Tvær konur virða fyrir sér Westminster úr Lúndúnarauganu, Parísarhjóli sem reist var í London í tilefni árþúsundamóta. Síðar á árinu munu íbúar borgarinnar kjósa sér borgarstjóra í fyrsta skipti í mörg ár.
Tvær konur virða fyrir sér Westminster úr Lúndúnarauganu, Parísarhjóli sem reist var í London í tilefni árþúsundamóta. Síðar á árinu munu íbúar borgarinnar kjósa sér borgarstjóra í fyrsta skipti í mörg ár.
TONY Blair segir, að það sé mikið í húfi fyrir Lundúnabúa og Verkamannaflokkinn, að Frank Dobson, fyrrum heilbrigðisráðherra, verði borgarstjóri. Dobson er traustur maður, segir forsætisráðherrann. Hann kemur hlutum í verk og spilar fyrir liðsheildina.

TONY Blair segir, að það sé mikið í húfi fyrir Lundúnabúa og Verkamannaflokkinn, að Frank Dobson, fyrrum heilbrigðisráðherra, verði borgarstjóri. Dobson er traustur maður, segir forsætisráðherrann. Hann kemur hlutum í verk og spilar fyrir liðsheildina. Ken Livingstone aftur á móti er einleikari, sem myndi aðeins valda glundroða og það er auðsætt í andliti forsætisráðherrans, þegar hann segir þetta, að umhugsunin um Ken Livingstone borgarstjóra London er honum beinlínis martröð. Livingstone hefur verið borgarstjóri skoðanakannanna allar götur síðan Verkamannaflokkurinn ákvað að endurreisa borgarstjóraembættið, sem Margaret Thatcher lagði af á sínum tíma. En þótt hann sé maður fólksins er hann ekki maður flokksforystunnar. Hann þykir vinstrisinnaður og sjálfstæður og hefur ekki hikað við að tala gegn ríkisstjórninni, þegar honum býður svo við að horfa. Meðan Livingstone baðaði sig í fylgi fólksins gældi flokksforystan við ýmsa möguleika til þess að útiloka hann frá því að keppa eftir útnefningu flokksins. En þegar enginn af þeim gekk upp, lá það alltaf í loftinu, að forysta Verkamannaflokksins myndi finna sér mann til að senda gegn honum; spurningin var aðeins, hver það yrði. En "rauði" Ken var ekki árennilegur. Glenda Jackson, sem fór með samgöngur í London í ríkisstjórninni, féllst loks á að fara fram og voru bundnar vonir við að frægð hennar sem kvikmyndaleikkonu og frami í stjórnmálum myndu sópa fylginu undan Livingstone. En raunin varð önnur og það var strax ljóst, að hún var ekki sá bógur sem forystan hafði vonað. Hitt er svo aftur, að eftir að flokksforystan gaf hana upp á bátinn, neitaði Glenda Jackson með öllu að draga sig í hlé, heldur hélt sínu striki ótrauð og hefur verið gagnrýnin á afskipti flokksforystunnar af kosningabaráttunni. Og þótt hún eigi ekki möguleika á sigri kunna atkvæði hennar samt sem áður að ráða úrslitum um það, hvor þeirra Dobson eða Livingstone verður ofan á.

Þótt Dobson þætti stuðningur flokksforystunnar gott veganesti út í kosningabaráttuna, var honum ekki farið að standa á sama undir það síðasta, þegar Gordon Brown og Tony Blair fóru mikinn gegn Ken Livingstone í ræðu og riti. Sjálfur yppti Livingstone bara öxlum og sagðist ekki skilja þennan hamagang í ráðherrunum; hann væri hvorki að sækjast eftir embætti fjármálaráðherra né forsætisráðherra! Nú segir Dobson að sókn sín sé fyrst og fremst hans eigin, en afskipti flokksforystunnar séu honum frekar fjötur um fót en hitt. Það hafi verið óráð að kjósa ekki "einn maður - eitt atkvæði" og hann muni aldrei trúa öðru, en að í slíkum kosningum hefði hann borið sigur úr býtum.

Atvinnutilboðin ganga á víxl

En það var einmitt óttinn við sigur Livingstone, sem hindraði það að kosningarnar yrðu einföld atkvæðagreiðsla. Þess í stað eru þær þrískiptar; þriðjungsvægi hafa atkvæði flokksfélaga, sömuleiðis atkvæði um 60 þingmanna Lundúnasvæðisins og síðasti þriðjungurinn eru atkvæði almennra flokksmanna. Dobson er talinn stórsigur vís meðal þingmannanna, sem muni duga honum til að vera enn ofan á þegar atkvæði flokksfélaganna hafa bætzt við, enda þótt Livingstone sé reiknaður ríflegur meirihluti þeirra. Síðustu skoðanakannanir benda til þess að Livingstone fái svo þau 66% atkvæði flokksmanna, sem hann þarf til þess að sigra Dobson strax. Ef hvorugur þeirra nær hreinum meirihluta í fyrstu umferð, dettur Glenda Jackson út, en þau atkvæði, sem kjósendur hennar greiða öðrum ( kjósendur verða að kjósa tvo frambjóðendur í fyrsta og annað sæti ), koma þeim þá til góða.

Livingstone hefur í bréfi til kjósenda sagt, að hann muni bjóða Glendu Jackson að gerast aðstoðarmaður sinn, stjórnandi lögreglumála og sérlegur sendiherra höfuðborgarinnar. Þetta á greinilega að tryggja honum sem flest atkvæði hennar stuðningsmanna, en sjálf hefur hún ekki látið neitt uppi um það, hvort hún vilji sjá Dobson eða Livingstone á borgarstjórastóli. Væntanlega mun hún þó taka af skarið og beina tilmælum til kjósenda sinna um það, hvern þeir setja í annað sæti. Reyndar varð Dobson fyrri til að bjóða Glendu Jackson starf hjá Lundúnaborg, ef hann næði kjöri, en hann gat ekki boðið eins vel og Livingstone. Það stafar af því, að hann er reyndar í framboðinu við annan mann, því strax í byrjun bauð hann Trevor Philipps, blökkumanni sem hugði á framboð, að gerast félagi sinn og það liggur því í loftinu, að Philipps verði aðstoðarmaður Dobsons, verði hann borgarstjóri. Og það vantar ekki að menn séu örlátir hver í annars garð. Dobson hefur ekki viljað útiloka, að hann hefði eitthvert starf handa Livingstone, ef út í það færi, og Livingstone hefur bætt um betur og sagt, að Dobson væri velkomið að mynda eins konar þríeyki með sér og Glendu Jackson. Hans sérsvið yrði að halda utan um baráttuna gegn fátækt í London. Og ekki gleymir hann Philipps heldur. Honum stendur til boða að gerast aðstoðarmaður yfirmanns lögreglumálanna, þ.e. Glendu Jackson!

Skattamálin efst á baugi

En snúast þá þessar kosningar bara um menn, en engin málefni? Að stórum hluta til má svara þeirri spurningu játandi. Lundúnabúar eru greinilega ekki á þeim buxunum að kjósa konu sem borgarstjóra og það sem hefur einkennt þessa kosningabaráttu er fyrst og fremst samanburðurinn milli framkvæmdamannsins og flokkshestsins annars vegar og sérhagsmunaseggsins og ólíkindatólsins hins vegar.

En málefni hafa svo sem skotið upp kollinum. Þar ber hæst skattamálin. Livingstone vill skattleggja fyrirtæki í London og þá, sem hafa hæstu tekjurnar (hann hefur nefnt möguleikann á því að skattleggja bíla í miðborg London og spyr hvort það sé ekki eins hægt og að menn greiði meira fyrir mat og skemmtun í miðborginni en utan hennar). Dobson hefur ráðist harkalega á skattastefnu Livingstone, sem hann segir muni fæla bæði fyrirtæki og fólk frá borginni meðan þörfin sé að fjölga atvinnutækifærunum og renna þannig styrkari stoðum undir mannlífið í London.

En nú eru málin sem sé í höndum kjósenda. Kjörseðlarnir verða að hafa borizt kjörnefnd aftur 15. febrúar og fljótlega eftir það verður opinbert, hvort kjósendur Verkamannaflokksins vilja frekar kjósa öryggið, sem Tony Blair talar um, eða kaupa köttinn í sekknum.