Fæstir munu efast um að heilbrigt líferni bætir líf okkar á margan hátt.
Fæstir munu efast um að heilbrigt líferni bætir líf okkar á margan hátt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rannsóknir á langlífi og möguleikanum til að lengja líf fólks er á meðal vinsælustu viðfangsefna lífvísindamanna þessa dagana.

Rannsóknir á langlífi og möguleikanum til að lengja líf fólks er á meðal vinsælustu viðfangsefna lífvísindamanna þessa dagana. Þótt miklum tíma og fjármunum sé eytt í þessar rannsóknir er enn langt frá því að vera ljóst að hve miklu leyti heilbrigt líferni hefur áhrif á lengd þess lífs sem hvert okkar lifir. Er hugsanlegt að ævilengd sé að mestu ákveðin af uppbyggingu erfðaefnis okkar og að við fáum litlu þar um breytt þrátt fyrir heilsusamlegt líferni? Um þetta ber vísindamönnum ekki saman. Þrátt fyrir miklar rannsóknir er enn óljóst hvert er hlutfallslegt framlag lífernis og erfða til ævilengdar hvers og eins. Segja má að nokkur stuðningur sé fyrir hvorutveggja.

Fyrsta genið, sem hefur áhrif á ævilengd, var uppgötvað fyrir rúmlega tíu árum í ormategundinni Caenorhabditis elegans. Skilningur manna á hlutverki þessa gens hefur hins vegar þróast að mestu leyti á undanförnum tveimur árum. Nú er vitað að allt að því 12 mismunandi gen hafa afgerandi áhrif á ævilengd Caenorhabditis elegans. Meðalævi þessara orma er u.þ.b. 20 dagar en með hagstæðum stökkbreytingum þessara gena er hægt að lengja meðalævina í allt að því 80 daga. Alveg nýlega hafa svipuð, aldursákvarðandi gen fundist í ávaxtaflugum.

Þrátt fyrir að þessar rannsóknir hafi hingað til beinst eingöngu að ormum og skordýrum er trúlegt að gildi þeirra sé allverulegt einnig fyrir þróaðri dýrategundir, þar á meðal mannskepnuna. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir langt þróunarbil á milli skordýra og manna þá er uppistaða erfðaefnis hvorutveggja nokkuð svipuð. Helmingur allra gena, sem valda sjúkdómum í mönnum, finnst einnig í Caenorhabditis elegans jafnvel þótt "þróunarleið" þessara tveggja tegunda hafi klofnað fyrir meir en 700 milljónum ára. Að sjálfsögðu er erfðakerfi mannskepnunnar langtum flóknara en hjá Caenorhabditis elegans og því þarf að fara varlega í því að heimfæra niðurstöður ormarannsókna upp á manninn.

Aldursgen í mönnum eru ekki þekkt, enn sem komið er, þó trúlegt sé að við sjáum áhrifa þeirra gæta á meðal langlífra fjölskyldna. Það er vel þekkt að langlífi virðist ættgengt og rannsóknir sem gerðar voru í Bandaríkjunum og annars staðar sýna að það fólk sem á systkini sem ná 100 ára aldri hefur sjálft fjórum sinum meiri líkur til þess að ná 90 ára aldri en annað venjulegt fólk.

Enginn veit með vissu hvernig þessi ævilengingargen virka í líkamanum. Genin sem fundust í Caenorhabditis elegans virðast stýra lífefnafræðilegum ferlum sem verja frumur líkamans gegn skemmdum og efnaskipta stressi. Þessar niðurstöður styðja þá skoðun að það sé fyrst og fremst upphrönnun örsmárra efnafræðilegra mistaka innan frumna og vefja líkamans sem stuðla að öldrun hans. Þróun þessara skemmda leiðir til þess að frumur og vefir geta ekki lengur starfað á þann hátt sem þeim er ætlað. Alvarlegustu skemmdirnar orsakast af völdum súrefnis sem við öndum að okkur. Súrefnið framleiðir mjög hvarfgjörn efnasambönd, sk. sindureindir, sem geta leitt til skemmda á genum og hvítuefnum. Ef vísindamönnum tekst að finna þau gen sem gera líkamanum mögulegt að greina skemmdirnar og jafnvel lagfæra þær, þá væri ef til vill mögulegt að beita erfðaverkfræðilegum aðferðum til styðja starf þessarra gena og þar af leiðandi bæta við ævilengdina.

Athuganir benda einnig til þess að hitaeiningaríkur matur geti örvað myndun sindureinda og því hefur verið stungið upp á því að hægt sé að bæta ævilengd með því að draga úr neyslu hitaeininga. Fæstir munu efast um það að heilbrigt líferni bætir líf okkar á margan hátt, þ.á m. líklega ævilengd. En að hve miklu leyti við getum þakkað genunum sem við berum eða matnum sem við borðum er enn sem komið er langt frá því að vera ljóst.