TIL SKAMMS tíma vóru íslenzk byggðarlög fámennir, strjálbýlir sveitahreppar. Þeir breyttust lítt frá einni öld til annarrar. Það var ekki fyrr en á morgni 20.

TIL SKAMMS tíma vóru íslenzk byggðarlög fámennir, strjálbýlir sveitahreppar. Þeir breyttust lítt frá einni öld til annarrar. Það var ekki fyrr en á morgni 20. aldarinnar, með vélvæðingu fiskiskipaflotans, að þéttbýli tók að myndast við sjávarsíðuna, þar sem hafnarskilyrði vóru góð og fengsæl fiskimið undan landi. Þéttbýli með verzlun og iðnaði, er þjónaði nálægum sveitum, fylgdi í kjölfarið (Blönduós, Egilsstaðir, Hella, Selfoss, Vík o.fl.). Eitt eiga öll þessi sveitarfélög sameiginlegt, stór og smá, kauptún sem sveitir, að ógleymdum byggðahverfum höfuðborgarsvæðisins: heilaga kirkju í hjarta byggðar. Sums staðar er kirkjan orðin eins konar byggðartákn. Dæmi: Matthíasarkirkja á Akureyri og Kópavogskirkja. Hallgrímskirkja í Reykjavík er og eitt af helztu táknum höfuðborgarinnar.

En hvað er kirkja? Og hvað er að vera "heilagur að köllun til", en þau orð notar Páll postuli um söfnuðinn í Korintu. Bréf Páls postula til safnaðarins í Korintu vísa okkur máski veg í leitinni að svörum við þessum spurningum.

Einar prófessor Sigurbjörnsson segir í bók sinni, Embættisgjörð - guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð: "Í Korintusöfnuði var mikið um flokkadrætti, menn deildu um trúaratriði, afstöðu til dauðans, siðferði sumra virtist á lágu stigi og menn mátust um, hvers konar trúarreynsla væri háleitust..." Þessi lýsing kemur nútímafólki ekki ókunnunglega fyrir sjónir. Þrátt fyrir ótrúlegar breytingar í mannheimi á tveimur árþúsundum hefur maðurinn sjálfur, eðli hans og þrár, ekki breytzt að ráði.

Og þrátt fyrir breyskleika fólksins í Korintusöfnuði nefndi Páll postuli það "heilagt". "Ástæðan er sú," segir prófessor Einar í bók sinni, "að hugtakið heilagur merkir í Biblíunni ekki það sem er lýtalaust í siðferðilegri merkingu. Heilagt í Biblíunni er það sem Guð hefur helgað sér. Söfnuðir Guðs eða kristnir menn eru heilagir, af því að Guð hefur helgað þá sér." Kristur er höfuð kirkjunnar. Hann er ljós heimsins og mannkynsins. Hann er heilagur. "Hann kallar kirkju sína," segir Einar prófessor Sigurbjörnsson, "til þess að vera heilög og vera ljós hans á jörðu. Kirkjan getur því aldrei verið heilög í sjálfri sér og án Krists slokknar ljós hennar. Hann kallar kirkjuna með orði sínu, innsiglar hana sér í skírninni. Hann fæðir hana og endurnýjar köllun hennar í sífellu með orði sínu og máltíð."

"Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður til jarðar af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa yður, er hold mitt, heiminum til lífs" (Jóh. 6,51). Einar Sigurbjörnsson segir og í bók sinni, þar sem hann er að fjalla um myndlíkingar Biblíunnar, að myndin af líkama Krists eigi við söfnuðinn sem guðsþjónustusamfélag. Hún taki líka til safnaðarstarfs til uppbyggingar. "Hún er mjög mikilvæg og lýsir samfélagi sem er í senn ein heild og samsett af mörgum... Myndin lýsir eðli kirkjunnar og sambandi við Krist og tjáir um leið köllun kirkjunnar til að vera það sem myndin felur í sér." Það er síðan skírnin, sakramenti skírnarinnar, sem gerir einstaklingana að meðlimum hins kristna safnaðar, "að limum á líkama Krists". Hitt sakramentið, altarissakramentið, máltíð Drottins, tengir safnaðarmeðlimina innbyrðis í samfélagi við skapara himins og jarðar. Enn segir Einar prófessor Sigurbjörnsson: "Kirkjan er samfélag í heilögum anda eða musteri heilags anda... Það er því heilagur andi sem á að móta kirkjuna, stuðla að játningu hennar, og móta vitnisburð hennar... Heilagur andi er lífskraftur kirkjunnar." Pistlahöfundur telur að sérhver lesandi bókarinnar "Embættisgjörð - guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð" sé mun betur að sér, eftir lestur en áður, í skilningi á eðli og tilgangi kirkjunnar á okkar dögum. Niðurstaðan kemur m.a. og einkar vel fram í þessum orðum: "Kirkjan er lýður Guðs á ferð gegnum tímann og á sér áfangastað meðal hverrar kynslóðar. Hann safnar sínum dreifðu limum. Messan er áningarstaður Guðs lýðs, þar sem hann á stutta dvöl á ferð sinni og hver kristinn maður sækir sér næringu og styrk til þjónustu við meðbræður sína og systur fyrir kraft heilags anda."