GEGNDARLAUS sykurneysla Íslendinga var enn einu sinni til umræðu í vikunni, í tilefni tannverndardagsins.
GEGNDARLAUS sykurneysla Íslendinga var enn einu sinni til umræðu í vikunni, í tilefni tannverndardagsins. Víkverji hefur oft haft orð á þessu vandamáli en góð vísa er aldrei of oft kveðin og því er ástæða til að rifja upp upplýsingar sem fram komu í auglýsingu frá tannverndarráði. Þar kemur fram að hver Íslendingur borðar að meðaltali 53 kíló af sykri á ári! Fimmtíu og þrjú kíló að meðaltali á mann, segi og skrifa. Ennfremur að hver Íslendingur drekki að meðaltali 142 lítra af gosdrykkjum ári! Þetta eru ótrúlegar tölur. Víkverji drekkur sjálfur afskaplega lítið af gosdrykkjum og sykruðum söfum - honum finnst íslenska vatnið svo dásamlegt að það er í öndvegi - þannig að þegar tillit er tekið til "sérvitringa" eins og hans, og þess að margt fullorðið fólk drekkur lítið af gosdrykkjum, er ljóst að margir drekka ótrúlega mikið af þessum óhollu sykurdrykkjum. Yngsta kynslóðin er sjálfsagt verst hvað þetta varðar en taka þyrfti ærlega í lurginn á henni. Er ekki hægt að gera eitthvað raunhæft til að sporna við þessari þróun

VÍKVERJI heyrði í þættinum Ísland í bítið á föstudagsmorguninn að dósent í tannlækningum fór ekki fögrum orðum um kókómjólkina. Sagði hana mjög sæta; tók þannig til orða að hún væri nánast eins og síróp. Börnin á heimili Víkverja hrukku við þegar þau heyrði yfirlýsinguna, og trúðu þá loksins - sem betur fer - því sem foreldrarnir hafa verið að jarma um í nokkur ár um gosdrykki og sætu safana.

UNG vinkona Víkverja er á leikskólanum Mánabrekku á Seltjarnarnesi, þar sem gefið er út fréttabréfið Brekkufréttir. Í nýjasta hefti þess eru eftirfarandi dagsönn gullkorn, eins og þau eru nefnd, frá því forsetahjónin heimsóttu leikskólann fyrir tveimur árum.

Í fyrsta lagi þetta: "Þegar forsetahjónin komu gangandi ásamt föruneyti frá Eiðistorgi var börnunum á Gulagerði [en á þeirri deild eru þau yngstu] bent á að nú væru forsetahjónin að koma. Brast þá eitt barnið í grát. Þegar farið var að spyrja barnið hvað væri að kom í ljós að það hefði ekki skilið eða þekkt orðið forsetahjón og hélt að um væri að ræða forsetahjól. Því voru vonbrigðin yfirþyrmandi að sjá hóp ókunnugs fólks í stað hjóls."

Í öðru lagi þetta: "Á einni deild studdi forsetinn hendi á borð þar sem meðal annars ein stúlka var að perla. Stúlkan leit mjög einbeitt á forsetann og sagði: "Viltu gjöra svo vel að hætta að hrista borðið svona, ég er að perla.""

Og í þriðja lagi: "Einn drengur kallaði til forsetans og sagði. "Heyrðu, hittumst við ekki á balli einu sinni?""

Tilsvör barna geta verið frábær, eins og dæmin sanna. Í umræddu fréttabréfi er einnig þessi stutta saga. Leikskólakennarinn segir við krakkana: Passið ykkur á spýtunni, þið getið fengið flís í hendurnar. - Ekki ég, sagði einn drengur. Ég er með flísvettlinga!

JIM Rogers og Paige Parker - bandaríska parið sem hélt upp í þriggja ára ferðalag um heimsbyggðina á gulu Mercedez Benz-bifreiðinni frá Íslandi fyrir rúmu ári - eru nú stödd í París. Skv. upplýsingum á heimasíðu þeirra á föstudagsmorguninn höfðu þau lagt að baki 56.273 kílómetra á því rúma ári sem þau hafa verið á ferðinni, en ferðalaginu lýkur ekki fyrr en eftir tæp tvö ár, í árslok 2001.

Ferðin hófst hérlendis 1. janúar 1999, leið þeirra lá þvínæst um Bretland og síðan meginland Evrópu, austur alla Asíu, austur að Kyrrahafi og síðan aðra leið til baka vestur til Moskvu, yfir til Norðurlanda og síðan aftur niður á meginlandið þar sem þau flökkuðu um frá því síðla á síðasta ári. En nú eru þau sem sagt stödd í París og framundan er akstur niður alla Afríku, þaðan austur á Arabíuskagann, áfram til Suður- og Suðaustur-Asíu og þaðan niður til Eyjaálfu.

Þegar þar að kemur, eftir ferðalag um Ástralíu, hyggjast þau sigla frá Perth á vesturströnd álfunnar, suður fyrir Afríku og lenda syðst í Suður-Ameríku. Í Rio Gallegos í Argentínu, nánar tiltekið. Þaðan verður ekið upp alla Suður-Ameríku, Mið-Ameríku og upp til Norður-Ameríku. Leiðin liggur upp með vesturströnd Bandaríkjanna, inn í Kanada og til Alaska og síðan aftur austur um Kanada og niður til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna. Þangað ætla þau að koma í árslok 2001.

Víkverji fylgist reglulega með ferðum þeirra skötuhjúa á Netinu. Til dæmis á slóðinni www.milleniumadventure.com eða 4x4abc.com/Jim Rogers - sem hægt er að mæla með. Þarna er að finna greinar, ljósmyndir, kvikmyndir, kort af ferðaleiðinni og sitthvað fleira.

VÍKVERJI getur ekki stillt sig um að birta eftirfarandi pistil, sem er að finna í nýjasta eintaki netblaðsins Deiglunni, sem kom út skömmu fyrir helgi: "Milljarðamæringurinn Þorsteinn Vilhelmsson er einn eigenda Stoke Holding, sem á 2/3 í Stoke City. Kunningi Deiglunnar hafði á orði í gær að Þorsteinn ætti að rúna söluhagnað sinn af Samherjahlutnum niður í þrjá milljarða slétta meðþví að kaupa framherja handa Stoke fyrir 150 milljónir. Það yrði þá dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. Þorsteinn hefði reyndar getað keypt Stoke City rúmlega sjö sinnum fyrir söluhagnaðinn ..."