½ Leikstjóri: Lone Scherfig. Handrit: Jörgen Kastrup, eftir skáldsögu Mörthu Christensen. Kvikmyndataka: Dirk Brüel. Tónlist: Kasper Winding. Aðalhlutverk: Kasper Emanuel Stæger, Clara Johanne Simonsen, Pernille Kaae Höjer, Charlotte Fich, Peter Gantzler, Max Hansen. (73 mín.) Danmörk, 1998. Háskólabíó. Öllum leyfð.

DANIR hafa verið hvað snjallastir allra í að gera vandaðar og sannar barna- og fjölskyldumyndir. Virðingin fyrir hinum ungu áhorfendum augljós og vitsmunum þeirra sjaldnast misboðið. Þar að auki hefur Dönum á einhvern hátt tekist að fá börn til leika af sannfæringu og einlægni sem vitanlega er mikilvægt slíkum myndum.

Ein heima er gerð eftir frægri skáldsögu og segir sögu ungra systkina sem eiga um sárt að binda. Ógæfusöm einstæð móðir þeirra er sett bak við lás og slá fyrir búðarhnupl og felur syninum Kasper að sjá um litlu systur sínar, þeim til mikillar ánægju, enda ein heima. Til þess að börnin verði hins vegar ekki vistuð á stofnun lýgur hin litla fjölskylda að barnaverndaryfirvöldum að faðir Kaspers búi með þeim, sé bara aldrei heima þegar fulltrúi yfirvalda vitjar hans. Hefur það í för með sér hin mestu ærsl og feluleiki. En það er ekki eini vandinn sem Kasper stendur frammi fyrir því hann þarf líka að fæða systur sínar og sjá til þess að þær lifi eðlilegu lífi, sem getur verið erfitt hlutkesti fyrir ungan dreng. En hann er seigur og hefur ráð undir rifi hverju.

Hér er á ferðinni ágætis fjölskyldumynd. Einlæg og vel leikin. Án þess að hafa lesið bókina læðist þó að undirrituðum sá grunur að boðskapurinn komist þar betur til skila og samúð með börnunum verði öllu meiri.

Skarphéðinn Guðmundsson