Veiðimenn búa sig undir að sleppa stórlaxi. Athuganir síðustu ára benda til þess að "veiða-sleppa" aðferðin geri stofninum gott eitt.
Veiðimenn búa sig undir að sleppa stórlaxi. Athuganir síðustu ára benda til þess að "veiða-sleppa" aðferðin geri stofninum gott eitt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BJARNI Jónsson fiskifræðingur á Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar vinnur þessa dagana að skýrslu um áhrif "veiða-sleppa" á seiðabúskap Vatnsdalsár í Húnaþingi, en þrjú síðustu árin hafa leigutakar árinnar lagt þá kvöð á viðskiptavini sína að...

BJARNI Jónsson fiskifræðingur á Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar vinnur þessa dagana að skýrslu um áhrif "veiða-sleppa" á seiðabúskap Vatnsdalsár í Húnaþingi, en þrjú síðustu árin hafa leigutakar árinnar lagt þá kvöð á viðskiptavini sína að sleppa öllum veiddum laxi aftur í ána. "Það eru töluverðar breytingar, margar athyglisverðar og flestar jákvæðar," sagði Bjarni við Morgunblaðið.

Bjarni sagðist hafa verið meira og minna á ferðinni á bökkum Vatnsdalsár síðustu tuttugu árin og því hafi hann góða viðmiðun er hann metur ástand seiðastofna árinnar. Hann sagði að nú væri "þéttari útbreiðsla laxins og seiða um vatnakerfið og seiði að finna nánast alls staðar þar sem lax kemst, jafnt efst sem neðst og ekki síst í hliðarlækjum sem bjóða upp á búsvæði," eins og Bjarni komst að orði. Sagði hann og augljóst að um meiri hrygningu væri að ræða og áður hafi verið algengt að stopul nýting væri á búsvæðum.

Fyrrum átti nokkurt fylgi kenning þess efnis að ekki mættu of margir laxar hrygna á tilteknum svæðum þar eð of mikill fjöldi seiða væri óæskilegur. Gæti það valdið hruni í seiðabúskapnum. Bjarni er ekki trúaður á slíkt. "Einhverjar bjuggust kannski við því að of mikil hrygning yrði í ánni og búsvæðin bæru það ekki. Það hefur ekki gengið eftir og kenningar um að aðeins fá pör nægðu til að viðhalda heilli laxveiðiá eru alveg út í hróa hött. Dánartala getur hækkað við aukinn fjölda seiða, en það er ekki endilega sjálfgefið að færri seiði komist af. Það á allt eftir að skýrast, en þessar athuganir sýna enn fremur að þegar lélegar heimtur eru úr hafi geta dottið út kaflar í ánni til seiðaframleiðslu. Það er ekki endilega lausnin að efna til seiðasleppinga, heldur geta ýmsar veiðistjórnunaraðferðir verið heppilegri. Hér er komið tilefni til að vinna úr því," bætti Bjarni við.

Breytt fyrirkomulag í Ytri-Rangá

Pétur Pétursson, leigutaki Vatnsdalsár, sagðist fagna þessum tíðindum og þau væru í samræmi við það sem hann hefði alltaf haldið fram. "Þegar ég veit af ánni fullri af seiðum verður mér hugsað til fortíðarinnar, þegar lítið var veitt, þá var áin einnig svona full af seiðum. Vonandi erum við að fara að upplifa aftur mikil og góð ár í laxaframleiðslu í Vatnsdalnum. Ég vona líka innilega að sá tími komi aftur að menn geti tekið eitthvert magn af laxi úr ánni án þess að ganga nærri stofni hennar. En fyrst þarf að byggja hana aftur upp."

Sérðu hér einhver skilaboð til annarra forsvarsmanna laxveiðiáa?

"Um það segi ég einfaldlega, að ef menn eru enn eitthvað hræddir við að innleiða þetta fyrirkomulag þá er það fyrsta skrefið fyrir marga að breyta ánum í hreinar fluguveiðiár. Ég hef ekki mikla trú á lausnum eins og að loka svæðum eins og sumir hafa talað um. Gallinn við svoleiðis er, að laxinn er syndur. Menn geta lokað einhverjum mikilvægum svæðum, en laxinn er á fleygiferð um vatnakerfið, ekki síst síðsumars og á haustin er þeir fara víða og kanna árbotninn og aðrar aðstæður."

Þröstur Elliðason, leigutaki Ytri- Rangár, hefur gert nokkrar skipulagsbreytingar á aðalveiðisvæði sínu fyrir komandi vertíð. Verður veitt á tíu stangir á svæðinu frá Árbæjarfossi og að Hólsárósi í júní og júlí, en í ágúst bætast við tvær stangir og veiðisvæðið færist þá upp að svokölluðum Ármótum sem eru við ós Bjallalækjar. Gildir það til 24. september, en frá þeim degi og til veiðiloka 10. október verður veitt á öllu svæðinu á átta stangir. Þessi breyting þurrkar út gamla svæðið 1V og laxasvæðið 3N, en á hvoru svæði var veitt með fjórum stöngum. Hér er því um fjögurra stanga fækkun að ræða.

Mjög hefur verið fjallað um hrun í veiði í Laxá á Ásum, sem um árabil hefur verið langsamlega besta laxveiðiá landsins. Síðustu sumur og þá sérstaklega það síðasta hafa verið langt frá því sem menn kalla viðunandi, hvað þá góð, í Laxá. Vel að merkja, að veiðin í ánni hefði samt verið talin dágóð í hvaða á annarri sem er. Bjarni Jónsson fiskifræðingur á Hólum, sem fylgst hefur með lífríki árinnar um árabil, sagði í samtali við Morgunblaðið að hann spáði því hiklaust að áin myndi endurheimta toppsætið sem hún missti til Leirvogsár í fyrra. "Laxá hefur áður dottið niður í veiði, meira að segja alveg niður undir það sem hún gaf í fyrra. Hún hefur alltaf komið aftur upp, jafnvel verið með toppveiði árið eftir að botninum hefur verið náð. Ástandið í ánni hefur verið gott og útlitið er mjög gott. Áin er og verður besta laxveiðiá landsins," sagði Bjarni.