KÍNVERSKA lögreglan var í gær sögð hafa handtekið hundruð félaga í andlegu hreyfingunni Falun Gong, sem hefur verið bönnuð í Kína, þegar þeir söfnuðust saman á Torgi hins himneska friðar í Peking til að mótmæla banninu með friðsamlegum hætti.

KÍNVERSKA lögreglan var í gær sögð hafa handtekið hundruð félaga í andlegu hreyfingunni Falun Gong, sem hefur verið bönnuð í Kína, þegar þeir söfnuðust saman á Torgi hins himneska friðar í Peking til að mótmæla banninu með friðsamlegum hætti.

Fjölmennt lið lögreglumanna var á torginu vegna mótmælanna. Lögreglumenn gengu í skrokk á öllum þeim sem hófu hugleiðsluæfingar, sem félagar í Falun Gong iðka. Þeir hrópuðu á ferðamenn, sögðu þeim að skipta sér ekki af barsmíðunum og kröfðust þess að þeir afhentu filmur með myndum af handtökunum. Ljósmyndurum erlendra fjölmiðla var hótað handtöku ef þeir færu ekki af torginu.

Mótmælin hófust skömmu fyrir miðnætti í fyrrakvöld þegar Kínverjar fögnuðu því að nýtt ár væri gengið í garð samkvæmt kínverska tímatalinu.

Embættismaður í Xaio Tangshan-fangelsinu í norðurhluta Peking staðfesti að félagar í Falun Gong væru þar í haldi en vildi ekki greina frá því hversu margir þeir væru.

Frank Lu, leiðtogi mannréttindahreyfingar sem er með höfuðstöðvar í Hong Kong, kvaðst hafa fengið upplýsingar um að a.m.k. 300 félagar í Falun Gong hefðu verið handteknir, þeirra á meðal nokkrir Vesturlandabúar.

Langfjölmennustu mótmælin frá því í október

Þetta eru langfjölmennustu mótmæli félaga í Falun Gong frá því um miðjan október þegar þúsundir manna voru handteknar fyrir að mótmæla nýjum lögum um hert eftirlit með hreyfingunni.

Hannah Li, sem tók þátt í mótmælum Falun Gong, sagði að tugir félaga hreyfingarinnar frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Hong Kong hefðu komið til Peking í því skyni að mótmæla banninu við hreyfingunni. Að minnsta kosti einn bandarískur ríkisborgari, Auo Yan, hefði verið handtekinn á flugvellinum í Peking og talið væri að honum hefði verið vísað úr landi.

Kínversk yfirvöld hafa viðurkennt að 35.000 félagar í Falun Gong hafi verið handteknir frá því í júlí og þar til í nóvember þegar hreyfingin var bönnuð. Tugir forystumanna hreyfingarinnar hafa verið dæmdir í allt að 18 ára fangelsi.

Leiðtogar kínverska kommúnistaflokksins hafa sagt að honum stafi meiri hætta af Falun Gong en nokkurri annarri hreyfingu í Kína frá mótmælum lýðræðissinna í Peking árið 1989.