MJÖG fá rannsóknateymi íslenskra vísindamanna hafa náð þeirri stærð og styrk að niðurstöður þeirra nái alþjóðamáli. Þetta er mat Þórðar Harðarsonar, prófessors og sérfræðings í lyflæknisfræði.

MJÖG fá rannsóknateymi íslenskra vísindamanna hafa náð þeirri stærð og styrk að niðurstöður þeirra nái alþjóðamáli. Þetta er mat Þórðar Harðarsonar, prófessors og sérfræðings í lyflæknisfræði. Hann segir að undantekingar séu til frá þessu en prófessorar og dósentar í læknadeild Háskóla Íslands virðast á einu máli um að grunnrannsóknum sé of lítill gaumur gefinn hér á landi og úrbóta sé þörf í þeim efnum.

Þórður segir að styrkveitingar hins opinbera hafi dregist saman með hverju ári. Aðgangur að erlendu styrkjafé sé takmarkaður, þótt nokkuð hafi áunnist í Evrópusambandinu. Brýna nauðsyn beri til að efla grunnrannsóknir í læknisfræði og líffræði með stuðningsaðgerðum og styrkjum frá einkaaðilum og hinu opinbera.

Sumir standa sig og aðrir ekki

Jónas Hallgrímsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum, bendir á að hér á landi fari meirihluti allra rannsókna fram innan veggja sjúkrahúsanna. "Þar gildir að sumir standa sig vel og aðrir ekki. Við vitum ekki af hverju sá munur stafar, einfaldlega vegna þess að rekstrartölur sjúkrahúsanna eru ekki nægilega gegnsæjar. Það þyrfti að brjóta niður slíkar heildartölur og sjá hvað fer annars vegar til kennslu og rannsókna og hins vegar til lækninga og hjúkrunar. Þá sést hið raunverulega hlutfall og hægt er að greina orsakir þess að sumum gengur ekki sem skyldi; hvort viðkomandi þurfi hjálp, fjármagn, betra starfsfólk eða hvort hann sé hreinlega ekki starfi sínu vaxinn."

Sameiginleg vísindastofnun

Reynir T. Geirsson, prófessor og yfirlæknir kvennadeildar Landspítalans, segir að stórt skref til úrbóta væri formleg stofnun háskólasjúkrahúss. Þar yrði sameinuð starfsemi háskóla og spítala og lagður saman skerfur beggja til rannsókna. "Þannig mætti efla þær og skapa á hverju fræðasviði góða aðstöðu til grunnrannsókna og klínískra rannsókna," segir Reynir og bendir á að þetta gæti gerst með eins konar sameiginlegri vísindastofnun á hinu nýja sameinaða sjúkrahúsi þar sem spítalinn, læknadeildin og hjúkrunarnámsbrautin rækju saman rannsóknaraðstöðu og fjármögnun rannsókna. Heilbrigðisráðuneytið viðurkenndi mikilvægi þess að efla rannsóknir og kennslu til að tryggja framsækið og leitandi viðhorf innan spítalanna og tryggði sér um leið mestu gæði í þjónustu. Sá skerfur sem spítalinn legði til, húsnæði, kostnaður við rannsóknarþjónustu, ritarastörf og fleira yrði færður til stofnunarinnar og háskóladeildirnar legðu mikið til einstakra fræðigreina í sömu stofnun.

Stjórnað af háskóla og spítala í sameiningu

Menntamálaráðuneytið kæmi á þann hátt á móti framlagi heilbrigðisráðuneytisins. Þessari vísindastofnun yrði stjórnað af háskóla og spítala í sameiningu, enda myndi spítalinn ávallt tryggja fé til stofnunarinnar á móti háskólanum.

"Þetta myndi einnig þýða að háskólinn tæki beinan þátt í stjórnun spítalans, allt inn í æðstu stjórn. Forstöðumannakerfi einstakra fræðasviða á spítalanum þarf að tengja akademískum stöðum í háskólanum og tryggja að forstöðumennirnir, bæði karlar og konur, hafi mikil áhrif á það hvernig spítalinn er rekinn í því skyni að sjá til þess að starf spítalans snúist líka um rannsóknir og kennslu, þjónustuhlutverkinu til hagsbóta."