið uppi mótmælum til að krefjast aukinnar stjórnar nemenda í málefnum skólans, en UNAM lýtur sjálfstjórn skv. mexíkóskum lögum

Meirihluti nemenda og starfsmanna háskólans er þó orðinn þreyttur á verkfallinu eftir að hafa misst úr heilt skólaár. Skólayfirvöld hafa hins vegar verið treg til að láta fjarlægja nemendur úr herteknum byggingum með valdi.