Dr. Björn Sigurbjörnsson: Einn fjögurra frumkvöðla "grænu byltingarinnar" að mati FAO.
Dr. Björn Sigurbjörnsson: Einn fjögurra frumkvöðla "grænu byltingarinnar" að mati FAO.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TIL að átta sig á ferli dr.

TIL að átta sig á ferli dr. Björns Sigurbjörnssonar og þeirra rannsókna sem hann stjórnaði á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna vikum við fyrst að upphafinu á Íslandi er við höfðum komið okkur fyrir í skrifstofu ráðuneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins, þar sem hann, aftur á heimavelli, er eftir langa útivist kominn í íslenska stjórnsýslu landbúnaðarmála. Um 1960 tók þessi blaðamaður Mbl. fyrst við hann viðtal í Gunnarsholti, þar sem hann þá var með áhugaverðar kornræktartilraunir og víxlræktun á melgresi. Næsta viðtalsefni var um áratug seinna í Vínarborg, þar sem Björn við jurtakynbótadeild FAO Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ og Alþjóðakjarnorkustofunina IAEA vann með geislunum á afdrifaríkum nytjajurtum heimsins að því að fá fram ný afbrigði til að auka hveitiuppskeru heimsins og síðan hrísgrjónaafköstin, sem hvort tveggja varð afdrifaríkt fyrir stóra hluta heims.

Björn kom heim frá námi 1960 eftir að hafa lokið doktorsritgerð sinni um íslenska melgresið. Hafði þá unnið í þrjú sumur við rannsóknir á því í Gunnarsholti. Hann hafði byrjað á að víxlrækta melgresi en var aðallega að rannsaka hvaða erfðategundir væru til á Íslandi. "Þetta er kallað staðbrigði, sem þýðir að á mismunandi stöðum á Íslandi hafa þróast gjörólíkar tegundir af melgresi," útskýrir hann... "Til dæmis er það melgresi sem vex í Þykkvabænum áberandi miklu öflugra, stærra og þróttmeira en annað melgresi. Þetta er erfðafræðileg þróun sem hefur átt sér stað í náttúrunni. Ég var orðinn það þjálfaður að ég gat þekkt úr hvort melgresi kom frá Meðallandinu, Þykkvabænum eða Hólsfjöllum þó það væri allt í sama reit. Þetta fékk Landgræðslan að vita og hefur lagt áherslu á að nota öflugar tegundir af melgresi, en ekki eins og áður var einhverja blöndu," segir Björn.

Árið 1961 hafði Birni, sem þá var sérfræðingur hjá búnaðardeild Atvinnudeildar HÍ, fyrirrennara RALA, verið falið að gera þar rannsóknir á kornrækt, sem byggðust á því sem Klemens Kristjánsson á Sámsstöðum hafði verið að gera. Og einnig að kanna samspilið milli áburðar, bæði köfnunarefnis og fosfórs, svo og kornþroska. Starf Björns fólst í því að kanna þau afbrigði sem til eru í heiminum og gætu hentað hér á Íslandi. Hann var þá að leita að erlendum afbrigðum til viðbótar þeim tveimur íslensku er Klemens hafði verið með, Tampar og Sigur, sem voru notuð hér vegna þess að þau eru svo veðurþolin. Ekkert bítur á þeim, varla hægt að þreskja þau. "Þetta eru þau afbrigði sem sennilegast hafa verið notuð í Færeyjum og á Íslandi frá upphafi, þangað til kornrækt lagðist hér niður fyrir líklega 300 árum og allt tapaðist sem hér var. Hins vegar var hér búinn til grautur og brauð úr melgresi fram á þessa öld í Skaftafellssýslum. Í korninu var ég með nokkur hundruð afbrigði af byggi og líka hveiti og var að reyna að finna það sem best hentaði. Var í Gunnarsholti með mörg þúsund reiti. Við unnum saman að þessu við Gunnar Ólafsson heitinn. Til gaman má geta þess að við komumst svo langt að vera til kynningar með sýningu á kökum úr alíslensku hveiti í samvinnu við Húsmæðraskóla Reykjavíkur.

Það sem kom út úr þessu var afbrigði frá Svíþjóð, sem hét Mari, og hefur verið uppistaðan í kornræktinni síðan. Það var kynbætt af Åke Gustafsson, sænskum prófessor í Lundi, sem var mikill vinur minn og ég hafði mikið samband við. Einnig seinna þegar ég var hjá Sameinuðu þjóðunum. Þetta afbrigði var framleitt með því að nota röntgengeisla til að framkalla stökkbreytingu. Með þessari stökkbreytingu varð Mari miklu snemmþroskaðra en nokkurt annað afbrigði. Það var eina afbrigðið sem þroskaðist og var notað hér fram á síðustu ár. Þetta afbrigði varð eins og lykilafbrigði, reyndist t.d. mjög vel í fjöllunum á Spáni og var á sínum tíma ræktað víða um heim."

Björn er plöntuerfðafræðingur og hafði sérmenntast í notkun á geislum. Hann átti þá að baki búfræðinám á Hvanneyri, var búfræðikandídat með meistaragráðu í frumuerfðafræði frá Manitoba-háskóla í Kanada og hafði svo tekið doktorsgráðu við Cornell-háskóla í New York með ritgerð um íslenska melinn. Rannsóknirnar í jurtakynbótum, í sambandi við erfðafræði og kynbætur, vann hann allar á Íslandi, hugðist með því umbæta melinn. Áður en hann kom heim hafði hann farið á mörg námskeið til að læra meðferð á geislum og geislavirkum efnum, sem var ástæðan til þess að á hann var kallað til Vínarborgar til að nota geislun og geislavirk efni í jurtakynbótum. "Það var örlagavaldur í mínu lífi, fóru 23 ár í það," segir hann.

Jurtakynbætur með geislun

"1963 var ég sem sagt beðinn um að koma í tvö ár sem sérfræðingur í notkun geisla í jurtakynbótum á vegum Alþjóðakjarnorkustofuninnar í Vín. Ætlaði bara að vera í leyfi. Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri tók við af mér og hélt áfram við þessar korntilraunir þangað til litla ísöldin kom. Það var einmitt um 1963 að veðurfarið fór að kólna á Íslandi og við töpuðum öllu kynbótaefninu okkar bæði árin 1963 og 1964. Þessi litla ísöld hélt áfram fram um 1970 og gekk illa með kornræktina eins og ýmsa aðra ræktun. Eftir að allur efniviðurinn var þurrkaður út í köldu veðráttunni var því sjálfhætt."

Til gamans segir Björn sögu af baslinu með kornið. 1963 voraði snemma og þeir ákváðu að prófa mjög snemmsáða kornrækt á Skógasandi. "Við sáðum 8. mars í glampandi veðri. Síðan var ákveðið að sá með mánaðar millibili. 8. hvers mánaðar og bera saman. Við fórum því austur á Skógasand með heilan leiðangur 8. apríl. Mánaðar gamla byggið var þá komið upp og við sáðum nýju allan þann dag. Eftir langan sólríkan dag fórum við inn í tjald klukkan sjö og klukkutíma síðar fauk tjaldið. Þá kom þessi svokallaði Hákonarbylur, sem hlaut nafn af því að þá fór sitkagrenið og fleira. Ég hafði aldrei lent í öðru eins. Við komumst við illan leik í Skógaskóla til að gista. Ræktunin frá 8. mars og 8. apríl fauk út á sjó með sandinum."

Björn Sigurbjörnsson fór svo út til Vínar, ráðinn af Alþjóðakjarnorkustofnun Sameinuðu þjóðanna, sem var með starfsemi í sambandi við notkun á geislum. Og árið eftir, 1964, var stofnuð sameiginleg deild FAO og Kjarnorkustofnunarinnar. Þá varð Björn deildarstjóri í jurtakynbótadeildinni og stjórnaði jurtakynbótaverkefnum víða um heim. Var við það í 11 ár í fyrsta áfanganum áður en hann kom heim til að gerast forstjóri RALA. Ætlaði aldrei út aftur, segir hann. Í Vín var hann í fimm ár deildarstjóri í jurtakynbótum og svo frá 1968 aðstoðarforstjóri deildarinnar, sem náði þá yfir allt svið landbúnaðarins, búfjárrækt, geymslu matvæla, jarðvegsfræði, kynbætur o.fl. Þetta var eina rannsóknadeild FAO.

Græna byltingin bjargaði frá hungri

Þá var það að blaðamaður á ferð í Vínarborg komst að því að þessar tilraunir voru víðfrægar og skiptu sköpum m.a. í Suðaustur-Asíu. "Það er rétt, við hjálpuðum mikið til vegna þess að við lentum í því að vinna með þeim sem komu á "grænu byltingunni". En græna byltingin fólst í að auka meðaluppskeru á hveiti í þessum löndum, frá Miðjarðarhafinu og austur um til Indlands, úr 600 kg á hektara í 6.000 kg. Þetta tókst. Það gerðist líka í Mexíkó og sums staðar í Suður-Ameríku, því þessi nýju afbrigði komu frá Mexíkó. Þar starfaði Norman Borlaug, norskur Ameríkani, sem fékk fyrir það friðarverðlaun Nóbels. En Borlaug er einn af þessum fjórum sem FAO telur frumkvöðla grænu byltingarinnar. Annar er M.S. Swaminathan, mikill vinur Björns sem stjórnar samnefndri stofnun er hann byggði upp með öllum sínum verðlaunum í Indlandi. Hann var sá fyrsti sem fékk World Food Price upp á hálfa milljón dollara og var verðlaunaður nú í haust hjá UNESCO. Heiðursdoktorsnafnbætur hans eru raunar 38 talsins. Time Magasín valdi Einstein mann aldarinnar og um leið voru þeir að leita uppi fremstu menn aldarinnar frá hverju svæði. Nefndu til fjóra Asíumenn, tvo frá Indlandi, Mahatma Gandi og Swaminathan númer tvö. Þriðji frumkvöðullinn í grænu byltingunni heitir Afdul Hafis frá Pakistan, sem á þeim tíma var starfsmaður hjá FAO og sá fjórði dr. Björn Sigurbjörnsson frá Íslandi, sem var hjá þessari sameiginlegu deild í Vínarborg. Tilefni þessa vals hjá FAO er grein um uppruna grænu byltingarinnar nú í aldarlok. Hún er í vinnslu og Björn er með handritið í skrifstofu sinni. Þar segir að skýrslan frá FAO sé skýrsla fjögurra frumkvöðla grænu byltingarinnar.

"Það er auðvitað Borlaug sem er höfundur að afbrigðunum sem notuð eru, en genin komu frá Japan," útskýrir Björn. "Eina sem þau gerðu var að stytta kornið, sem var einmitt það sem við vorum að leita eftir til þess að hægt væri að bera meiri áburð á hveitið. Í staðinn fyrir að kornið bara lengist við það og þetta mjóa langa korn detti svo niður í næsta roki, þá safnar það í axið. Stráið er mjög sterkt og svo seigt að vindurinn getur ekki haggað því. Með meiri áburðargjöf gátu framleiðendur tífaldað uppskeruna. Óhætt er að segja það hreint út að fram til 1968, þegar þetta korn komst í gagnið, urðu reglulegar hungursneyðir í Indlandi vegna skorts á korni, en eftir 1970 var Indland farið að flytja út hveiti. Það urðu alger umskipti. Fram á þennan dag getur Indland brauðfætt sig sjálft. Ég var viðstaddur 1970 í Pakistan þegar ráðherrann tilkynnti að nú væri Pakistan sjálfu sér nægt, en vegna óstjórnar hefur þetta glutrast niður þar svo þeir eru farnir að flytja inn aftur." Það vekur spurninguna um hve lengi þessi búbót muni duga Indverjum? "Þeir voru um 600 milljónir þegar þessi umskipti urðu, en eru nú komnir í milljarð. Þótt bæst hafi við 400 milljón manns eru þeir samt ennþá sjálfum sér nógir í Indlandi."

Indverjar urðu sjálfum sér nógir

Hver var hlutur þeirra í Vín í þessu? "Þessi græna bylting byrjaði í Mexíkó og þar um slóðir fyrir áhrif frá Borlaug og fór víðar, allt frá Miðausturlöndum svo sem Íran og Írak og austur yfir Asíu til Indlands. Við vorum að hjálpa sérfræðingum í þessum löndum öllum. Við vorum með tilraunir í 23 löndum í Asíu til að kynna þetta. Sjálfir vorum við að vinna meira í annarri tegund af hveiti, sem nefnist Durum og Íslendingar þekkja í pasta, svokallað spaghettihveiti. Dvergarnir í því hveiti koma allir úr geislun. Um það hafði ítalskur rektor, dr. Scarascia, forustu með okkar hjálp."

Björn kann ótal skemmtilegar sögur um hvernig þetta ævintýri gekk til. "Kya, forseti og einræðisherra í Pakistan, sendi bara herinn á bændurna með fræið og skipaði þeim að sá því. En í Indlandi var það dr. Swaminathan sem með sínum sannfæringarkrafti taldi þá konurnar á það því karlarnir þar lyfta sjaldan fingri. Ég fór stundum með honum í ferðirnar, sem byrjuðu kringum Dehlí. Í fyrstu var enginn áhugi á að fara að skipta um afbrigði. Svo tókst honum í einu þorpi að fá bændurna til að prófa þetta. Þeir fengu margfalda uppskeru, sem var að smáaukast. Þá skildu nágrannarnir í þorpunum í kring ekkert í því af hverju þorpsbúar voru farnir að setja upp sjónvarpsmöstur og fá sér heimilistæki, og komnir bílar í þetta eina þorp. Íbúar nágrannaþorpanna urðu öskureiðir og spurðu því þeir en ekki við? Þetta breiddist því út eins og eldur í sinu. Eitt var þó gagnrýnt, að það voru aðeins bændurnir með gott land sem höfðu efni á að gera þetta. Smábændurnir voru ekki að rækta hveiti. Dreifingin var auðvitað misjöfn, en áhrifin á þjóðina voru þau að hægt var að framleiða nóg handa öllum heima fyrir og meira að segja að flytja út. Það sem menn segja núna er: Það vantar græna byltingu í Afríku. Það er næsta skrefið, segir Björn. Þar er það sem skórinn kreppir."

En þarna var ekki aðeins um byltingu í hveitirækt að ræða. Hrísgrjónabyltingin, sem varð um svipað leyti, var ekki síður afdrifarík víða. Björn er beðinn um að segja í stuttu máli frá því. "Ég byrjaði 1965 með kynbótaverkefni með okkar aðferðum í 12 löndum í SA-Asíu, fór þar víða um. Þegar það verkefni hafði verið í gangi í fimm ár voru á fundi í Tókýó, sem ég var á 1970, í fyrsta skipti stofnuð samtök erfðafræðinga í Asíu á sviði jurtakynbóta SABRAO. Mér þótti gaman að því þegar ég fór sem heiðursgestur á afmælisfund samtakanna í Bangkok fyrir 15 árum að tekið var sérstaklega fram að þessi árangur hefði orðið af því starfi sem ég var þá í. Alþjóðakynbótastöðin á Filippseyjum var með svona dverggen sem þeir höfðu fundið á Taívan. Þetta var eina genið sem gerði það að verkum að hrísgrjónaplantan styttist og var hægt að fá út úr henni tvöfalda, þrefalda og fjórfalda uppkeru. Þetta afbrigði er nú uppistaðan í nær allri hrísgrjónarækt í heiminum. Ég og mitt samstarfsfólk notaði geislun við þetta viðfangsefni.

Fyrsti árangurinn varð í Japan. Þangað var einn af okkur mönnum sendur og honum tókst með geislun að búa til svona afbrigði, sem stytti stráin. Þetta gen er föðurafbrigði í allri hrísgrjónarækt í Japan. Þetta kom líka í ræktunina í Taílandi og víða um Asíu.

Við bjuggum til leiðbeiningabók um hvernig ætti að nota þessa aðferð til að endurbæta plöntur og Kínverjar tóku hana og þýddu á kínversku. Kínverjar voru á þessum tíma svolítið utangátta í alþjóðasamfélaginu, en ég hafði alltaf boðið þeim á fundina svona bak við tjöldin. Jú, jú, ég fékk oft skömm fyrir," segir Björn þegar spurt er hvort það hafi verið látið óátalið. "Þegar ég fór frá Vín fyrir fimm árum var svo komið að 10% af hrísgrjónaræktinni í Kína var af þessum stökkbreyttu afbrigðum. Sem viðurkenning fyrir það var ég 1988 kjörinn heiðurprófessor við Landbúnaðarakademíuna í Peking."

Þessu rannsóknarverkefni hætti Björn um 1970 og varð aðstoðarforstjóri við hina sameiginlegu deild FAO og Kjarnorkustofnunarinnar í Vín. Því starfi fylgdi stór rannsóknarstofa með sex deildum. Þar fór hann að skipuleggja rannsóknir á öllum sviðum landbúnaðar, verja landbúnað fyrir skordýrum, geisla matvæli, láta gera jarðvegsrannsóknir o.fl.

Spennandi verkefni heima

Hvers vegna skyldi Björn hafa sleppt aðstoðarforstjórastarfi hjá stórri alþjóðastofnun og komið heim til Íslands? "Ég hætti 1974 til að gerast forstjóri RALA. Halldór E. Sigurðsson landbúnaðarráðherra bað mig að taka við því starfi. Þá sagði ég upp og ætlaði aldrei út aftur." Hann var svo heima í 9 ár, forstjóri RALA til 1983 þegar forstjóri FAO bað um að fá hann lánaðan í 3 ár. Hann kveðst ekkert hafa langað til að fara frá Íslandi, það var svo margt skemmtilegt að gerast hér á þeim tíma, og hann var búinn að segja nei við þá í Róm. Þá fóru þeir fram á það við Pálma Jónsson landbúnaðarráðherra að fá Björn Sigurbjörnsson lánaðan í þrjú ár, því það vantaði forstjóra við þessa deild sem hann hafði verið í. Honum var boðið leyfi frá störfum hér í þann tíma og Gunnar Ólafsson tæki við á meðan. Fyrir þennan þrýsting sló hann til. "Maður ræður aldrei sínum næturstað," segir Björn. Eftir þrjú árin í Vín var sama sagan, hann var aftur byrjaður á svo mörgu spennandi að hann gat ekki farið heim. Og árin þrjú urðu í það sinn að 12 árum.

Hvaða verkefni voru svona spennandi? "Allt milli himins og jarðar, mikið í jurtakynbótum," svarar hann að bragði. "Þá voru þessi afbrigði með stökkbreytingum með geislum, sem við höfðum verið að styðja við, komin í nær öllum tegundum nytjaplantna. Ég get t.d. nefnt að hvert einasta byggafbrigði Evrópu sem bjór er búinn til úr kemur frá stökkbreytingu af völdum geisla, sem styttir stráið. Nær allt pasta sem framleitt er úr hveiti er af stökkbreyttum genum. Piparmyntan í tannkreminu var af plöntu sem þá var að deyja út vegna sveppasjúkdóms, en við stökkbreytingu með geislun kom fram algert ónæmi fyrir sveppnum og á því byggist núna öll framleiðslan. Við komum víða við."

Þetta eru ekki erfðabreytingar og Björn telur gott að það komi fram. "Venjuleg þróun í náttúrunni byggist á stökkbreytingum, úrvali og víxlunum. Þetta er bara eðlileg þróun, Darwins-þróunin. Stökkbreyting verður til að miklu leyti vegna geisla frá sólinni. Meðan við erum að tala saman eru stökkbreytingar í líkama okkar fyrir áhrif frá sérstökum geislum sólar eða utan úr geimnum. Þessi aðferð okkar gerir ekki annað en að herða á þessari þróun og gera hana hraðari. Þessar stökkbreytingar eru því fullkomlega eðlilegar."

Erfðabreyttar lífverur

Erfðabreyttar lífverur komu til í kjölfarið. "Þegar ég kom sem forstjóri til Vínar 1983 var að byrja tækni sem heitir líftækni. Tvær stofnanir voru að byrja á því hjá Sameinuðu þjóðunum. Fyrir utan FAO var það Alþjóðaiðntæknistofnunin UNIDO. Ég man að 1984 flutti ég á Filippseyjum fyrirlestra fyrir FAO, UNIDO og IAEA-kjarnorkustofnunina um líftækni í plöntukynbótum. Síðan var stofnuð sérstök líftækninefnd innan FAO með öllum deildum og ég var formaður hennar mörg fyrstu árin. Þetta starf leiddi af sér þessar erfðabreyttu lífverur. Rannsóknarstofunni okkar, sem er fyrir utan Vín, var breytt frá að vera bara með geisla og geislavirk efni í að vera líka líftæknistofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hún skipuleggur og styður aðra um allan heim. Bandaríkjamenn er fremstir í þessum erfðabreyttu lífverum, sem verið er að deila um núna, en þær eru lítið í Evrópu. Kemur til af því að svo dýrt er að framleiða þær og koma á markaðinn að það eru aðeins þessi risastóru efnafyrirtæki, eins og Monsanto og Dupont og Pioneer, sem geta kostað milljörðum til rannsóknanna. Sameinuðu þjóðirnar ráða lítið við það. Hafa enga peninga í slíkt. Við vorum með námskeið og styrktum unga vísindamenn til að þróa þetta, sem er reyndar notað á miklu fleiri sviðum en til jurtakynbóta."

Tvöfalda þarf matvælaframleiðsluna

Hvernig líst Birni þá á hvernig þetta er að þróast? Mér líst vel á það svo fremi að rannsakað sé hvaða áhrif þetta hafi, svarar hann að bragði. "Þetta er ekki spurning um að vera jákvæður eða neikvæður. Ef maður hugsar fram í tímann þá er búist við að mannkynið, sem nú er 6 milljarðar, verði árið 2050 orðið tíu milljarðar. Þá segir FAO að verði að tvöfalda matvælaframleiðsluna til að fæða þetta fólk. Til að gera það þarf t.d. að tvöfalda áburðarnotkun, tvöfalda vatnsnotkun í áveitur og tvöfalda notkun á skordýraeitri. Þannig er framtíðarspáin.

Hættan er talin liggja í því að þegar tekið er gen frá skordýri eða bakteríu eða nautgrip og sett yfir í hveitiplöntu, þá gæti genið hegðað sér einhvern veginn öðru vísi þar. Fólk er hrætt við það þegar gen er flutt milli fánu og flóru, en ekki bara flutt innan t.d. hveitiplöntunnar. Ég er það auðvitað líka. Ég get nefnt þér dæmi um hvernig þetta virkar. Þegar tekið var gen úr svonefndum glow-worm eða eldflugu, sem kveikir á sér og lýsir í myrkri, og sett í tóbaksplöntu, þá gat maður séð hana í dimmu herbergi. Þetta sýnir að genið úr skordýrinu er orðið hluti af erfðaefni plöntunnar. En þetta skaðar ekki. Menn eru hræddir við þetta, en það hefur ekkert komið fram sem sýnir að ástæða sé til. Gagnrýni fólks beinist að því sem t.d. stórfyrirtækið Monsanto er að gera. Þetta fyrirtæki framleiðir roundup, öflugt illgresislyf og gott, sem mikið er notað hérna t.d. í skógrækt. Það drepur allt en gufar strax upp og skilur ekki eftir sig nein áhrif. En ef maður er með sojaakur fullan af illgresi og dreifir þessu þá drepur það allt, sojabaunirnar líka. Það sem þeir hafa gert er að setja gen úr einhverju sem gerir sojaplöntuna ónæma fyrir roundup. Það verður þá eina plantan sem þolir roundup og þeir geta selt miklu meira af því. Þá ertu komin í genabreytta lífveru ónæma fyrir roundup, eins og flestar sojabaunir eru nú í Bandaríkjunum. Bóndinn sáir í akur sinn, setur lyf ið á akurinn og allt deyr annað en sojabaunirnar."

Hver getur haft stjórn á þessu? "Viðkomandi stjórnvöld verða að gera það," segir Björn. "Bandaríkin gera það og hafa gefið leyfi fyrir þessu. En þeir gera það fyrst eftir að vera búnir að gera alveg gífurlega viðamiklar rannsóknir og tilraunir og finna ekki að það skaði eitt eða neitt. Fólk bara trúir því ekki fremur en geislun matvæla, sem hvergi hefur sannast að hafi nokkur áhrif á heilsuna. En sumt fólk heldur að eitthvað sé að geisluðum matvælum og vill ekki borða þau. Fer þó með matinn sinn í gegnum leitartækin á flugvöllum, þar sem þau eru geisluð með röntgengeislum. Ef gen er sett í plöntu og hún framleiðir eitur gegn skordýrum telur fólk hættu á að það geti haft áhrif á heilsuna. En Bandaríkjamenn hafa gert miklar rannsóknir á þessu án þess að finna nokkuð hættulegt við það."

Ef aðeins stóru risarnir ráða við þessar viðamiklu rannsóknir vegna erfðabreytinga, eru þær þá bjargráðið til að geta aukið matvælaframleiðsluna í heiminum og bjargað komandi kynslóðum frá hungri? "Þeir selja auðvitað þetta fræ um allan heim og hver sem er getur keypt það. En það sem þeir gerðu núna, þessir skrattar, var að setja inn í sumar af þessum nytjaplöntum gen, sem gera það að verkum að t.d. sojafræið hefur þá eiginleika að hægt er að búa til sojasósu úr fræjunum en þau spíra ekki. Það er kallað "terminator"-gen. Þannig að bóndinn verður á hverju ári að kaupa nýtt fræ. Þú getur ímyndað þér að Greenpeace og margir aðrir eru að springa af gremju. En maður á samt kost á að kaupa þetta fræ, sem kemur til góða. Þeir sem setja milljarða inn í þetta verða að fá sína milljarða til baka. Annars mundu þeir ekki gera þetta. Það getur verið að það borgi sig, það kostar líka að kynbæta. Og einkaréttur þeirra á þessu rennur auðvitað út."

Því má skjóta hér inn í að Björn Sigurbjörnsson mun flytja fyrirlestur á ráðstefnu sem umhverfisráðuneytið efnir til 9. mars um þessi efni og nefnist fyrirlesturinn: Hugsanlegur ávinningur af erfðabreyttum matvælum. Verður það gott innlegg í þessa umræðu sem nú fer fram frá manni með svo mikla þekkingu á málinu.

Margar aðrar nytjaplöntur eru framleiddar eftir svokallaða kynblöndun, svo sem allur maís. Þá er víxlað tveim línum sem búið er að skyldleikarækta og maður fær

þennan risamaís, sem má svo aftur víxla og fá súperrisa. Þetta er bara víxlun.

En bóndinn verður engu að síður að kaupa fræið á hverju ári því hann er ekki með þessar línur. Hann fær ekkert öðru vísi. Það eru stóru fyrirtækin sem framleiða þessar skyldleikaræktuðu línur. Þannig er maísinn í dag. Þá eru þeir alltaf að selja

árlega því bóndinn getur ekki notað sitt eigið fræ. Svona hrísgrjón rækta Kínverjar líka.

Það sem FAO, sá góði maður Borlaug og margir aðrir halda fram og kom fram á toppfundinum í Róm 1996 er að ef þú ekki notar þessa erfðatækni þá tekst ekki að tvöfalda matvælaframleiðsluna með núverandi aðferðum. Það er bara staðreynd," bætir Björn við.

Engin framför síðan 1970

"Við vorum að ræða þetta í WHAT, World Human Action Trust, þessari alþjóðanefnd sem ég er í. Þar eru þrjár nefndir, ein er um fiskveiðar, önnur um tært vatn og sú þriðja um erfðabreytileika í jurtum og öðrum lífverum, sem við Swaminathan erum báðir í. Við erum búnir að halda marga fundi, nú síðast í London. Þar kom fram að afbrigðið sem kom fram í grænu byltingunni, afbrigðið frá Taívan og þessi stökkbreyttu gen sem voru notuð í Kína, þau margfölduðu uppskeruna. En það hefur engin framför orðið síðan 1970. Til dæmis hafa engin afbrigði komið fram sem hafa aukið afraksturinn á hrísgrjónum. Menn eru komnir í strand og enginn veit af hverju. Stórar stofnanir eru samt á fullu við rannsóknir. Það er ekki glæsilegt á 30 árum. Þetta vita þeir sem eru í jurtakynbótum og líftækni. Þýðir ekkert að blekkja sig.

Ég álít því að við getum ekki horft bara til næstu fimm ára, enda býst ég við að við reiknum með að barnabörn og barnabarnabörn okkar verði lifandi um miðja næstu öld. Og ég tel að ekki sé hægt að tvöfalda matvælaframleiðsluna án þess að nota þessar aðferðir, svo einfalt er það. Það verði þó að ganga úr skugga um að það sé ekki skaðlegt. Ýmsar aðrar aðferðir mætti nota, en ég tel að ekki sé hægt að ganga fram hjá þessari.

Við höldum áfram að ræða þetta. Björn víkur talinu að toppfundinum um matvæli og öryggi sem FAO efndi til 1996 í Róm með 150 þjóðarleiðtogum, þar á meðal Castro og Davíð Oddssyni. Þeir voru að glíma við þann vanda að 800 milljónir manna líða nú þegar hungur í heiminum, flestir í Asíu en hæsta prósentan í Afríku. Og að ekkert hefur þar breyst á mörgum árum." Hvaða niðurstöðu heldurðu að þessi æðstu menn heimsins hafi komist að og sett sem markmið? Árið 2015 stefna þeir að því að þessi tala verði komin niður í 400 milljónir. Það er allur metnaðurinn. En þeir ráða ekki við meira. Samt er þar gert ráð fyrir að verði notaðar allar þessar ofannefndu aðferðir, enda ekki hægt öðru vísi."

Í samtali okkar hefur Björn sagt mér nokkrar skemmtilegar sögur um hvað hægt er að gera með þessum aðferðum og sem hann hafði sjálfur komið að, sem leiddu m.a. til Gaddafis í Líbýu og til þess að þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafsins snerust sem elsku vinir gegn sameiginlegum óvini. Þær frásagnir eru í sérstökum ramma með þessu viðtali.

Upphaf fræræktar á Íslandi

Það hljóta að hafa verið mikil viðbrigði að koma heim 1974 og taka við RALA, svo miklu minni og vanbúnari stofnun en hann átti að venjast? " RALA var tiltölulega ný stofnun, sett á laggirnar um 1965 og flutti inn á Keldnaholti um 1970. Þar var sem sagt allt í mótun og tækifæri til að byggja upp. Mér fannst þetta óskaplega spennandi. Þá var á árinu 1974 samþykkt þjóðargjöfin svonefnda til þess að vinna að endurheimt landgæða á 1.100 afmæli byggðar í landinu. Milljarður var mikið á þeim

tíma. Við á RALA unnum með Búnaðarfélaginu Halldóri Pálssyni,

Landgræðslunni Sveini Runólfssyni, og Sigurði Blöndal í Skógræktinni. Þetta var óskaplega skemmtilegt verkefni, því RALA fékk rannsóknaþáttinn. Með fullri virðingu fyrir öllu sem gert var í skógrækt og landgræðslu á tímum þjóðargjafarinnar, þá held ég að það sem mest stendur uppi hafi orðið árangur af rannsóknum á RALA í samvinnu við þessar stofnanir.

Ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi, upphaf fræræktar á Íslandi, sem ekki var til áður. Og við fengum styrki frá Sameinuðu þjóðunum. Vorum þá ennþá þróunarland. Gegnum Sameinuðu þjóðirnar og af þjóðargjöfinni fengum við mikið af tækjum. Þá lét ég setja upp fræræktarrannsóknastöð á Sámsstöðum til að rækta grasfræ, mel og fleira. Þarna var komið upp tilraunaframleiðslu. Rannsakað hvort við gætum búið til fræ, gæði fræsins o.s.frv. Árangurinn var svo mikill að ég held að hann einn mundi borga alla þjóðargjöfina. Nú framleiðum við nægt melfræ í alla landgræðslu, sem var ekki hægt áður, lúpínufræ og beringspuntinn, sem er mikil landgræðslujurt. Meira að segja sendum við beringsfræ til Alaska, því þeir kunna ekki að rækta það

Þegar þessum rannsóknaþætti var lokið var sett á laggirnar í Gunnarsholti stór og fullkomin fræræktarstöð. Þar rækta þeir fræið, hreinsa, þurrka það og selja. Þessi fræframleiðsla kom í kjölfar rannsóknanna. Auðvitað var öll þessi tækni að þróast. Þegar ég var að basla þetta var hvorki hægt að stunda jurtakynbætur á korni, grastegundum eða neinu öðru. Það vantaði aðstöðu til að framleiða fræið. En nú er hún orðin eins fullkomin og gerist hvar sem er í heiminum. Þetta byrjaði 1974.

Þegar ég kom heim og til RALA var aðeins helmingurinn af húsinu á Keldnaholti í notkun, hitt var bara fokhelt. Þá var mjög erfitt að fá fé innanlands. En ég var svo heppinn að ná sambandi við Kellogg's-stofnunina. Bauð þeim hingað heim í heimsókn og fékk eina milljón dollara fyrir RALA, sem var mikið fé á þeim tíma. Þá var Jón Óttar að koma til landsins og var að byrja kennslu í Háskólanum í matvælafræði, svo við settum peningana í að stofna matvælafæðudeild hjá RALA, samhliða matvælaskor HÍ, og kaupa fullkomin tæki til efnagreininga á matvælum, rannsókna á kjöti o.s.frv. Öll verkleg kennsla Háskólans, sem Jón Óttar stóð fyrir, fór fram á RALA. Við sköpuðum mjög góða aðstöðu á RALA til matvælarannsókna og fyrir þessa nýju skor við Háskóla Íslands. Þar að auki var lokið við að innrétta vesturálmuna, byggður fundarsalur og keypt fullkomnustu tölvutæki. Það var eiginlega eina tölvumiðstöðin á landinu. Tölvufræðingafélagið notaði alltaf okkar tölvubúnað. Þarna var því sett upp tölvuúrvinnslumiðstöð og keypt mjög vönduð efnagreiningatæki. Á mjög stuttum tíma komst RALA í fremstu röð rannsóknastofnana, eins og Vilhjálmur Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs, sagði á sínum tíma. Það var mjög gaman að eiga við þetta, ekki síst af því að maður fékk peninga, sem var einskær heppni.

Á þeim tíma voru hér fimm tilraunastöðvar, á Skriðuklaustri, Möðruvöllum, Reykhólum, Hesti og Sámsstöðum og þar að auki var tilraunastöðin á Korpu hér í Reykjavík. Við stofnuðum líka stöð með Búnaðarsambandi Suðurland á Stóra Ármóti í Árnessýslu og byggðum þar tilraunafjós. Síðan hafa verið lagðar niður stöðvarnar á Skriðuklaustri, Reykhólum. og Sámsstöðum.

Þetta voru spennandi verkefni og ég vildi ekkert fara frá þeim. Þegar ráðherra var beðinn um að lána mig til FAO í 3 ár, fór hann fram á að ég færi og fengi leyfi þann tíma. Starfið úti í Vín eftir þrjú ár var svo spennandi að ég gat heldur ekki farið þaðan. Var í 12 ár. Var því alls 23 ár erlendis.

Aftur er spurt af hverju kaus Björn þá aftur að koma heim 1995?

"Ráðuneytisstjórastaðan hér í landbúnaðarráðuneytinu var auglýst laus. Ég var í rauninni kominn fram yfir 62ja ára starfsaldursmörk hjá Sameinuðu þjóðunum, en yfirmaður minn bað mig um að vera áfram og hafði framlengt ráðninguna um tvö ár í viðbót. Úr því ráðuneytisstjórastaðan hér losnaði og ég vissi að liði að því að ég færi heim þá sótti ég um hana, fékk hana og sagði upp úti þótt ég mætti vera lengur. Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra vildi gjarnan fá mig og réði mig." Björn kom svo til Íslands 1. febrúar 1995.

Hvernig líkar honum að vera ekki lengur í rannsóknastörfum? "Ég fylgist auðvitað með okkar rannsóknastofnunum og hefi samband við þá sem þar starfa. Og sem ráðuneytisstjóri hefi ég unnið í hópum með þeim sem eru að vinna að rannsóknum.

Þetta er þó auðvitað allt öðru vísi starf. Ég er búinn að vera í rannsóknum og stjórnun rannsókna alla ævi. Og auðvitað nýtist það að hafa stjórnað stórum stofnunum og kunna að stjórna. Úti er þetta svolítið frábrugðið, því úti í Vín voru á rannsóknarstofunni sex deildir með 140 manns af 40 þjóðernum. Mestu viðbrigðin að koma hingað í íslenska stjórnsýslu og tekur tíma að venjast, er hve allt er smátt og hugsunarháttur nokkuð öðru vísi. Minnir mig stundum á Kýpur. Þetta er einhvers konar eyjaskeggjahugsunarháttur sem þarf að venjast. Svo verður maður að átta sig á því að fjöldi vandamála og tegund vandamála, sem ráðuneytið þarf að glíma við, eru eiginlega alveg eins hvort sem maður er með 5.000 bændur, 50.000 bændur eða jafnvel 500.000. Það tekur jafn langan tíma að búa til reglugerð til að þjóna 5.000 bændum. Stjórnsýslan á Íslandi er auðvitað hér sem í öðrum ráðuneytum mjög vanmönnuð. Félagar mínir segja stundum að maður verði að nota íslensku aðferðina, að fara ekki of mikið út í öll horn heldur á hundavaði til að hafa undan."

Björn skýrir þetta með dæmi: "Þegar aðfangaeftirlitið kemur til Brussel til að ræða um fóður, fræ og áburð, þá mætir frá Íslandi allt eftirlitið, einn maður, en hinu megin við borðið sitja kannski 10 Norðmenn, sem eru aðeins hluti af þeirra starfsemi heima. Þegar deildarstjóri í íslensku ráðuneyti er spurður hvað vinna margir í þinni deild er svarið oftast: Ég hefi aðgang að ritara. Í Danmörku vinna í eftirlitsdeildinni 450 manns. Það er auðvitað alveg merkilegt að við skulum yfirleitt geta funkerað. Það eru hrein undur og stórmerki að íslensk stjórnsýsla skuli vera jafn góð og hún er miðað við fámennið í ráðuneytunum. Mér finnst oft að við stöndum hér með slökkvitækið í hendinni til að slökkva elda í stað þess að skipuleggja brunavarnir."

Og Björn heldur áfram: "Munurinn á því að starfa við landbúnað frá því ég vann á RALA á 8. áratugnum og að vinna við landbúnað á síðustu fimm árum þessarar aldar er sá að á fyrra tímabilinu var landbúnaður í miklum uppgangi, stefnt að því að auka framleiðni og framleiðslu. En á þessu seinna tímabili er aðallega glímt við hvernig á að bregðast við áhrifum af aukinni framleiðni, þ.e.a.s. að fækka framleiðendum og minnka framleiðsluna, en viðhalda jafnframt byggð úti um landið."

En ef litið er til framtíðarinnar, fram á miðja næstu öld eins og við vorum að tala um hér fyrr? "Þá býst ég við að leggja þurfi mesta áherslu í heiminum á að auka landbúnaðarframleiðsluna og sú þörf er miklu meiri heldur en að bæta við nýju hugbúnaðarkerfi, nýrri samgöngutækni eða einhverju slíku, vegna þess að sveltandi maður hugsar hvorki né breytir rétt."

Eigum við þá að auka framleiðsluna á Íslandi? Nei, svarar Björn að bragði. "Það sem er einna skemmtilegast við að koma heim, eins og þú varst að spyrja um, það er raunar að geta keypt þessa úrvals matvöru af öllu tagi, fisk, kjöt, mjólkurafurðir og grænmeti. Það fær maður ekki alls staðar í heiminum. Og auðvitað kostar það meira.

Það er dýrt að borða góðan mat." Úr því við framleiðum dýran mat hjálpum við þá nokkuð upp á matarskortinn í heiminum? "Nei, það held ég sé útilokað. Þau gæði eru bara fyrir okkur."

Í þessu langa viðtali höfum við ekki nefnt fjölskyldu Björns. Kona hans Helga Pálsdóttir er þó búin að fylgja honum og styðja hann á öllu þessu flakki í starfi og leik. Og einkadóttir þeirra, Unnur Steina læknir, sem fædd er í New York og alin upp í Vínarborg skilaði sér heim. Hún er starfandi sérfræðingur í ofnæmissjúkdómum og býr hér með sinni fjölskyldu, eiginmanninum Kristni Hauki Skarphéðinssyni líffræðingi og tveimur börnum. Svo öll fjölskyldan heldur hópinn í sama landi, sem ekki er gefið við svona aðstæður. Kom aldrei annað til greina en að við ætluðum öll heim, segir Björn.