[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
DAIMLERCHRYSLER vinnur nú að þróun nýrrar tækni sem kallast á ensku "drive-by-wire" og felur í sér að öll helstu stjórntæki bíls, þ.e. stýri, fótstig og gírskipting er í tveimur stýripinnum sem stýrt er með höndunum.

DAIMLERCHRYSLER vinnur nú að þróun nýrrar tækni sem kallast á ensku "drive-by-wire" og felur í sér að öll helstu stjórntæki bíls, þ.e. stýri, fótstig og gírskipting er í tveimur stýripinnum sem stýrt er með höndunum. Þetta er róttækasta hugmynd að breytingu á bílnum frá upphafi og hefur DaimlerChrysler þegar smíðað bíl með þessum búnaði. Hann verður þó ekki almenningseign á næstunni því bíllinn kostar tæpar 100 milljónir króna og það er ekki enn leyfilegt að aka honum í almennri umferð.

Aukið öryggi og þægindi

Stjórntækin eru öll í stýripinnum líkt og notuð eru í ýmsum tölvuleikjum. Enginn mekanískur búnaður er milli stýrissúlu og hjóla og hemla, aðeins hátæknivætt kerfi af skynjurum, vírum og stjórnrofum.

DaimlerChrysler er í fararbroddi þeirra sem vinna að þróun kerfis af þessu tagi sem sagt er að auki öryggi bílsins og þægindi bílstjórans um leið og hönnun og framleiðsla bíla verður mun einfaldari og ódýrari. Það er þó talið nokkuð víst að það taki langan tíma að venja bílkaupendur, sem vanir eru venjulegum stýrum og fótstigum, við búnað af þessu tagi, jafnvel þótt það takist að sannfæra stjórnvöld út um allan heim um ágæti búnaðarins og fjárhagshindranir verði yfirstignar.

Stýrt með nákvæmustu verkfærum mannslíkamans

Hópur verkfræðinga hjá DaimlerChrysler hefur undanfarin fjögur ár unnið að því að breyta Mercedes-Benz SL 500 árgerð 1996 í "stýripinnabíl". Í reynd hafa verkfræðingar samtvinnað nútíma flugvélatækni og ofurtölvur og gamalreynda tækni eins og hjólabúnað, vélar, stýrisbúnað og hemlabúnað sem fylgt hefur bílaiðnaðinum í 100 ár. Það að bíllinn hefur hvorki stýri né fótstig fyrir hemla og inngjöf felur í sér að búið er að fjarlægja þau stjórntæki úr bílnum sem flestum slysum valda. Verkfræðingar DaimlerChrysler segja að bílnum sé stýrt að öllu leyti með höndunum sem eru nákvæmustu verkfæri mannslíkamans. Með þeim er hægt að beita miklu afli á mjög skömmum tíma. Með stýripinnunum tveimur stýrir ökumaður inngjöf, hemlun og stýringu bílsins sem er búinn 326 hestafla, fimm lítra V8 vél.

Langt á undan reglugerðum

DaimlerChrysler segir að margt geti áunnist með þessari tækni. Stærsti ávinningurinn sé aukið öryggi. Með því að auka rými í stjórnrými bílsins sé auðveldara að koma fyrir ýmsum búnaði sem ætlaður er til að verja ökumanninn fyrir hnjaski, verði árekstur. Þar sem maðurinn ráði yfir hraðari og nákvæmari hreyfingum í höndum en í fótum eigi hann auðveldara með að forðast slys með því að hafa stjórntækin öll í höndunum. Verkfræðingar DaimlerChrysler segja að rafeindavæddan hemla- og stýrisbúnað bílsins megi einnig tengja við hátæknivætt kerfi skynjara sem geti aðstoðað ökumenn við að forðast fyrirstöður og árekstra, og í raun skapað bíl sem sjálfur tekur ákvarðanir við hættulegar aðstæður. Vandi DaimlerChrysler er einungis sá að tilraunirnar með bílinn eru svo langt á undan reglugerðum um gerð og búnað bíla, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það eru einfaldlega ekki til neinar reglugerðir um bíla með slíkri tækni.

Fram fyrir hröðun - aftur fyrir hemlun

Stýripinnarnir eru nákvæmlega eins og stjórntæki í flugvél og það eru þeir reyndar því það er Fokker Control Systems, deild innan Fokker Aerospace, sem framleiðir þá. Innbyggðir í stýripinnana eru rofar fyrir stefnuljósin sem ökumaður þrýstir á með þumalfingri og fyrir flautu sem hann þrýstir á með öðrum eða báðum vísifingrum. Ökumaður hefur mikið fótarými því engin fótstig eru í bílnum. Á mælaborðinu beint fyrir framan ökumanninn er lyklaborð með fjórum bókstöfum - D fyrir áfram, R fyrir afturábak, N fyrir hlutlausan gír, og P fyrir kyrrstöðu.

Með báðar hendur á stýripinnunum þrýstir ökumaður honum fram á við og bíllinn fer af stað. Dragi ökumaður stýripinnann að sér hemlar bíllinn. Stýripinninn hreyfist þó ekki sjálfur heldur nemur hann þrýstinginn frá höndum ökumannsins og gefur skipanir til tölvubúnaðar bílsins. Stýripinnarnir hreyfast hins vegar til hliðanna þegar ökumaður beygir bílnum.

Rafeindastýrðir bílar DaimlerChrysler eru í raun einungis framtíðarsýn. Bílaframleiðendur eru langan veg frá því að hefja framleiðslu á rafeindastýrðum bílum en SL 500 tilraunabíllinn, sem nú er til prófunar á flugvelli í Malmsheim í Þýskalandi, þykir benda til þess að framtíðin feli í sér tækni af þessu tagi.