MEÐAL helstu hljómsveita Breta er The Cure sem hefur verið að í á þriðja áratug. Eftir rétta viku kemur út þrettánda hljóðversskífa sveitarinnar, Bloodflowers, en á þeim 24 árum sem sveitin hefur verið að hefur hún selt nærfellt 30 milljón breiðskífur.
MEÐAL helstu hljómsveita Breta er The Cure sem hefur verið að í á þriðja áratug. Eftir rétta viku kemur út þrettánda hljóðversskífa sveitarinnar, Bloodflowers, en á þeim 24 árum sem sveitin hefur verið að hefur hún selt nærfellt 30 milljón breiðskífur. Höfuðpaur Cure er Robert Smith, gítarleikari og söngvari, og hann er andlit sveitarinnar út á við, hvítfarðaður með túberað hárið, augnskugga og varalit. Létt barýtónrödd hans undirstrikar þunglyndislegar stemmningar í textunum og fellur einkar vel að rokkskotnu klifunarkenndu poppi sveitarinnar sem hefur gerst fjölsnærðara með árunum. Það var og Smith sem stofnsetti sveitina á sínum tíma, þá sautján ára gamall nemandi í skóla í Crawley í Sussex.Fyrsta gerð The Cure hét reyndar The Easy Cure og með Smith í sveitinni voru þeir skólafélagar hans Michael Dempsey bassaleikari og Lol Tolhurst trommuleikari. Á fyrstu æfingu tóku þeir félagar að semja eigin lög og taka upp og ekki leið á löngu að þeir voru komnir með álitlegt lagasafn, sem í var meðal annars lagið Killing an Arab, byggt á skáldsögu Camus um Útlendinginn, og byrjaðir að leita fyrir sér um útgáfu.

The Easy Cure sigraði í hljómsveitakeppni á vegum þýsku útgáfunnar Ariola og komst þar með á samning, en ekki leið á löngu að árekstrar urðu með hljómsveit og útgáfu; Ariola taldi sig vera með í höndunum unglingasveit sem gera mætti fræga, en þeir Easy Cure-liðar, með Robert Smith fremstan í flokki, voru á öðru máli og eftir deilur í um ár skildu leiðir að nýju án þess að nokkuð kæmi út með sveitinni á vegum Ariola.

Snemma árs 1978 styttu liðsmenn sveitarinnar nafnið í The Cure og sendu fjögur lög til fjölda útgáfufyrirtækja. Eitt þeirra sýndi áhuga, Polydor, og útsendari þess, Chris Parry, beitti sér fyrir því að fyrsta smáskífa Cure, áðurnefnd Killing an Arab, var gefin út á vegum smáfyrirtækis. Parry hætti síðan hjá Polydor til að stofna eigin fyrirtæki, Fiction, aðallega til að gefa The Cure út og endurútgaf smáskífuna í janúar 1979. Fyrsta breiðskífan, Three Imaginary Boys, fylgdi í kjölfarið og var vel tekið. Til að fylgja skífunni eftir lögðust Cure-félagar í tónleikahald og léku þá meðal annars með sveitum eins og Wire, Joy Division og The Jam, en einna mest með Siouxie and the Banshees. Í þeirri ferð bar það við að gítarleikari Banshees hætti óforvarandis og Robert Smith hljóp í skarðið um tíma, en hann átti eftir að leika mun meira með þeirri sveit síðar. Á tónleikaferðinni lék Smith því fyrst með The Cure og kom svo á svið aftur eftir hlé með Siouxie og sveit hennar.

Síðar það ár sendi Cure frá sér tvær smáskífur til með lögum sem hvorugt var á breiðskífunni Three Imaginary Boys. Annað þeirra, Boys Don't Cry, náði hylli vestan hafs og því var skífan gefin út þar undir nafninu Boys Don't Cry með breyttri lagaskipan.

Valdabarátta kom upp innan sveitarinnar þegar hér var komið og þar tókust þeir á Dempsey, sem vildi flúra bassalínur laganna, og Smith, sem var hallari undir einfaldleikann. Svo fór að Dempsey sagði skilið við félaga sína þá um haustið en í hans stað bættust við Simon Gallup, sem lék á bassa, og Matthieu Hartley á hljómborð. Þannig skipuð hélt sveitin í hljóðver í ársbyrjun 1980. Afraksturinn, breiðskífan Seventeen Seconds, þótti öllu tilraunakenndari en frumraunin, textar myrkari og áferð dekkri, ekki síst fyrir framlag hljómborðsleikarans. Af plötunni varð lagið A Forest fyrsta lag Cure til að komast á vinsældalista, náði 31. sæti.

Fyrsta heimsreisan

Í kjölfar Seventeen Seconds lagði The Cure upp í sína fyrstu heimsreisu, en álagið var of mikið fyrir hljómborðsleikarann nýja, sem sprakk á limminu í Ástralíu og hélt heim. Hljómsveitin hélt áfram án hans og fór sem tríó í hljóðver vorið 1981 að taka upp þriðju breiðskífuna, Faith, aukinheldur sem þeir félagar hljóðrituðu og gáfu út tónlist við kvikmynd sem þeir sýndu í upphafi tónleika sinna, Carnage Visors.

Faith komst inn á topp tuttugu á breska breiðskífulistanum og enn var haldið af stað í tónleikaferð um heim allan, þó greinilega mætti merkja á liðsmönnum og lesa í viðtölum að ástandið innan hljómsveitarinnar væri ekki upp á það besta, allir orðnir langþreyttir og leiðir. Þrátt fyrir það voru engin grið gefin, tónleikaferðinni til að fylgja eftir Faith var varla lokið fyrr en sveitin var aftur komin í hljóðver. Á þeirri breiðskífu sem þá var tekin upp, Pornography, má segja að tómhyggjan og vonleysið hafi verið nær allsráðandi og aldrei meira svartnætti í textum og tónum.

Frammistaða hljómsveitarinnar á tónleikaferðinni vegna Pornography þótti ekki til sóma og svo virtist sem þá Cure-félaga skipti orðið litlu hvað fram færi í þeirra nafni. Í lok ferðarinnar hætti Simon Gallup og þeir því aðeins tveir eftir, Smith og Tolhurst. Ekki er gott að meta hvað það hafði mikil áhrif, en næstu plötur á eftir voru mun léttari og aðgengilegri en vonleysið á Pornography, og með smáskífunum Let's go to Bed, sem hugnaðist reyndar innvígðum Cure-aðdáendum illa, The Walk og The Lovecats má segja að The Cure hafi gengið í endurnýjun lífdaganna. The Lovecats var reyndar fyrsta Cure-lagið sem rataði inn á topp tíu á breska listanum, en The Walk komst í tólfta sæti.

Ný tónlistarstefna The Cure kom flestum í opna skjöldu en varð til þess að auka til muna vinsældir hljómsveitarinnar. Í stað þess að nýta það sóknarfæri gekk Smith til liðs við hljómsveitina Siouxie and the Banshees, sem áður er getið, lék með henni á gítar á tónleikaferðum 1983 og samdi lög á tvær breiðskífur á milli þess sem hann sinnti The Cure í hjáverkum og gaf út tilraunakennda tónlist undir nafninu The Glove.

Næsta útgáfa The Cure var áðurnefndar þrjár smáskífur og b-hliðar þeirra sem gefið var út undir nafninu Japanese Whispers sem gaf Smith færi á að undirbúa breiðskífu með frumsömdu efni. Sú plata, The Top, kom svo út 1984, en þó hún væri gefin út undir nafni The Cure, lék Smith á öll hljóðfæri á plötunni nema trommur, samdi lögin og söng og stýrði upptökum. Þó platan sé þannig í raun sólóskífa hans og hann hafi einn haldið um stjórnvölinn höfðu margir orð á því að hún væri líkari safnplötu ólíkra hljómsveita úr ólíkum áttum og frá ólíkum tímum.

Þegar kom að því að kynna plötuna réð Smith í hljómsveitina þá Andy Anderson trommuleikara, Phil Thornally á bassa og Porl Thompson á gítar. Ekki var annað að merkja en hópurinn næði vel saman á ferðinni, en þó atvikuðust mál svo að áður en tónleikaferðinni lauk hættu þeir Anderson og Thornally. Í þeirra stað komu þeir Boris Williams á trommur og Simon Gallup tók upp bassann aftur. Þannig skipuð tók sveitin til við upptökur á plötunni The Head on the Door snemma árs 1985.

Vinsældir um heim allan

The Head on the Door þótti samfelldasta og besta plata sveitarinnar til þessa og varð meðal annars til þess að gera Cure vinsæla um heim allan. Platan náði 49. sæti á bandaríska Billboard-listanum og til að fylgja þeirri velgengni eftir og vekja enn meiri áhuga á heimstónleikaferð hljómsveitarinnar smöluðu menn saman smáskífum Cure til þessa og b-hliðum og gáfu út á safninu Standing on a Beach sem náði mikilli sölu vetsan hafs. Um líkt leyti var gefið út myndbandasafn The Cure, Staring at the Sea, sem einnig seldist bráðvel.

Bandarísk ungmenni féllu fyrir tónlist The Cure en ekki síður fyrir Smith sjálfum og sérkennilegu útliti hans og þúsundir ungmenna túberuðu á sér hárið, sminkuðu sig í framan og gengu svartklæddar. Svo mikinn áhuga höfðu menn á Smith og atferli hans að það þótti meiriháttar frétt á sjónvarpsstöðinni MTV þegar hann klippti af sér hárið í reiðikasti.

Tvöföld plata var næst á dagskrá, Kiss Me, Kiss Me, Kiss Me, og til að fylgja henni eftir bættu þeir Cure-liðar við sig fimmta manninum, Roger O'Donnell, sem vann sér það til frægðar síðar að leika inn á plötu með Maus.

Eftir tónleikaferð um heiminn og útgáfu ævisögu hljómsveitarinnar var ljóst að Tolhurst væri ekki lengur fær um að leika með henni sökum drykkjuskapar og almenns áhugaleysis. Hann var því rekinn við svo búið, en reyndi síðar að lögsækja félaga sína til að fá viðurkenningu á framlagi sínu til sveitarinnar og meira fé en tapaði málinu.

Af Kiss Me, Kiss Me, Kiss Me komust fjögur lög inn á breska vinsældalistann og eitt inn á lista í Bandaríkjunum, Just like Heaven. Eftir tónleikahald og fjölmiðlastúss til að fylgja skífunni eftir ákvað Smith loks að tími væri kominn til að slaka eilítið á. Fríið stóð þó ekki lengi, því um mitt ár 1998 var tími til kominn að hljóðrita nýja skífu, Disintegration. Sú var gefin út 1989 og er að marga mati heilsteyptasta og besta plata The Cure til þessa. Hún seldist og bráðvel og lög af henni rötuðu inn á lista víða um heim, meðal annars fór lagið Lullaby í fimmta sæti á breska vinsældalistanum og Lovesong í það annað vestan hafs.

Síðasta Cure-platan?

Eftir að Disintegration tónleikaferðinni lauk hætti O'Donnell í sveitinni og í hans stað kom rótarinn Perry Bamonte sem tók meðal annars þátt í gerð plötunnar The Wish. Sú fór beint í fyrsta sætið á breska breiðskífulistanum og í annað sætið á þeim bandaríska, sem telst harla gott. Enn urðu mannaskipti í sveitinni, Porl Thompson gekk til liðs við þá Jimmy Page og Robert Plant 1993 og Bamonte tók við gítarslætti, en O'Donnell kom aftur inn í sveitina til að leika á hljómborð.

Málaferlin vegna Lol Tolhurst gerðu að verkum að lítill tími gafst til tónlistariðkunar 1993 og fram á ár 1994, en þegar málavafstrinu lauk loks með sigri sveitarinnar og átti að taka upp nýja skífu hætti Boris Williams óforvarandis. Hljómsveitin brá á það ráð að auglýsa eftir trommuleikara og fann þannig Jason Cooper og þá loks gat vinna hafist við hljóðritun næstu plötu, tíundu breiðskífunnar. Sú vinna stóð meira og minna allt árið 1995 með hléum til tónleikahalds, en platan, Wild Mood Swings, kom loks út vorið 1996.

Um líkt leyti og Wild Mood Swings kom út hófst tónleikaferð The Cure um heiminn og nú fleiri lönd heimsótt en áður og leikið á stærri stöðum, en alls urðu tónleikarnir 100. Í kjölfarið fór tiltölulega róleg tíð; Smith skemmti sér við að leika í South Park, þar sem hann bjargaði heiminum frá Streisand-vélófreskjunni, og tók þátt í nokkrum hyllingarplötum. Sumarið 1998 lék sveitin á nokkrum tónlistarhátíðum en hélt síðan í hljóðver að taka upp nýja skífu sem kemur út á mánudag og kallast Bloodflowers.

Robert Smith segir sjálfur að Bloodflowers sé besta plata The Cure til þessa, en hann hefur líka sagt að hún sé þriðji þáttur þríleiks sem hafist hafi með Pornography, haldið áfram með Disintegration og ljúki loks með Bloodflowers. Í þríleiknum segir Smith sig hafa glímt við tregablandna fortíðarþrá, þá opinskáa sjálfsskoðun, síðan máttvana reiði og loks örvæntingarfulla uppgjöf. Í Bloodflowers segir Smith að birtist lausn á geð- og tilfinningaflækjunum og gefur leynt og ljóst í skyn að hér sé loks komin síðasta Cure-platan, sem margir hafa átt von á í nokkur ár.