ÚRSKURÐARNEFND skipulags- og byggingarmála hefur hafnað kröfu 16 íbúa og eigenda fasteigna við Austurgötu, Fjarðargötu og Strandgötu í Hafnarfirði um að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar,...

ÚRSKURÐARNEFND skipulags- og byggingarmála hefur hafnað kröfu 16 íbúa og eigenda fasteigna við Austurgötu, Fjarðargötu og Strandgötu í Hafnarfirði um að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar, hvað varðar Fjarðargötu 19, og ákvarðanir byggingarnefndar Hafnarfjarðar og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði um að veita leyfi til að byggja nýbyggingu á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu í Hafnarfirði.

Forsaga málsins er sú að hópur íbúa í miðbæ Hafnarfjarðar lýsti síðastliðið sumar yfir óánægju með byggingu þriggja hæða verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúss á Fjarðargötu 19.

Töldu íbúarnir bygginguna bæði óþarfa og ótímabæra og að halda hefði átt þessum viðkvæma stað í miðbænum opnum og leggja meiri vinnu í að skipuleggja svæðið á þann hátt að full sátt ríkti um nýtingu lóðarinnar. Íbúarnir kærðu ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í ágúst á síðasta ári til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og felldi hún síðan úrskurð sinn 17. janúar síðastliðinn.

Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að sú málsástæða kærenda að grenndarkynningu hafi verið áfátt eigi ekki við í málinu þar sem í kynningu á tillögunni, sem fram hafi farið skv. auglýsingu, hafi m.a. verið sýndir deiliskipulagsuppdrættir svæðisins fyrir og eftir auglýsta breytingu. Jafnframt hafi kynningarfundir með nágrönnum verið haldnir umfram það sem lögskylt er.

Lítur úrskurðarnefndin því svo á að kynning umræddrar breytingar á deiliskipulagi hafi fullnægt ákvæðum skipulagsreglugerðar, auk þess sem fyrir liggi að Skipulagsstofnun hafi yfirfarið tillöguna. "Verða hinar kærðu samþykktir því ekki ógiltar á þeim grundvelli að undirbúningi þeirra hafi verið áfátt að því er kynningu varðar," segir í úrskurðinum.

Voru vanhæfir en viku sæti

Ekki er heldur fallist á þau sjónarmið kærenda að ekki hafi verið fullnægt kröfum um bílastæði fyrir nýbygginguna á Fjarðargötu 19. Segir í úrskurðinum að skv. fyrirliggjandi gögnum sé þegar fyrir hendi nægur fjöldi bílastæða á svæðinu til þess að fullnægja kröfum um fjölda stæða fyrir nýbygginguna miðað við forsendur sem úrskurðarnefndin telur að leggja beri til grundvallar.

Fallist er á það með kærendum að bæði formaður skipulags- og umferðarnefndar Hafnarfjarðarbæjar og einn af föstum fulltrúum í byggingarnefnd hafi verið vanhæfir til setu í nefndunum þegar fjallað var um tillögu að breyttu skipulagi og byggingarmál vegna Fjarðargötu 19, enda hafi þeir átt hagsmuna að gæta í málinu. Hins vegar liggi fyrir að báðir þessir nefndarmenn hafi vikið sæti, hvor í sinni nefnd, þegar fjallað var um málefni tengd Fjarðargötu 19 og því leiði vanhæfi nefndarmanna ekki til ógildingar hinna kærðu ákvarðana í málinu.