Þessi kappklædda kona er Ingibjörg Björgvinsdóttir og siglir þarna inn í höfnina í Vestmannaeyjum. "Ég var í skemmtiferð með kvenfélagi Langholtssóknar en þarna erum við um borð í hraðbát Páls Helgasonar sem sér um skoðunarferðir í kringum eyjuna.
Þessi kappklædda kona er Ingibjörg Björgvinsdóttir og siglir þarna inn í höfnina í Vestmannaeyjum. "Ég var í skemmtiferð með kvenfélagi Langholtssóknar en þarna erum við um borð í hraðbát Páls Helgasonar sem sér um skoðunarferðir í kringum eyjuna." Þrátt fyrir að þetta væri snemma vors lék veðrið aldeilis ekki við kvennahópinn en eins og sjá má á myndinni var þoka, hávaðarok og heldur slæmt í sjóinn. "Já, mér varð nú hugsað til Tyrkjanna sem komu hingað og tóku land í Vestmannaeyjum. Bátarnir hafa nú ekki verið upp á marga fiska í þá daga og þeir komu að landi sunnanvert á eyjunni þar sem oft er mikið brim og lítil sem engin fjara." Ingibjörg á ýmsar minningar frá æskuárunum sem tengjast Vestmannaeyjum en hún ólst upp í Austur-Landeyjum. "Þegar komið var út úr gamla bænum á mínum uppvaxtarárum voru Vestmannaeyjar töfrandi þarna í hafinu og það síðasta sem maður sá í kvöldhúminu á haustin og á veturna var ljósaröndin sem tengdi Helgafell og Heimaklett saman. Það er mikill ævintýraljómi yfir eyjunni þar sem hún rís úr hafi og útsýnið frá Eyjum til lands er ekki síðra. En því var ekki fyrir að fara í þokunni sem umlukti okkur þarna í hafnarmynninu um árið."