NAFNBIRTING vegna viðskipta innherja mun hefjast í kjölfar þess að farið verður að eignarskrá hlutabréf rafrænt hjá Verðbréfaskráningu sem verður á næstunni, að sögn Stefáns Halldórssonar.

NAFNBIRTING vegna viðskipta innherja mun hefjast í kjölfar þess að farið verður að eignarskrá hlutabréf rafrænt hjá Verðbréfaskráningu sem verður á næstunni, að sögn Stefáns Halldórssonar.

Hann segir að á Verðbréfaþingi sé nú unnið að endurskoðun reglna um nafnbirtinguna. Fram til þessa hafi birting nafna verið erfiðleikum bundin. Tilkynningar um innherjaviðskipti hafi borist of seint frá félögunum, þar sem upplýsingar um eigendaskipti að hlutabréfum séu lengi að berast hlutaskrám. Hafi af þeim sökum verið ákveðið að bíða með nafnbirtingu, en nú horfi til breytinga í kjölfar þess að rafræna skráningarstarfsemin hefst.

FBA hefur hvatt innherja til að fara varlega í viðskiptum rétt fyrir birtingu ársuppgjöra. Sagði í morgunkorni bankans að eðlilegt væri að setja frekari reglur um hvenær innherjar mættu eiga viðskipti í viðkomandi félagi.

Stefán segir Verðbréfaþing vera mjög hlynnt því að settar verði strangari reglur um innherjaviðskipti. Með því móti megi fækka álitamálum um viðskipti innherja, en þau hafi verið ófá á síðustu misserum.

"Við teljum eðlilegra að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort setja eigi afdráttarlaust bann við innherjaviðskiptum á tilteknum tímum. Grunnákvæðin um innherjaviðskipti er að finna í verðbréfaviðskiptalögum og því er eðlilegt að þessi ákvæði, ef sett verða, hafi stoð í lögunum. Ef stjórnvöld hafa vilja til þessara breytinga stendur hins vegar ekki á Verðbréfaþingi að beita reglunum," segir Stefán.