SENDIHERRA Kína á Íslandi, Wang Ronghua, flytur fyrirlestur þriðjudaginn 8. febrúar kl. 17 á vegum rektors Háskóla Íslands.

SENDIHERRA Kína á Íslandi, Wang Ronghua, flytur fyrirlestur þriðjudaginn 8. febrúar kl. 17 á vegum rektors Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn verður í stofu 101 í Odda og mun fjalla um þrjá meginstrauma í kínverskri hugsun og jákvæð samfélagsleg áhrif þeirra fram á þennan dag. Fyrirlesturinn er öllum opinn og verður fluttur á ensku.

Wang Ronghua var skipaður sendiherra Kína á Íslandi í mars 1998. Hann hefur starfað í kínversku utanríkisþjónustunni frá árinu 1973, en hefur auk þess fengist við skriftir og þýðingar skáldverka og ævisagna á kínversku.

Í kynningu á efni fyrirlestrarins segir: "Með auknum samskiptum Kína og umheimsins á seinni árum hefur gagnkvæmur ókunnugleiki fólks af ólíkum menningarheimum að vonum gert vart við sig.

Markmiðið með erindinu er að draga úr slíkum ókunnugleika og margvíslegum misskilningi sem hann getur haft í för með sér, með því að gera grein fyrir þremur meginstraumum sem mjög hafa mótað kínverska hugsun öld fram af öld: Samspil manns og æðri máttarvalda, almenningur sem hornsteinn þjóðfélagsins og að skyldugt sé að bera almannahag fyrir brjósti.

Samspil manns og máttarvalda tekur m.a. til heimspekinnar um yin og yang og þess stefnumarks taóismans að starfa án strits. Undir liðnum almenningur sem hornsteinn þjóðfélagsins er lykilhugtaki Konfúsíusar og Mensíusar um góðvild gerð skil, bæði góðvild manna á milli og einnig þeirri góðvild sem yfirvöldum ber að sýna þegnunum. Sú skylda að bera almannahag fyrir brjósti kemur m.a. fram í því að manni beri að rækta sjálfan sig til að létta undir með öðrum, og setja sér skýr markmið í lífinu en sniðganga frægð og óhóf.

Þá er til skila haldið þeirri miklu áherslu sem Kínverjar hafa ætíð lagt á menntun og mannbætandi áhrif hennar. Framangreindir meginstraumar hafa öldum saman haft jákvæðu hlutverki að gegna í samfélagslegu tilliti og eiga sér enn traustan sess í hugsunarhætti Kínverja."