Í fyrsta lagi þetta: "Þegar forsetahjónin komu gangandi ásamt föruneyti frá Eiðistorgi var börnunum á Gulagerði [en á þeirri deild eru þau yngstu] bent á að nú væru forsetahjónin að koma. Brast þá eitt barnið í grát. Þegar farið var að spyrja barnið hvað væri að kom í ljós að það hefði ekki skilið eða þekkt orðið forsetahjón og hélt að um væri að ræða forsetahjól. Því voru vonbrigðin yfirþyrmandi að sjá hóp ókunnugs fólks í stað hjóls."
Í öðru lagi þetta: "Á einni deild studdi forsetinn hendi á borð þar sem meðal annars ein stúlka var að perla. Stúlkan leit mjög einbeitt á forsetann og sagði: "Viltu gjöra svo vel að hætta að hrista borðið svona, ég er að perla.""
Og í þriðja lagi: "Einn drengur kallaði til forsetans og sagði. "Heyrðu, hittumst við ekki á balli einu sinni?""
Tilsvör barna geta verið frábær, eins og dæmin sanna. Í umræddu fréttabréfi er einnig þessi stutta saga. Leikskólakennarinn segir við krakkana: Passið ykkur á spýtunni, þið getið fengið flís í hendurnar. - Ekki ég, sagði einn drengur. Ég er með flísvettlinga!
Ferðin hófst hérlendis 1. janúar 1999, leið þeirra lá þvínæst um Bretland og síðan meginland Evrópu, austur alla Asíu, austur að Kyrrahafi og síðan aðra leið til baka vestur til Moskvu, yfir til Norðurlanda og síðan aftur niður á meginlandið þar sem þau flökkuðu um frá því síðla á síðasta ári. En nú eru þau sem sagt stödd í París og framundan er akstur niður alla Afríku, þaðan austur á Arabíuskagann, áfram til Suður- og Suðaustur-Asíu og þaðan niður til Eyjaálfu.
Þegar þar að kemur, eftir ferðalag um Ástralíu, hyggjast þau sigla frá Perth á vesturströnd álfunnar, suður fyrir Afríku og lenda syðst í Suður-Ameríku. Í Rio Gallegos í Argentínu, nánar tiltekið. Þaðan verður ekið upp alla Suður-Ameríku, Mið-Ameríku og upp til Norður-Ameríku. Leiðin liggur upp með vesturströnd Bandaríkjanna, inn í Kanada og til Alaska og síðan aftur austur um Kanada og niður til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna. Þangað ætla þau að koma í árslok 2001.
Víkverji fylgist reglulega með ferðum þeirra skötuhjúa á Netinu. Til dæmis á slóðinni www.milleniumadventure.com eða 4x4abc.com/Jim Rogers - sem hægt er að mæla með. Þarna er að finna greinar, ljósmyndir, kvikmyndir, kort af ferðaleiðinni og sitthvað fleira.