Albert Einstein
Albert Einstein
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auk þess sem það mætti kallast þröngsýni að halda sig við eðlisfræðinga. Er engin fræðigrein sem mótar jafnmikið samfélag sitt og eðlisfræðin?

Auk þess sem það mætti kallast þröngsýni að halda sig við eðlisfræðinga. Er engin fræðigrein sem mótar jafnmikið samfélag sitt og eðlisfræðin? Er ekki jafnmikið afrek að komast að niðurröðun frumeinda sem stjórna erfðum lífvera, eða að uppgötva að mannssálin stjórnast af dulvituðum öflum eins og Sigmund Freud gerði og er enn í gildi og ekki fallandi gildi, hvað sem ætla mætti af umfjöllun fjölmiðla um vísindi dagsins í dag, þar sem farið er að telja alla eiginleika lífvera og sér í lagi mannsins vera afleiðingu erfðavísa. "Vísindamennn eru að leita að geninu fyrir sparsemi og öðru fyrir stelsýki," gæti gefið að lesa í fjölmiðlum dagsins í dag. Segja má að það hái hinum vestrænu samfélögum dagsins í dag að tækni- og raunvísindahluti þeirra sé ofvaxinn á kostnað félags- og sálvísinda. Ekki það að þau vísindi séu ekki til, heldur skortir trú á þeim og vilja manna til að nota þau við ákvarðanir. Gamla skoðunin um að greind manna og aðrir eiginleikar séu ákvarðaðir af genum hefur styrkst, og e.t.v. hvergi meira en hér á landi. Af fjölmiðlum mætti ráða að hæfileikinn til að draga kvaðratrót hratt og rétt sé ákvarðaður af kvaðratrótargeninu. Fáir virðast aðhyllast þá skoðun að erfðavísar mannsins afhendi umhverfinu einstaklinginn til mótunar, en það eitt hversu mótanlegur hann sé fari eftir erfðunum. Þetta er þó nær sanni um það hvernig litið er á spurninguna um erfðir og umhverfi í vísindaheiminum. Þessar fimmtán línur hér að framan eru aðeins til að leika sér að þeirri hugsun að Sigmund Freud mætti rétt eins teljast maður þessarar aldar sem er að ljúka og t.d. Albert Einstein eða Niels Bohr.

Skammtafræðin er enn frekar byltingarkennd en afstæðiskenningin hvað varðar alla hugsun. Enn lengra er stokkið frá heimi hinnar daglegu reynslu, og hún orkar enn mótsagnakenndari á þann sem kynnist henni. Og þótt kenningar Einsteins leiði beint til kjarnorku, ógnarjafnvægis og friðsamlegrar orkuframleiðslu eru tæknileg áhrif skammtafræðinnar gegnum tilurð fastefnatækninnar enn meiri. Fastefnatækni örflögunnar varð til fyrir skammtafræðilega meðhöndlun á eindunum í föstum efnum. En transistorinn eða smárinn, örflagan og tölvan er þessi árin að valda miklu grundvallarlegri breytingum á heiminum en nokkur kjarnorkutækni. Áhrif tölvutækninnar eru farin að taka til daglegs lífs hvers einasta manns í æ stærri samfélögum heimsins, og eru að enda með því snemma á hinni óbyrjuðu tuttugustu og fyrstu öld að gerbylta öllu samfélagi manna. Samfélög þróast fyrir áhrif samskipta á milli manna, og þeim samskiptum hefur tölvan breytt. Heimurinn er að verða á við hálft kálfsskinn eftir að tölvusamskipti komu okkur öllum í kallfæri hverju við annað. Þannig mætti segja að Bohr eða Heisenberg, eða einhver hinna af þeim sjö sem voru taldir að framan af frumkvöðlum skammtafræðinnar, mætti vera maður aldarinnar, ekki síður en Einstein eða Freud.