Miðjarðarhafsávaxtaflugan
Miðjarðarhafsávaxtaflugan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞESSI aðferðafræði var þróuð fyrir mörg meindýr. Aðferðin er að byggja mjög stórar verksmiðjur, sem framleiða flugur.

ÞESSI aðferðafræði var þróuð fyrir mörg meindýr. Aðferðin er að byggja mjög stórar verksmiðjur, sem framleiða flugur. Sú sem Björn heimsótti síðast meðan hann var forstjóri deildar FAO og IAEA um notkun geisla og geislavirkra efna í Vín, er í Mexíkó og framleiddi á viku 7 tonn af lirfum af skæðustu ávaxtaflugu sem til er í heiminum. Hún ræðst á alla ávexti, klekur þar ormum sínum, sem eta allt innan úr ávöxtunum. Þarf þá kannski að sprauta yfir þá baneitruðum skordýralyfjum 10 sinnum yfir vaxtartímann. Er bannað að flytja ávexti til Bandaríkjanna, Kanada og margra Evrópuríkja frá slíkum svæðum. Ávaxtaflugan barst frá Miðjarðarhafinu til Mið-Ameríku.

"Við fréttum fyrst af henni 1966, þá í Costa Rica og stungum strax upp á aðgerðum til að stöðva hana," segir Björn. "En allir töldu lítinn vanda að losna við smásmit. Síðan dreifðist hún um alla Mið-Ameríku og var komin inn í Mexíkó. Þá sögðu Bandaríkjamenn stopp, ekki meiri innflutning þaðan, sem var milljarða dollara tap. Þá leituðu Mexíkanar til okkar í Vín og báðu um hjálp. Við sendum sérfræðinga til þeirra og þeir byrjuðu að reisa verksmiðju og framleiða þessa flugu. Þegar hún er komin á púpustigið er hún sett í geislun. Notaðir gammageislar til að gera hana ófrjóa. Síðan er flugunum pakkað í poka, settar upp í flugvél og sendar á svæðið þar sem þetta meindýr er. Áður er búið að mæla hve mikið af meindýrinu er á svæðinu, t.d. 10 þúsund flugur á ferkílómetra. Þá verður að dreifa 10-15 sinnum fleiri ófrjóum flugum þar yfir. Ef dreift er 100 þúsund flugum hvaða möguleikar eru þá á því að frjó fluga hitti aðra frjóa flugu? Þeim fækkar um 90% og eftir að hafa að 30 dögum liðnum sleppt aftur ófrjóum yfir 1.000 flugur og enn yfir 100 er enginn möguleiki á að þær geti tímgast. Það tekur ekki nema 5 kynslóðir á einu ári að útrýma flugunni, þó að haldið sé áfram til öryggis. Ekkert eitur er notað, flugurnar einfaldlega hverfa."

Miðjarðarhafsfulltrúarnir í bræðralagi

Þegar Björn kom 1983 til Vínarborgar eftir að hafa starfað á Íslandi um hríð var búið að reisa fyrrnefnda verksmiðju og Mexíkóstjórn tilkynnti árið 1986 að engin ávaxtafluga væri lengur til. "Við byrjuðum að senda ófrjóar flugur til Los Angeles, þar sem var vandræðaástand vegna þess að skordýraeitri var dreift yfir borgina, því flugan var ógnun við alla ávaxtaframleiðsluna í Kaliforníu. Fólk var ævareitt. Í Guatemala var byggð fluguverksmiðja og búið er að hreinsa upp þar. Þegar ég var í Vín í sumar frétti ég að sama væri að segja um Chile og Argentínu, sem voru að sligast undan þessari plágu og verið að hreinsa Perú án eiturefna.

"Það skemmtilegasta var að 1994, þegar ég kallaði saman í Vínarborg fund um að reisa verksmiðju til að útrýma þessari flugu í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins, voru sérfræðingarnir frá Egyptalandi, Gasa, Palestínu, Ísrael, Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi allir eins og bræður. Þeir áttu þarna allt í einu sameiginlegan óvin. Talsmaður þeirra var Ísraelsmaður, því allir treystu honum. Ég hringdi út nú í desember og var sagt að þetta gengi mjög vel. Þeir væru að ná samstöðu um að skipuleggja þetta verkefni. Ekki var búið að ákveða hvar verksmiðjan yrði, en líklega á Kýpur. Flugan hefur líka fundist á suðurströnd Tyrklands, grísku eyjunum og jafnvel á Kaprí á Ítalíu. Hvað um það, þetta hefur sparað milljarða dollara, því ef maður losnar við fluguna þarf varla nokkurt skordýraeitur.

En hvað sögðu framleiðendur skordýraeiturs við því? Björn segir þá hafa mætt gífurlegri mótstöðu, fengu hvergi greiða götu. Aðalerfiðleikarnir við að koma þessu í framkvæmd voru að komast fram hjá áhrifum þessara framleiðenda.

Hann nefnir aðra skæða flugu, skrúfufluguna, sem ræðst á dýr og menn. Hún verpir í sár, jafnvel naflastreng nýfædds barns. Lirfurnar skrúfa sig inn í holdið og það versta er að hún framleiðir um leið deyfiefni, svo manneskja verður ekki vör við neitt nema smáþrota, fyrr en allt er morandi í ormum undir. Kemur fyrir að kinnin detti þá af manneskju og skepnur falla unnvörpum. Þessi skrúfufluga er landlæg í Norður- og Mið-Ameríku. Tókst að útrýma flugunni þar með ofangreindri aðferð. Líka í Mexíkó þegar verksmiðja hafði verið reist þar.

Svo gerðist það 1989 að geitur, lömb og nautgripir fara að falla unnvörpum í Líbýu og kemur í ljós að skrúfuflugan hefur að öllum líkindum borist þangað frá Mið-Ameríku. Líbýumenn gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, en sjúkrahúsin voru að fyllast af fólki með orma. "Líbýa átti þá í stríði við Bandaríkin vegna Lockerby-flugslyssins og engin leið að tala við þá," segir Björn, sem fór þangað með nokkra af sínum mönnum. Þeir kváðust í fyrstu ráða við þetta sjálfir, vildu ekkert hafa með okkur að gera.

Leiddu saman Bush og Gaddafí

Svo fer þetta sívaxandi og þeir biðja okkur í guðs lifandi bænum um að koma til hjálpar. Eina verksmiðjan í gangi var í Mexíkó og í eigu Bandaríkjamanna. Bush stóð öðrum megin borðsins og Gaddafí hinum megin. En málið var svo alvarlegt og svo mikið í húfi að Bush fékk samþykki þingsins til að mega hjálpa Líbýumönnum, því ef þessi fluga breiddist út til Túnis, Alsír og Egyptalands eða jafnvel suður yfir Sahara þá mundi að minnsta kosti þriðjungurinn af villidýrum Afríku farast. Fyrir utan það sem það gæti gert mannfólkinu. Samið var við Bandaríkjamenn um leyfi og við sömdum við Mexíkana um að selja okkur flugur og við Lufthansa um að flytja þær. Við urðum að safna peningum alls staðar að og fengum loforð fyrir 110 milljón dollurum til að gera þetta," segir Björn, sem þá var forstjóri stofnunarinnar í Vínarborg. "Ég sendi yfirmanninn í skordýradeildinni hjá mér til Líbýu. Hann er Ameríkani og það tók langan tíma að fá þá til að samþykkja að taka við honum og Bandaríkjamenn til að samþykkja að hann mætti vinna þar."

Loks var farið að fljúga. 2.000 flugum var pakkað í kassa og 40 milljón flugur fóru í hverja súperþotu til Trípolí, þar sem biðu 10 flugvélar, sem tóku við nokkur hundruð þúsund flugum hver til dreifingar og höfðu kæligáma til að flugurnar væru sæmilega rólegar. Flogið var skipulega eftir línum á landakorti til að dreifa flugunum. Komið var fram í desember 1991 og höfðu verið skráð 2.800 tilfelli á stóru svæði í Norður-Líbýu. Níutíu jeppar með dýralæknum fóru um landið til kanna ástandið og líta eftir. Í janúar fundust tilfelli á fimm svæðum og í apríl voru þau komin niður í eitt. Þá fannst síðasta flugan, en dreift var út árið til öryggis. "Nú er komið árið 2000 og þessi fluga hefur ekki sést síðan. Þetta er talið vera besta dæmið um árangursríkt verkefni hjá Sameinuðu þjóðunum. Allt var gert sem hægt var og það tókst. Þetta var samvinnuverkefni, en þar sem ég var forstjórinn sem bar ábyrgð á verkefninu, fékk ég

heilmikinn skjöld sem Gaddafi veitti mér í þakklætisskyni til mín og samstarfsmannanna."

Tsetse-flugan næst

Byrjað er að nota þessa sömu aðferð til að freista þess að útrýma tsetse-flugunni. Mikið hefur verið gert í að rannsaka þessa flugu, sem lifir á blóði, og var byrjað á því löngu áður en Björn hætti í Vínarborg. "Við byrjuðum í Nígeríu og vorum búnir að eyða flugunni á risastórum svæðum þar. Nígeríumenn áttu svo að taka við verkefninu, en spillingin er þar svo mikil að öllu var stolið, meira að segja bensíninu af bílunum, svo lítið var hægt að gera. Annars staðar hefur gengið betur. Búið er að útrýma flugunni á Zanzibar-eyju og þykir með ólíkindum hvernig landbúnaðurinn hefur blómstrað þar án tsetse-flugunnar. Þetta er eina svæðið sunnan Sahara sem er laust við þennan vágest, sem skiptir þá líka miklu máli vegna ferðamanna. Að losna við fluguna var gífurlega mikið verk og erfitt við að eiga. Flugan er svo sérstök, hún verpir ekki eggjum heldur á hún fáa lifandi unga. Aðferðafræðin, að rækta flugurnar í blóði og búa til nauðsynlega þunna himnu, var þróuð á rannsóknarstofunni á stofnuninni hjá okkur."

Verksmiðjan er uppi á meginlandinu í Tazaníu og flogið með ófrjóu flugurnar þaðan. Afríkuríkin eru nú óskaplega spennt fyrir þessu. En Afríka er gífurlega stórt svæði. Þó telur Björn að þessu verkefni verði áreiðanlega haldið áfram úr því svona vel tókst til á Zanzibar. Það er svo mikið í húfi.