Morphine-menn með Sandman sáluga í broddi fylkingar.
Morphine-menn með Sandman sáluga í broddi fylkingar.
HELDUR fór illa fyrir Mark Sandman, leiðtoga bandaríska tríósins Morphine, því hann hné niður örendur á tónleikum í Ítalíu á síðasta ári hálffimmtugur. Skömmu fyrir andlát Sandmans höfðu þeir Morphine-félagar lagt síðustu hönd á breiðskifu sem kemur út á morgun.

Morphine vakti athygli fyrir margt löngu með sérkennilega samsetta seiðandi tónlist, en aðalhljóðfærið var tveggja strengja bassi Sandmans sem hann lék á með rörbút sér til halds og trausts. Annar meginöxull tónlistarinnar var saxófónleikur Dana Colley, en Billy Conway sá um naumhyggjutrommur.

Sveitin náði nokkurri hylli með annarri breiðskífu sini, Cure for Pain, þar á meðal hér á landi. Síðan hafa komið þrjár plötur og sú sem kemur út á morgun sú fjórða. Varla kemur á óvart í ljósi hljóðfæraskipanar að Morphine þótti skera sig úr öðrum rokksveitum, en á nýju plötunni er talsvert um gestagang og platan þykir því fjölbreyttari en fyrri skífur. Þannig má nefna að hnéfiðla, fiðla og kontrabassi koma við sögu, einnig úd og orgel. Sandman sá jafnan um sönginn, en á plötunni nýju hefja fjölmargir upp raust sína.

Eins og áður er getið var Mark Sandman leiðtogi Morphine, hugmynda- og lagasmiður, og ekki líklegt að meira eigi eftir að heyrast til sveitarinnar. Þeir félagar hans sem eftir sitja hyggjast þó fylgja skífunni eftir sem mest þeir mega og smöluðu úr vinahóp Sandmans liði í hljómsveit sem verður á þönum næstu mánuði að kynna plötuna. Komust víst færri að en vildu.